Jafnaðarstefnan er líka fyrir bændur

Ég hef verið í rekstri á sauðfjárbúi síðan árið 2009. Fjölskyldufyrirtæki á Vestfjörðum sem hefur gengið þokkalega, en ekkert meira en það.

Við vinnum öll utan búsins líka og rekum okkur alfarið á tekjum sem koma utan búsins. Búið rekur sig að mestu leiti sjálft, enda engin lán á rekstrinum og samstíga fólk sem þar starfar. Ég hef hálf skammast mín fyrir að vera bóndi undanfarin ár, læðst með veggjum og ekki talað mikið um það, enda koma tekjurnar annarsstaðar frá og ég hef átt erfitt með að segjast vera bóndi þegar ég rek mig ekki á tekjum af landbúnaði. Orðræðan hefur líka ekki verið bændum hliðholl þar sem orðræðan hefur oft verið að stéttin sé sníkjudýr á kerfisstyrkjum. Á sama tíma fer búum fækkandi, bændastéttin eldist og bændur eru oft á tíðum undir lágmarkslaunum.

En þarf þetta að vera svona?

Landbúnaður á Íslandi hefur mikla sérstöðu sem Samfylkingin vill virða. Að efla landbúnað er ekki aðeins þýðingarmikið fyrir fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar heldur einnig fyrir byggðaþróun í landinu. Mörg byggðarlög eiga mikið undir þegar kemur að landbúnaði. Blómlegar byggðir um land allt og sveitarómantíkin hefur átt undir högg að sækja, þrátt fyrir að vera mikilvægt sögulegt einkenni Íslands. Landbúnaður spilar stórt hlutverk í að byggja aftur upp og viðhalda öflugum byggðum víðsvegar um landið.

Samfylkingin ætlar að styðja við landbúnað á Íslandi með það fyrir augum að bændur geti lifað á greininni. Það þarf að nýta styrki hins opinbera betur til að bæta hag bænda ásamt því að stuðla að nýsköpun og fjölbreytni. Nauðsynlegt er að styrkja rekstrargrundvöll innlendrar matvælaframleiðslu áður en ráðist er í umfangsmikla endurskoðun innflutningstakmarkana.

Meðalaldur bænda á Íslandi er 66 ár og því þarf að huga sérstaklega að nýliðun og kynslóðaskiptum í landbúnaði og skapa eftirsóknarverð starfsskilyrði.

Vetrarþjónustu þarf að efla, ekki síst fyrir bændur. Fólk sem stundar rekstur á bújörðum víðsvegar um landið þarf að geta sótt sér þjónustu og þá þurfa vegir að vera opnir. Börn þurfa að sækja skóla, fólk þarf að geta komist til læknis, í búðina og verið þátttakandi í því samfélagi sem það býr í og það má ekki stranda á þjónustu á vegum.

Samfylkingin hefur hitt fjölmarga landsmenn, átt samtal við bændur og forystu þeirra við undirbúningi að útspili flokksins sem birtist í Kröfum um árangur í atvinnu- og samgöngurmálum.  Afkomuöryggi bændastéttarinnar þarf að vera í fyrirrúmi þegar kemur að breytingum í umhverfi bændastéttarinnar ásamt fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.

Samfylkingin er tilbúin að halda áfram samtalinu við bændur. Berjumst fyrir bættum kjörum bænda og rjúfum kyrrstöðuna í landbúnaði.

Greinin birtist í Bændablaðinu 9. nóv. 2024.