Guðmundur Ari nýr þingflokksformaður Samfylkingar

Ný stjórn þingflokks Samfylkingar var kjörin á þingflokksfundi í dag.

Guðmundur Ari Sigurjónsson var kjörinn þingflokksformaður, Arna Lára Jónsdóttir verður varaformaður stjórnar þingflokks og Kristján Þórður Snæbjarnarson ritari.

Kosningin var samkvæmt tillögu formanns flokksins. Guðmundur Ari tekur við stöðu þingflokksformanns af Loga Einarssyni sem nú hefur tekið til starfa sem menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

„Það er mikil ábyrgð og heiður sem fylgir því vera formaður í þingflokki jafnaðarmanna. Samfylkingin hefur átt öflugan þingflokk og eftir kosningar fjölgaði verulega í hópnum. Ég hlakka til að vinna með þessu fjölhæfa fólki í góðu samstarfi við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og aðra flokka á Alþingi. Við höfum verk að vinna,“ segir Guðmundur Ari um kjörið.

Guðmundur Ari hefur verið formaður framkvæmdastjórnar í Samfylkingunni frá landsfundi haustið 2022. Hann hefur setið í sveitarstjórn á Seltjarnarnesi frá árinu 2014.