Lokaskilaboð Kristrúnar fyrir kosningar

Lokaskilaboð Kristrúnar til þjóðarinnar fyrir kosningar. Ræða flutt í Iðnó miðvikudaginn 27. nóvember.

I. Sögulegt tækifæri til að tryggja breytingar
Kæru vinir, takk! Takk af öllu hjarta. Takk fyrir að vona og trúa og taka þetta svona langt með okkur.

Þó að ég sé í forystu – þá vitum við öll að það eru mörg þúsund manns um landið allt, sem hafa lagt okkur lið og eiga hlut í þessu verkefni: Að koma Samfylkingunni aftur á rétta braut – og það höfum við gert. Til að koma Íslandi aftur á rétta braut. Til að tryggja breytingar – fyrir fólkið í landinu.

Við getum það – ég veit við getum það! Ef við stöndum áfram saman og klárum dæmið. Já. Við vinnum þetta saman!

Því kæru landsmenn – nú líður að stóru stundinni. Á laugardaginn verður kosið um framtíð Íslands. Við höfum 3 daga núna – til að tryggja breytingar næstu 10 árin.

Þetta er sögulegt tækifæri og það er þjóðin sem velur:
• Meira af því sama – eða nýtt upphaf með Samfylkingu?
• Áframhaldandi óreiða – eða traust forysta með Samfylkingu?
• Hörð hægristjórn – eða sterk jafnaðarstjórn með Samfylkingu?

Ríkisstjórn sem passar upp á það sem við eigum hérna saman, sem passar upp á landið allt, sem gengur í verkin og gerir það sem þarf – til að negla niður vextina, laga heilbrigðiskerfið og laga Ísland. Því að það ætlum við gera. Fáum við til þess traust í kosningunum á laugardaginn.

II. Fólkið í landinu þráir breytingar
Kæru landsmenn. Staðreyndin er sú að tækifæri okkar eru stórfengleg. Ísland er frábært land. En það er bara ekki alveg að virka núna – allavega ekki fyrir venjulegt fólk: Þessir alltof háu vextir, húsnæðisverðið, heilbrigðiskerfið, og svo margt fleira – sem við getum lagað og breytt til hins betra. Með nýrri forystu fyrir Ísland.

* * *

Í Þorlákshöfn sagði ung móðir að vextirnir væru að sliga fjölskylduna:

„Við erum að borga 150 þúsund krónum meira á mánuði,“ sagði hún. Af verðtryggðu láni! „Ríkisstjórnin hefur bara algjörlega brugðist fólkinu hérna.“

Sem er lýsandi fyrir stöðu alltof margra heimila, og það sama á við um fyrirtækin. Við ætlum að laga þetta!

* * *

Kona um sjötugt, á Sauðárkróki, sagði frá sárri reynslu á fundi Samfylkingar um heilbrigðismál:

„Það særir þjóðarstoltið,“  sagði hún, „að horfa upp á stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Eldra fólk er látið búa á spítalagangi eftir að hafa stritað alla ævi – því það fær ekki þjónustu við hæfi.“

Og hugsið ykkur, fyrir utan hvað þetta er ómanneskjulegt og stingur í hjartað – þá eykur þetta líka kostnað í kerfinu. Sem er dæmigert fyrir stöðuna svo víða í velferðarkerfinu okkar. Við ætlum að laga þetta!

* * *

Hvar sem við komum hittum við ungt fólk og fjölskyldur sem þrá ekkert heitar en öruggt húsnæði – þak yfir höfuðið – að þurfa ekki hrekjast á milli íbúða og borga þessa alltof háa leigu. Þetta er bara ósköp venjulegt fólk – sem er ekki að biðja um mikið. En það væri til í að eiga eitthvað afgangs kannski um mánaðamótin til að geta gert eitthvað skemmtilegt.

Og enn og aftur, þarna eru það öryrkjar og fátækir eldri borgarar sem verða verst úti – því að lífeyrir hefur dregist svo langt, langt aftur úr launum á vakt síðustu ríkisstjórnar. Við ætlum að laga þetta!

* * *

Já – kæru vinir. Fólkið í landinu þráir breytingar. Þetta vitum við – og þetta getum við fullyrt. Eftir að hafa hlustað á þjóðina á 150 opnum fundum og í 250 fyrirtækjum, bara á þessu ári. Og það er alveg sama í fyrirtækjunum – ekki síst þessum litlu sem eru föst í íslenskum vöxtum. Þau vilja breytingar – og þau vilja ríkisstjórn aðgerða.

Eins og við heyrðum hjá stjórnanda iðnfyrirtækis í Reykjavík, sem benti á að:

„Allir sem reka fyrirtæki vita að það þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti. Það sama gildir um Ísland,“ sagði hann. „Næsta ríkisstjórn þarf að byrja aftur að fjárfesta og byggja sterka innviði svo að atvinnulífið geti blómstrað.“ Og bætti svo við: „Kristrún, við getum ekki beðið eftir að það verði farið að stjórna landinu aftur.“

Svona er þetta alls staðar: Hvort sem um er að ræða veski heimilanna – velferðarkerfið – eða atvinnulífið.

Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta áfram – óbreytt ástand og meira af því sama. Og þess vegna þurftum við í Samfylkingunni að bjóða betri valkost en þessa þreyttu valdaflokka – sem hafa ráðið öllu í landstjórninni alltof lengi. Við ætlum að laga Ísland!

III: Saman breyttum við Samfylkingunni – til að breyta Íslandi
Hugsið ykkur, kæru vinir. Við erum komin svo langt. Það er svo mikil vinna að baki. Svo mikil samvinna við fólkið í landinu. Og nú er svo stutt í stóra tækifærið – en sigurinn samt svo langt frá því að vera í hendi. Þess vegna skulum við gefa allt í botn á lokasprettinum og vinna þetta saman.

Hvern hefði grunað? Þegar ég var að hengja upp plakatið í Bónus í Borgarnesi – til að auglýsa minn fyrsta opna fund sem nýkjörinn þingmaður. Að tveimur og hálfu ári síðar yrðum við komin hingað?

Á meðan ég var að þessu kom eldri kona og virti fyrir sér auglýsinguna. Og kallaði á manninn sinn. Þetta voru Ása og Sveinn – í Borgarnesi. Sem ég þekkti ekki neitt. En það lifnaði yfir þeim og þau sögðust bæði ætla að mæta á fundinn í Alþýðuhúsinu. Ég varð náttúrulega bara steinhissa. En það kom á daginn að Sveinn hafði um árabil verið formaður verkalýðsfélagsins í bænum. Og pabbi hans þar áður verið formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Síðan þá hef ég hitt þau reglulega. En þetta var eftirminnilegt. Og kveikti einhverja von hjá mér – því það minnti á að þó Samfylkingin hefði legið lágt og tapað áttum, og væri á þeim tíma að sleikja sárin eftir ósigur í kosningum, þá byggjum við á sterkum grunni.

Það er fólk um land allt með sterka jafnaðartaug sem hafði von og trú og hefur nú tekið virkan þátt í að styrkja aftur stöðu Samfylkingarinnar. Samtal fyrir samtal. Fund eftir fund. Og nú í kosningabaráttu. Því að Samfylkingin er flokkur hins almenna manns og við eigum sterkar rætur – sem ná allt aftur til 12. mars 1916, þegar Alþýðuflokkurinn var stofnaður og Alþýðusamband Íslands.

* * *

Og ég gleymi aldrei fyrstu spurningunni á þessum fyrsta opna fundi mínum sem þingmaður:

„Hvað ertu að gera hérna? Hvað ertu eiginlega að gera hérna?“

Þá voru þau hissa á að það væri kominn þingmaður til að halda fund í upphafi kjörtímabils. Með fólkinu í landinu. Og alla leið í Borgarnes!

„Af hverju ertu að þessu?!“

Já, hvern hefði grunað! Svarið er ennþá það sama í dag og það var í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi: Til að finna sameiginlegan þráð með þjóðinni.

Af hverju erum við að þessu? Til að finna sameiginlegan þráð. Til að sameina þjóðina. Til að tryggja breytingar – fyrir fólkið landinu.

Og þetta höfum við gert. Við byrjuðum á sjálfum okkur. Með því að fara aftur í kjarnann og ná aftur virkari tengingu við hinn almenna launamann. Saman breyttum við Samfylkingunni. Til að breyta íslenskum stjórnmálum. Til að breyta Íslandi – fyrir fólkið landinu. Líka þau sem eru ekki endilega að velta fyrir sér pólitík frá degi til dags. Þó Íslendingar séu oftar en ekki með sterka jafnaðartaug – og vilji flestir að við pössum upp á það sem við eigum hérna saman.

Nú getum við sagt fullum fetum: Samfylkingin er komin aftur – á réttan stað; þétt með þjóðinni, við hlið hins vinnandi manns og með puttann á púlsinum í íslensku atvinnulífi. Við erum með plan. Og við erum til þjónustu reiðubúin.

Takk – takk fyrir hjálpina – takk fyrir sjá tækifærin sem Ísland hefur með sterkri Samfylkingu. Og takk öll, svo innilega, fyrir að leggja okkur lið við að leiða breytingar. Ég nefndi Ásu og Svein. En ég hefði getað nefnt svo mörg ykkar. Nú fylkjum við okkur saman – og sækjum þennan sigur í kosningunum á laugardaginn – fyrir fólkið í landinu.

IV. Lokaskilaboð til þjóðarinnar: Tryggjum breytingar
Kæru landsmenn. Lokaskilaboð mín til þjóðarinnar fyrir þessar kosningar eru skýr:
Tryggjum breytingar!
Samfylkingin tryggir breytingar.
Við erum eini flokkurinn sem tryggir breytingar í þessum kosningum.

Af því að við erum eini flokkurinn sem er með plan um raunverulegar breytingar og trausta forystu sem getur leitt breytingar. Við höfum sýnt það í verki – við breyttum Samfylkingunni.

Við erum eini flokkurinn sem leggur alla áherslu á að byggja upp sterkari innviði og laga Ísland – hvort sem litið er á samgöngur, orku eða heilbrigðis- og velferðarkerfið okkar.

Og síðast en ekki síst er Samfylkingin eini stóri flokkurinn sem er ekki hluti af gömlu hægriflokkunum sem hafa stjórnað Íslandi alltof lengi! Ólíkt til dæmis Viðreisn og Miðflokki sem eru hægriflokkar og klofningsflokkar úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Samfylkingin er jafnaðarflokkur – sósíaldemókrataflokkur. Það er grundvallarmunur. Og nú er sögulegt tækifæri til að tryggja nýtt upphaf með Samfylkingu. En það verður að kjósa breytingar til að tryggja breytingar!

Því ef Samfylkingin fær ekki umboð til stjórnarmyndunar – sem stærsti flokkurinn á Alþingi – þá er raunveruleg hætta á að hér verði mynduð hörð hægristjórn. Með Sigmundi og Bjarna og Flokki fólksins, og jafnvel Viðreisn eða Framsókn. Þess vegna er þetta skýrt: Samfylkingin þarf að vera stærsti flokkurinn til að tryggja breytingar. Já – það er svo mikið í húfi. Snúum bökum saman og vinnum þetta saman!

* * *

Og kæru landsmenn – hvað ætlum við að gera til að leiða breytingar? Þið þekkið þetta.

Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimila og fyrirtækja:
Negla niður vextina
með því að hætta að reka ríkið á yfirdrætti
Standa með ungu fólki og fjölskyldum
með bráðaaðgerðum á húsnæðismarkaði
Tryggja öruggar tekjur um ævina alla
með því að hækka lífeyri TR í takt við laun og með nýju fæðingarorlofskerfi

Samfylkingin ætlar að laga heilbrigðiskerfið:
Með föstum heimilislækni sem þekkir þig
og öruggri heilbrigðisþjónusta óháð búsetu
Hlúum að fólkinu sem byggði landið
með þjóðarátaki í umönnun eldra fólks

Og Samfylkingin ætlar að styðja við atvinnulíf um landið allt:
Tvöfalda fjárfestingu í samgöngum
með tekjum frá auðlindum og aukinni verðmætasköpun
Byggja upp orkuinnviði
og styðja við orkuskipti með grænum hvötum

Já. Við ætlum að styrkja velferðina og stækka kökuna. Styrkjum velferðina og stækkum kökuna. Það getur Samfylkingin – því að við skiljum að það þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti.

Þetta verður fallegt Ísland – stolt þjóð með sterkt velferðarkerfi.

Hvaða flokkur tryggir breytingar? Samfylking. Hvaða flokkur tryggir breytingar? Samfylking.

* * *

Og spyrjum okkur reglulega – eins og fundargestirnir í Borgarnesi: Af hverju erum við að þessu?!

Kæru vinir, fyrir fólkið í landinu – konuna í Þorlákshöfn og fjölskyldu hennar, sem eru að sligast undan alltof háum vöxtum – alla sem lenda í því sama konan á Sauðárkróki, sem horfði upp á ástvin sem fékk ekki þjónustu við hæfi í heilbrigðiskerfinu þegar á reyndi, síðasta spölinn – fyrir unga fólkið sem hrekst um á húsnæðismarkaði, öryrkjana og eldri borgana sem þurfa að skrimta fyrir hver einustu mánaðamót.

Fyrir litlu fyrirtækin sem eru föst í íslenskum vöxtum og þrá stöðugleika – og fyrir atvinnulífið allt sem getur ekki beðið eftir að það verði byrjað að stjórna landinu aftur, eins og einn forstjóri hérna í Reykjavík komst að orði.

Haldiði að þessu fólki finnist vextirnir vera að virka? Húsnæðisverðið vera að virka? Heilbrigðiskerfið vera að virka?

Nei. Alls ekki. Segjum það bara hreint út: Leið Sjálfstæðisflokksins hefur ekki virkað. Fráfarandi ríkisstjórn hefur brugðist fólkinu í landinu.

Gleymum því ekki. Gleymum ekki hvað þau gerðu. Gleymum ekki hvernig þau lofuðu lágum vöxtum og stöðugleika en misstu alla stjórn – með þeim afleiðingum að vextirnir fóru upp og verðbólgan fór upp – og skattar á almenning hafa farið upp frá árinu 2013, til að bæta gráu ofan á svart. Nei, þessi leið hefur ekki virkað. Hvorki fyrir fólkið né fyrirtækin í landinu.

V. Lokaorð: 3 dagar – til að tryggja breytingar næstu 10 árin
Kæru landsmenn. Það er kominn tími á breytingar. 3 dagar – til að tryggja breytingar næstu 10 árin.

„Eftir langa bið, þá veit ég núna,
að ég þarf ekki – að missa trúna.“

Við vinnum þetta saman. Og breytingarnar byrja strax á laugardaginn – fáum við til þess traust hjá þjóðinni í kosningunum.

„Það kemur með þér.
Það kemur með þér.“

Og þá hefst vinnan fyrir alvöru. Takk! Takk kæru vinir! – Vonum, trúum og tökum þetta alla leið!

[TÓNLIST: VORIÐ MEÐ GDRN]