Takk Oddný
Í gær flutti Oddný Harðardóttir, þingmaður, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, sína síðustu ræðu á Alþingi.
Oddný er einn reynslumesti stjórnmálamaður landsins og hefur ferill hennar einkennist af heilindum og hugsjón. Ítrekað hefur hún stigið upp til ábyrgðar við erfiðar aðstæður, bæði fyrir land og þjóð en einnig fyrir Samfylkinguna.
Oddný var fyrst kjörin á Alþingi 2009, í brotsjó efnahagshrunsins. Hún varð fyrst kvenna fjármálaráðherra árið 2011 til 2012, iðnaðarráðherra 2012 og aftur fjármála- og efnahagsráðherra 2012. Sem ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og VG eftir hrun steig hún upp á erfiðum tíma fyrir þjóðina og sinnti starfi sínum af einstakri alúð. Aftur reis hún undir ábyrgð á erfiðum tíma í Samfylkingunni sem formaður árið 2016.
Á ferli sínum á Alþingi hefur Oddný brunnið fyrir kjarnamálum jafnaðarstefnunnar og ekki síst efnahags-, auðlinda-, mennta- og velferðarmálum. Oddný hefur barist ötullega fyrir hagsmunum launafólks og almennings á Íslandi. Á vettvangi flokksins hefur hún reynst hlýr félagi félaga sinna, ábyrgur leiðtogi og traustur vinur.
Samfylkingin færir Oddnýju kærar þakkir fyrir störf hennar í þágu lands og þjóðar og í forystusveit Samfylkingarinnar síðastliðin 16 ár.