Verður Palestínu eytt af yfirborði jarðar?
Í 400 daga hefur geisað stríð sem á sér engan líka á Gasa-ströndinni. Þar hefur Ísraelsher drepið fleiri börn en dæmi eru um í nokkru öðru stríði á jafn skömmum tíma.
Öllum reglum um stríðsrekstur og mannúðarlögum hefur verið ýtt til hliðar. 70% þeirra sem eru látin er börn og konur. Staðfest tala látinna er tæplega 44 þúsund manns og slösuð eru ekki færri en 103 þúsund. Þar af, fjöldi barna og ungmenna sem hefur misst útlimi og brennst illa. Mörg hundruð þúsund manns hafa í rúmt ár verið á vergangi innan Gasa við illan aðbúnað og stanslaust sprengjuregn.
Áður en hryðjuverkasveitir Hamas gerðu árásina á Ísrael 7. október 2023 bjuggu 2,3 milljónir manna á Gasa á einhverju þéttbýlasta svæði jarðar. Helmingur íbúa var og er börn. Gasa er í rúst, nærri 90% bygginga þar hafa orðið fyrir skemmdum eða eru ónýtar. Allir sem fylgjast með fréttum hafa séð myndir af eyðileggingu sem aðeins er hægt að líkja við ummerkin eftir kjarnorkusprengingarnar í Japan eða eldsprengingarnar í Dresden í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Ég hef áður ritað í þetta blað um Hamas og ríkisstjórn Ísraels. Um það hvernig öfgar og illska hafa haft yfirhöndina í báðum tilvikum. Hið endanlega markmið öfgamannanna í Ísrael og í Palestínu er að ganga af hugmyndinni um tveggja ríkja lausn dauðri. Friðarviðræður hafa ítrekað siglt í strand og nú virðast sáttasemjarar í Miðausturlöndum hafa gefist upp á verkefninu. Lausn gíslanna sem Hamas hefur í haldi er ekki í sjónmáli. Ísreal er búið að reka UNRWA - líflínu Palestínu - á brott. Það er hrikalegur forboði um það sem koma skal.
Donald Trump tekur aftur við forsetaembætti í Bandaríkjunum í janúar. Hann hefur nú þegar tilnefnt yfirlýsta stuðningskonu Ísraelsstjórnar sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Samband hans við forsætisráðherra Ísraels er náið og látið í það skína að hendur Netanjahús séu óbundnar. Margt bendir til þess að innlimun Vesturbakkans í Ísraelsríki sé næst á dagskrá. Biden fráfarandi Bandaríkjaforseti hefur ekki beitt Netanjahú þeirri einu raunverulegu þvingun sem hann hefur; að stöðva vopnasendingar til Ísraels. Fátt bendir til þess að það verði gert.
Eftir stendur að stríðinu er langt frá því að vera lokið og snýst um allt önnur markmið en að útrýma forystu Hamas. Það er búið og gert. Hið yfirgengilega ofbeldi sem beitt hefur verið síðasta árið á Gasa virðist vera hætt að snerta okkur. Þegar þess orð eru rituð vofir hungursneyð yfir 400 þúsund manns sem eru innlyksa á norðuhluta Gasa. Draumurinn um sjálfstæða Palestínu hefur aldrei virst jafn fjarlægur og heimsbyggðin horfist í augu við þjóðarmorð.
Á meðan sitja valdaherrarnir með hendur í skauti og halda vopnasölunni áfram. Dómur sögunnar verður þungur.