Flestir treysta Kristrúnu best til að leiða stjórn efnahagsmála

Samkvæmt nýrri könnun Gallup treysta 38% Kristrúnu Frostadóttur best til að leiða stjórn efnahagsmála á Íslandi.

„Nú segja allir flokkar að þeir leggi áherslu á að ná niður vöxtum og verðbólgu. En það skiptir ekki máli hvað þú segir heldur hvað þú gerir. Fólk veit að Samfylkingin er með plan til að kveða niður vexti og verðbólgu – og það er ánægjulegt að við njótum trausts til að leiða stjórn efnahagsmála,“ segir Kristrún um niðurstöður Gallup.

Tvöfalt fleiri treysta Kristrúnu en Sigmundi
Tæplega 38% sögðust treysta Kristrúnu best en þar á eftir koma Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokks, með tæplega 18% traust og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sem 17% treysta best til að leiða stjórn efnahagsmála. Þar á eftir kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, með 8,6% traust en leiðtogar annarra flokka mælast með minna.

Í samræmi við mælingu Maskínu
Þessar niðurstöður Gallup eru nokkurn veginn í samræmi við það sem nýleg könnun Maskínu sýndi varðandi traust til stjórnmálaflokkanna eftir mismunandi málefnasviðum. Þar kom fram að flestir treystu Samfylkingu best á sviði efnahagsmála eða um 26% landsmanna.

Könnun Gallup var gerð dagana 25. október til 1. nóvember, ríflega 79% tóku afstöðu og spurt var: „Formanni hvaða stjórnmálaflokks sem nú eru á þingi treystir þú best til að leiða stjórn efnahagsmála á Íslandi?“ Könnunin var framkvæmd að beiðni Samfylkingar.