Samfylking tryggir breytingar
Grein Kristrúnar Frostadóttur í Morgunblaðinu 28. nóvember 2024.
Á laugardaginn verður kosið um framtíð Íslands. Þá fær þjóðin loksins að gera upp við fráfarandi stjórnarflokka og svara fyrir sig með kjörseðlinum. Þessar kosningar eru sögulegt tækifæri til að tryggja breytingar.
Valkostirnir eru skýrir: Meira af því sama eða nýtt upphaf? Áframhaldandi óreiða eða traust forysta? Hörð hægristjórn eða sterk jafnaðarstjórn með Samfylkingu?
Samfylkingin vill leiða ríkisstjórn sem gengur í verkin og gerir það sem þarf til að negla niður vextina, laga heilbrigðiskerfið og laga Ísland. Ísland er frábært land en það er svo margt sem við getum lagað og breytt til hins betra – fáum við til þess traust í kosningunum.
Fólkið þráir breytingar
Við vitum að fólkið í landinu þráir breytingar. Þetta get ég fullyrt eftir að hafa átt samtal við þjóðina á 150 opnum fundum og í 250 fyrirtækjum.
„Við borgum 150 þúsund krónum meira á mánuði,“ sagði ung móðir í Þorlákshöfn. „Ríkisstjórnin hefur bara algjörlega brugðist fólkinu hérna.“ Fjölskyldan er að sligast undan þessum alltof háu vöxtum og það sama á við um fyrirtækin.
„Það særir þjóðarstoltið,“ sagði kona um sjötugt á Sauðárkróki, „að sjá stöðuna í heilbrigðiskerfinu – þar sem eldra fólk er látið búa frammi á spítalagangi, eftir að hafa stritað alla ævi, vegna þess að það fær ekki þjónustu við hæfi.“ Þetta er ómanneskjulegt – en eykur líka kostnað, sem er alveg dæmigert fyrir stöðuna alltof víða í velferðarkerfinu okkar.
Og hvar sem við komum hittum við ungt fólk og fjölskyldur sem þrá ekkert heitar en öruggt húsnæði, þak yfir höfuðið, í stað þess að hrekjast milli íbúða og borga alltof háa leigu. Öryrkjar og fátækt eldra fólk verða verst úti – því að lífeyrir hefur dregist svo langt aftur úr launum á vakt síðustu ríkisstjórna.
Við ætlum að laga þetta. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni áfram upp á óbreytt ástand og meira af því sama. Og þess vegna þurftum við í Samfylkingunni að bjóða betri valkost en þessa þreyttu flokka sem hafa stjórnað landinu alltof lengi.
Við breyttum Samfylkingunni
Mörg þúsund manns um landið allt hafa lagt okkur lið. Við komum Samfylkingunni aftur á rétta braut til að koma Íslandi aftur á rétta braut. Til að tryggja breytingar fyrir fólkið í landinu.
Við getum það – við getum leitt breytingar – og höfum sýnt það í verki. Við byrjuðum á sjálfum okkur með því að fara aftur í kjarnann og færa okkur nær fólkinu í landinu. En við byggjum á sterkum grunni og höfum notið góðs af því að það er fjöldi fólks um land allt, með sterka jafnaðartaug, sem hafði von og trú og hefur tekið virkan þátt í því með okkur að styrkja á ný stöðu Samfylkingarinnar á landsvísu.
Ég gleymi aldrei fyrstu spurningunni á fyrsta opna fundinum mínum sem nýkjörinn þingmaður. Það var í Alþýðuhúsinu í Borgarnesi: „Hvað ertu að gera hérna?“ Já. „Hvað ertu eiginlega að gera hérna?“
Þá voru þau hissa á að það væri kominn þingmaður til að halda fund í upphafi kjörtímabils, með fólkinu í landinu – og alla leið í Borgarnes! En af hverju erum við eiginlega að þessu? Svarið er ennþá það sama og það var í Alþýðuhúsinu þennan dag:
Til að finna sameiginlegan þráð. Til að sameina þjóðina. Til að tryggja breytingar fyrir fólkið í landinu. Og nú getum við sagt fullum fetum að Samfylkingin er komin aftur – á réttan stað; þétt með þjóðinni, við hlið hins vinnandi manns og með puttann á púlsinum í íslensku atvinnulífi.
Við erum með plan og við erum til þjónustu reiðubúin.
Tryggjum breytingar
Lokaskilaboð mín til þjóðarinnar fyrir kosningar eru skýr: Tryggjum breytingar. Samfylkingin tryggir breytingar. Og við erum reyndar eini flokkurinn sem tryggir breytingar í þessum kosningum.
Það er vegna þess að við erum eini flokkurinn sem er með plan um breytingar og líka trausta forystu sem getur leitt þær, eins og við höfum sýnt í verki. Við erum eini flokkurinn sem hefur lagt áherslu á að byggja upp sterkari innviði og laga Ísland – hvort sem litið er á samgöngur, orku eða heilbrigðis- og velferðarkerfið okkar. Og síðast en ekki síst er Samfylkingin eini stóri flokkurinn sem er ekki hluti af gömlu hægriflokkunum sem hafa stjórnað hérna alltof lengi. Ólíkt til dæmis Viðreisn og Miðflokki sem eru hægriflokkar og klofningsflokkar úr Sjálfstæðisflokki og Framsókn.
Samfylkingin er jafnaðarflokkur – sósíaldemókrataflokkur, eins og þeir sem hafa byggt upp einhver farsælustu samfélög í heimi á Norðurlöndum. Það er grundvallarmunur á Samfylkingu annars vegar og öllum hinum flokkunum hins vegar.
Nú er sögulegt tækifæri til að tryggja breytingar og nýtt upphaf fyrir Ísland með sterkri Samfylkingu. En það verður að kjósa breytingar til að tryggja breytingar. Því ef Samfylkingin fær ekki umboð til að mynda nýja ríkisstjórn – þá er raunveruleg hætta á að hér verði mynduð hörð hægristjórn, til dæmis með Sigmundi Davíð og Bjarna og Viðreisn og kannski Framsókn eða Flokki fólksins. Sem nær ekki stjórn á efnahagsmálunum og heldur áfram að veikja velferðarkerfið okkar.
Þess vegna er nauðsynlegt að Samfylkingin verði stærsti flokkurinn til að tryggja breytingar.
Lögum Ísland
Staðreyndin er sú að tækifæri okkar eru stórfengleg. Ísland er frábært land. En það er ekki alveg að virka núna.
Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimila og fyrirtækja: Negla niður vextina með því að hætta að reka ríkið á yfirdrætti. Standa með ungu fólki og fjölskyldum með bráðaaðgerðum á húsnæðismarkaði. Og tryggja öruggar tekjur um ævina alla með því að hækka lífeyri TR í takt við laun og með nýju fæðingarorlofskerfi.
Samfylkingin ætlar að laga heilbrigðiskerfið: Með föstum heimilislækni sem þekkir þig og öruggri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við ætlum að hlúa að fólkinu sem byggði landið með þjóðarátaki í umönnun eldra fólks.
Og Samfylkingin ætlar að styðja við atvinnulíf um landið allt: Tvöfalda fjárfestingu í samgöngum með tekjum frá auðlindum og aukinni verðmætasköpun, auk þess að byggja upp orkuinnviði og styðja við orkuskipti með grænum hvötum.
Þannig ætlum við að styrkja velferðina og stækka kökuna. Því að Samfylkingin skilur að það þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti. Eins og við heyrðum hjá stjórnanda iðnfyrirtækis í Reykjavík:
„Allir sem reka fyrirtæki vita að það þarf að fjárfesta til að skapa verðmæti. Sama gildir um Ísland,“ sagði hann. „Næsta ríkisstjórn þarf að byrja aftur að fjárfesta og byggja upp sterka innviði svo að atvinnulífið geti blómstrað um allt land.“ Og bætti svo við að lokum: „Kristrún, við getum ekki beðið eftir að það verði farið að stjórna hérna aftur.“
Svona er þetta alls staðar. Hvort sem um er að ræða veski heimilanna, velferðarkerfið eða atvinnulífið. Leið Sjálfstæðisflokks hefur ekki virkað. Nú höfum við 3 daga til að tryggja breytingar næstu 10 árin.
Við vinnum þetta saman.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar – jafnaðarflokks Íslands