Heilbrigðisþjónusta á Austurlandi í forgang
Á landsbyggðinni búa margir við þann raunveruleika að það getur verið dagamunur á því hvort þú fáir nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Örugg heilbrigðisþjónusta óháð búsetu er réttlætismál fyrir okkur í Samfylkingunni. Hér á Norðausturlandi kallar það á markvissar aðgerðir til að tryggja öruggan rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana í kjördæminu. Samfylkingin leggur ríka áherslu á að sækja fram í þessum málaflokki og tryggja að íbúar landsbyggðarinnar njóti á engan hátt lakari heilbrigðisþjónustu en þeir sem búa á Höfuðborgarsvæðinu.
Bættar samgöngur - aukið öryggi
Þegar sekúndur skipta máli þá er nauðsynlegt að efla sjúkraflug og sjúkraflutninga til að stytta biðtíma og auka öryggi þeirra sem þurfa á bráðri þjónustu að halda. Á sama tíma þarf að tryggja að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni þar til jafngóður eða betri kostur er tilbúinn.
Á sama tíma þarf að bæta vegakerfið og einungis kraftmikil innviðauppbygging mun bæta samgöngur og tryggja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Ísland hefur verið nokkuð langt undir meðaltali OECD-ríkja í fjárfestingum í samgöngumálum og þetta þarf að breytast.
Enginn ætti að þurfa að sleppa því að leita sér hjálpar vegna fjarlægðar eða kostnaðar, hvort sem um er að ræða líkamleg eða andleg veikindi. Niðurgreiðsla ferðakostnaðar fyrir þá sem þurfa að leita heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð er lykilatriði í þessu samhengi. Samfylkingin vill því tryggja að allir hafi raunverulegan aðgang að þjónustu óháð búsetu.
Þjóðarátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma
Enginn á að þurfa að búa við óvissu um hvort hann fái nauðsynlega umönnun á eldri árum. Við í Samfylkingunni viljum efla heimaþjónustu svo eldra fólk geti haft tök á að búa lengur heima. Við köllum eftir þjóðarátaki í uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarrýma en markmið síðustu ríkisstjórnar var að fjölga hjúkrunarrýmum um 700. Það tókst ekki og á sjö árum hefur aðeins verið úthlutað rúmlega 200 nýjum rýmum.
Réttlæti fyrir alla
Staðreyndin er sú að því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu þeim mun brothættari verður þjónustan. Samfylkingin ætlar að standa vörð um heilbrigðisþjónustu í landinu en við ætlum líka að sækja fram og tryggja að hún þjóni öllum landsmönnum jafnt.
Það er kominn tími til að leggja orðin til hliðar og hefjast handa. Öflug heilbrigðisþjónusta, betri samgöngur og aukin fjárfesting í innviðum eru ekki aðeins verkefni sem við getum tekið að okkur, þau eru verkefni sem við verðum að takast á við. Komdu með okkur í að sækja fram. Við vitum hvað þarf að gera, nú þurfum við bara að framkvæma það saman.