Neglum niður vextina
Grein Kristrúnar Frostadóttur í Morgunblaðinu 15. nóvember 2024.
Samfylkingin ætlar að negla niður vextina. Með hæfni í hagstjórn. Við munum lækka kostnað heimila og fyrirtækja í landinu – fáum við til þess traust í kosningunum 30. nóvember.
Þetta er stærsta hagsmunamál almennings á Íslandi, eftir óstjórn síðustu ára. Fráfarandi ríkisstjórn brást fólkinu í landinu með því að passa ekki upp á efnahagsmálin. Nú er kominn tími á breytingar.
Samfylking með plan
Samfylkingin er eini flokkurinn með plan um að negla niður vexti og verðbólgu. Allir flokkar tala um að gera þetta – en hverjum er treystandi? Allavega ekki þeim sem hafa stjórnað landinu síðustu árin, og ekki þeim sem lofa öllum öllu alls staðar.
Plan Samfylkingar til að negla niður vextina er þríþætt: Bráðaaðgerðir í húsnæðismálum til að fjölga íbúðum strax. Stöðugleikaregla í ríkisfjármálum til að ríkissjóður hætti að valda verðbólgu. Og tiltekt í ríkisrekstri ásamt tekjuöflun með skynsamlegum skattkerfisbreytingum – án þess að hækka skatta á almenning.
Bráðaaðgerðir
Við ætlum að fjölga íbúðum strax með bráðaaðgerðum í húsnæðismálum. Annars vegar með því að losa um íbúðarhúsnæði sem er þegar til en ekki nýtt til íbúðar og hins vegar með því að liðka fyrir fjölgun íbúða sem er hægt að koma hratt á markaðinn.
Til þess ætlum við að ná stjórn Airbnb, byggja einingahús og breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir með hvötum fyrir einkaaðila. Þannig fjölgum við íbúðum á annað þúsund á næstu tveimur árum, umfram áætlanir, sem heldur aftur af hærra húsnæðisverði – og þar með verðbólgu og vöxtum.
Samfylkingin hefur líka kynnt í kerfisbreytingar til lengri tíma til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það viljum við gera með því að stilla saman hagsmuni ríkis, sveitarfélaga og byggingaraðila. Þar þarf að hefjast handa strax.
Stöðugleikaregla
Stöðugleiki er stærsta efnahagsmálið. Nú hafa stýrivextir verið 9% í meira en 1 ár. Verðbólga hefur verið yfir markmiði í 4 ár. Og samkvæmt áætlunum fráfarandi ríkisstjórnar stefnir í að hallarekstur verði á ríkissjóði í 9 ár.
Við ætlum að breyta lögum um opinber fjármál til að tryggja stöðugleika. Það gerum við með því að taka upp svokallaða stöðugleikareglu. Tilgangurinn er að tryggja að „verðbólgufroðunni“ sé ekki eytt strax, eins og fráfarandi ríkisstjórn hefur gert, heldur að nýjum rekstrarútgjöldum sé mætt með því að afla tekna og/eða hagræða á móti. Þannig aukum við trúverðugleika hagstjórnar og komum í veg fyrir að ríkissjóður sé beinlínis að valda verðbólgu eins og verið hefur.
Tiltekt og tekjuöflun
Loks ætlum við að taka til í ríkisrekstrinum. Það er nauðsynlegt og það er eilífðarverkefni, þó að nú sé staðan að vísu sérlega slæm víða í opinbera kerfinu. Samfylkingin vill velta við hverjum steini og byrja á tiltekt í efsta laginu með fækkun ráðherra og ráðuneyta.
Til þess þarf að fara betur með fé í opinberum framkvæmdum og skerpa á ábyrgðarskiptingu með nýjum heildarlögum um opinberar fjárfestingar. Brýnt er að setja reglur um innri endurskoðun hjá ríkisstofnunum, sem fráfarandi ríkisstjórn hefur trassað. Og draga verður skipulega úr skriffinnsku, meðal annars í heilbrigðiskerfinu, og efla stafræna innviði til að halda aftur af rekstrarkostnaði hins opinbera til lengri tíma litið.
Sumt af þessu kallar á fjárfestingu. Eins og allir sem hafa rekið fyrirtæki vita þá þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti. Þess vegna vill Samfylkingin gera skynsamlegar skattkerfisbreytingar – til að afla tekna með sanngjörnum hætti og fjárfesta í undirstöðum Íslands. Almenn auðlindagjöld eru efst á blaði í þeim efnum ásamt því að skrúfa fyrir skattaglufur í kerfinu sem nýtast einungis fólki sem er með verulega háar fjármagnstekjur.
Hætta á hægriglundroða
Svona neglum við niður vextina með Samfylkingu.
Við vitum að Sjálfstæðisflokkur hefur hækkað vexti, hækkað verð og hækkað skatta á vinnandi fólk frá árinu 2013. Þar hefur ekkert breyst þó að nú sé reynt að lofa gulli og grænum skógum. En stjórnmálamenn sem segjast geta lækkað skatta og skorið hratt og mikið niður, á sama tíma og þeir lofa bættri þjónustu, aukinni fjárfestingu og lægri skuldum – og um leið hríðlækkandi verðbólgu og vöxtum – þeir eru ekki að segja satt. Enda væri það of þægilegt til að geta verið satt.
Valkostirnir í komandi Alþingiskosningum eru skýrir: Annars vegar glundroðastjórn til hægri – sem er ekki ávísun á neitt nema áframhaldandi hallarekstur og óstjórn í efnahags- og velferðarmálum.
Hins vegar er val um nýtt upphaf og sterka ríkisstjórn með Samfylkingu sem neglir niður vextina og verðbólguna. Það er öruggasta leiðin til að lækka kostnað heimila og fyrirtækja og hefjast handa við að laga Ísland.
Kristrún Frostadóttir,
formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands