Áramótaávarp forsætisráðherra
Áramótaávarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, flutt á RÚV 31. desember 2024.
I.
Góðir Íslendingar, gleðilega hátíð.
Áramót gefa tilefni til að staldra við og huga að tímanum sem líður og horfa um leið til framtíðar. Þau vekja minningar og tilfinningar en líka vonir og drauma. Hvert og eitt eigum við sérstæða upplifun af árinu sem senn er á enda. Hjá mörgum ríkir gleði á meðan aðrir finna fyrir sorg og söknuði á þessum tímamótum – eða einhvers konar blöndu sem má kalla ljúfsára tilfinningu. Slíku deilum við helst með okkar nánustu fjölskyldu, vinum og samferðafólki. En sumir eru einir og á þessum tíma árs skulum við hugsa sérstaklega hlýtt til þeirra sem eru einmana.
Margt eigum við þó sameiginlegt með öllum Íslendingum – sem miklu skiptir og bindur okkur saman sem þjóð. Það getur átt við um minningar frá liðnum tíma en líka vonir okkar um það sem verða skal.
Í þessu felst styrkur. Því saman getum við tekist á við hvern þann vanda sem að okkur steðjar og það munum við gera. Við ætlum að halda áfram að sækja fram og styrkja og varðveita það sem við eigum hérna saman.
II.
Kæru landsmenn, á þessari stundu vil ég taka stöðuna, eins og stundum er sagt: Hvar stendur Ísland? Hvernig líður þjóðinni? Höfum við gengið til góðs og hvert liggur leiðin?
Við vitum að síðustu ár hafa verið mörgum erfið, svo sem vegna faraldurs, eldsumbrota í Grindavík og síðast en ekki síst vegna stöðu efnahagsmála. Náttúruöflin verður alltaf erfitt að eiga við – en stjórn efnahagsmála er í okkar höndum hvað sem líður ytri aðstæðum.
Verðbólga og háir vextir hafa þrengt að heimilum og vegið að eðlilegum starfsskilyrðum í atvinnulífi. Við munum taka á þessu. Það verður ekki alltaf auðvelt. En þetta er algjört forgangsverkefni hjá nýrri ríkisstjórn.
* * *
Á sama tíma hefur grafið um sig tilfinning meðal þjóðarinnar um að velferðarkerfið okkar – gersemi og þjóðarstolt þess samfélags sem við höfum byggt hér upp – standi ekki lengur undir eðlilegum og réttmætum væntingum fólksins í landinu. Og þetta er ekki aðeins tilfinning heldur blákaldur veruleiki margra. Við vitum að Ísland er auðugt land og hér er mikil efnahagsleg velsæld. Um það vitna allar hagtölur. En framhjá þessari tilfinningu og veruleika fólks verður ekki litið.
Á meðan margir sjá samfellda framfaragöngu þá geta aðrir upplifað afturför og fundið fyrir slíku á eigin skinni. Það verður ekki skýrt í burtu með vísun í opinberar hagtölur. Því að fólkið í landinu veit sínu viti og það er tilfinning of margra að hér sé vitlaust gefið. Þegar svo er þá ber okkur sem veitum forystu í stjórnmálum að gefa því gaum og hugleiða alvarlega hvað megi betur fara.
Það þýðir ekki að allt sé ómögulegt á Íslandi. Þvert á móti. Ísland er frábært land og við megum vera stolt – en aldrei fyllast sjálfumgleði. Það er eilífðarverkefni að byggja velferðarsamfélag. Og hlutverk stjórnmálaleiðtoga er ekki að útskýra fyrir fólki hvað það hafi það gott – heldur að leiða sókn og leysa vanda með því að láta verkin tala.
Þetta er áskorun sem við tökumst á hendur með vongleði og kjark í brjósti. Til þess vorum við kosin.
* * *
Í alþjóðlegu samhengi er staða Íslands góð. Við megum vera þakklát fyrir að búa við frið. En það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og því fylgja alvarleg viðfangsefni fyrir stjórnvöld, hérlendis eins og annars staðar.
Stríðsrekstur í okkar heimshluta minnir illilega á að öryggi og friður eru grundvallarforsenda frelsis og velmegunar. Við Íslendingar eigum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og rétti fullvalda ríkja. Þess vegna verðum við að taka virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi og fordæma með afgerandi hætti hvers kyns brot á alþjóðalögum. Á næstu árum skulum við leitast við að efla enn frekar samstarf okkar við önnur vestræn lýðræðisríki – þar á meðal vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum.
* * *
Í það heila tekið má segja að aðstæður í efnahags- og velferðarmálum séu krefjandi. Það sama gildir um ytri aðstæður og þróun alþjóðamála. En krefjandi aðstæður eru ekkert nýtt – og hver sagði að þetta ætti að vera auðvelt? Heimsbyggðin hefur svo sannarlega séð það svartara. Og fyrri kynslóðir Íslendinga hafa verið stórhuga og yfirstigið meiriháttar þrekraunir. Við getum gert slíkt hið sama – ef við göngum samstíga til verka.
Þrátt fyrir allt eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Aldrei hafa fleiri kosið í lýðræðislegum kosningum eins og á árinu 2024. Tæplegar helmingur jarðarbúa gekk til landskosninga.
Á Íslandi fóru fram kosningar til embættis forseta og til Alþingis. Kosningaþátttaka var góð. Fólkið valdi nýjan forseta og ný ríkisstjórn tók til starfa fyrir 10 dögum. Fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, þökkum við fyrir störf hans í þágu lands og þjóðar. Og við óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Sömuleiðis ber að þakka fráfarandi ríkisstjórn fyrir að standa vaktina við stjórn landsins síðustu ár.
III.
Ljóst er að niðurstöður þingkosninga þann 30. nóvember voru sögulegar á marga lund. Skýrt ákall um breytingar hljómaði hátt og snjallt, vítt og breitt um land, og það endurspeglast meðal annars í hreinum stjórnarskiptum sem er sjaldgæft í íslenskum stjórnmálum. Þrír flokkar hafa myndað nýja ríkisstjórn, sem ekki voru áður í stjórn, eftir að hafa fengið sterkt umboð í kosningunum – ríflega meirihluta atkvæða.
Breytingar eru eðlilegur hluti af lýðræðislegu þjóðskipulagi. Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka og hefur einsett sér að standa undir væntingum fólks um breytingar í veigamiklum málaflokkum, líkt og rakið er í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar.
Þó gengið verði rösklega til verka er nauðsynlegt að gera það af virðingu. Gæta þarf að sjónarmiðum þeirra sem greiddu atkvæði sitt til flokka sem nú standa utan ríkisstjórnar eða jafnvel utan Alþingis. Ég heiti því að leggja mig fram um að gegna embætti forsætisráðherra í þágu allra landsmanna.
* * *
Nú er von í lofti og segja má að andi breytinga svífi yfir vötnum í íslensku samfélagi. Við vitum að tækifæri okkar eru stórfengleg. Við vitum líka að verkefnin eru stór og blasa hvarvetna við okkur. En við ætlum að takast á við vandamálin í sameiningu og leysa þau eftir fremsta megni.
Ég mun leitast við að tala kjark í þjóðina með því að segja hlutina eins og þeir eru og tala af hreinskilni um verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Það verður ekki allt auðvelt. En við höfum skyldum að gegna, gagnvart hvert öðru, landi og þjóð.
* * *
Fyrsta verk er að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið er nauðsynlegt að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífi.
Heimili og fyrirtæki hafa þegar gripið til aðgerða til að hagræða. Ríkisstjórnin mun gera það sama og á fyrsta vinnudegi nýs árs efnum við til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri.
Vandinn hefur verið sá, á umliðnum árum, að stjórnvöld hafa gjarnan samþykkt að auka útgjöld – án þess að ná saman um að afla fjár eða draga úr öðrum útgjöldum á móti. Þegar þessi háttur er hafður á, og bætt ofan á mikla þenslu í hagkerfinu, þá kyndir það undir verðbólgu og leiðir þar með til hærri vaxta en ella.
Því er afar mikilvægt, og gleðilegt, að ný ríkisstjórn hafi náð fullri samstöðu um að eyða ekki um efni fram. Þess í stað hyggst ríkisstjórnin hagræða og grípa til aðgerða til að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Einnig verða tekin upp almenn og réttlát auðlindagjöld til þess að standa undir aukinni fjárfestingu í innviðum. Þetta eru mikilsverð tíðindi sem lofa góðu. Þá er brýnt að skoða ofan í kjölinn ýmsa kerfislæga þætti sem valda ójafnvægi í íslensku hagkerfi – lánamarkað, húsnæðismál og gjaldmiðil.
* * *
Með þessari stjórnarstefnu má vænta þess að vextir lækki þegar líður á næsta ár. Heimili og fyrirtæki munu njóta þess þegar í stað. Og eftir því sem hagur okkar vænkast mun skapast svigrúm fyrir nýja ríkisstjórn til að hefjast handa við að lyfta greiðslum almannatrygginga og styrkja heilbrigðis- og velferðarþjónustu um land allt, svo dæmi séu nefnd.
Á meðal fyrstu verka í velferðarmálum, sem hægt verður að ráðast í hratt á nýju ári, er að fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda og tryggja að þeim verði ekki lokað yfir sumartímann. Þá verður ráðist í bráðaaðgerðir til að setja húsnæðisöryggi í forgang og ný ríkisstjórn leggur sérstaka áherslu á að stytta biðtíma barna eftir nauðsynlegri þjónustu.
Kjaragliðnun launa og lífeyris verður stöðvuð strax með því að tryggja að örorku- og ellilífeyrir hækki á hverju ári til samræmis við hækkun launavísitölu – en þó aldrei minna en verðlag.
* * *
Ríkisstjórnin mun ganga rösklega til verka í orkumálum með aðgerðum til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta nýtni. Þannig verður stutt við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.
Þá hyggst ríkisstjórnin leiða þjóðarátak í umönnun eldra fólks, meðal annars fjölga hjúkrunarrýmum og efla heimahjúkrun, og vinna að þjóðarmarkmiði um fastan heimilislækni fyrir alla landsmenn. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur. Og þjóðinni gefinn kostur á að segja hug sinn varðandi framhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, eigi síðar en á árinu 2027.
Margt fleira mætti nefna en stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er stutt og skýr og segir sína sögu.
IV.
Kæru landsmenn. Allt hefur sinn tíma. Og nú eru tímamót. Það er gleðilegt að finna vonir glæðast, vítt um land, og sjá að sú tilfinning birtist í mánaðarlegum mælingum á væntingum landsmanna.
Ég trúi því af heilum hug að það sé bjart framundan fyrir okkur sem hér búum og í íslensku þjóðlífi. Saman getum við náð miklum árangri í næstu framtíð og lagt grunninn að enn fegurra Íslandi, þar sem allir fá sæti við borðið – og tækifæri til að tilheyra, taka þátt og eiga hlutdeild í samfélaginu.
Komum hreint fram. Stöndum saman. Göngum í verkin.
Ég óska landsmönnum öllum gæfu á nýju ári og hamingju með hækkandi sól.