Forsætisráðherra og forseti ASÍ á leiðtogafundi SAMAK

Árlegur leiðtogafundur Samráðsnefndar jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum (SAMAK) fer fram í Osló í dag.

„Áherslan leiðtogafundarins í ár er á öryggismál í víðu samhengi. Þar á meðal efnahagslegt öryggi almennings en ekki síður öryggis- og varnarmál. Ég kom einmitt til Oslóar beint frá Kænugarði og var samferða forsætisráðherrum Noregs og Danmerkur. Jafnaðarflokkarnir á Norðurlöndum er á algjörlega á einu máli um mikilvægi þess að styrkja sameiginlegar varnir okkar, NATO og Evrópu,“ segir Kristrún um fundinn í Osló.

Á meðal annarra þátttakenda eru meðal annars Jonas Gahr Støre forsætisráðherra Noregs, Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, Aksel V. Johannesen lögmaður Færeyja, Magdalena Andersson formaður Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð og fyrrverandi forsætisráðherra og Antti Lindtman formaður Sósíaldemókrataflokksins í Finnlandi.

Þakklát fyrir samstarfið í SAMAK
Kristrún flutti ræðu við upphaf fundarins – sem nýjasti forsætisráðherrann í hópnum – og tók þátt í pallborðsumræðum formanna flokkanna um öryggi að hætti jafnaðarmanna (n. sosialdemokratisk tryghet). Þar ræddi annars samhengið milli varnarmála og velferðar – og benti á að Ísland nyti friðar og velsældar sem meðal annars grundvallast á öryggi okkar og traustu varnarsamstarfi.

Í ræðu sinni sagði Kristrún frá störfum nýrrar ríkisstjórnar og kosningasigri Samfylkingar og þakkaði hún fyrir samstarfið í SAMAK. „Takk. Í alvöru – þúsund þakkir. Fyrir stuðninginn á síðustu árum. Fyrir innblásturinn. Og fyrir að standa vörð um samstöðuna og samvinnuna í hreyfingunni okkar – þvert á landamæri Norðurlanda. Það skiptir máli,“ sagði Kristrún og ítrekaði að Samfylking hefði notið góðs af samstarfi jafnaðarflokka og alþýðusambanda á Norðurlöndum.

Kallar eftir umræðu í verkalýðshreyfingunni um varnarmál
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sat leiðtogafundinn og tók einnig þátt í pallborðsumræðum með kollegum sínum frá Norðurlöndum um efnahagslegt öryggi. Hann telur að verkalýðshreyfingin eigi einnig að gera sig gildandi í umræðu um varnir Íslands og viðbrögð okkar við þróun alþjóðamála.

„Meginefni fundarins var öryggis- og varnarmál á Norðurlöndum. Ástandið í Evrópu er alvarlegra en við heima á Íslandi upplifum það – og eins og formaður finnska Alþýðusambandsins sagði þá dofnar upplifunin af öryggisleysi með aukinni fjarlægð frá Úkraínu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessi ógn steðjar líka að okkur og verkalýðshreyfingin á Íslandi þarf að hafa skoðun á því hvernig Ísland bregst við,“ segir Finnbjörn.

Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, forseti Ungs jafnaðarfólks, tók einnig til máls á fundinum og lagði áherslu á mikilvægi þess að Norðurlöndin yrði áfram í fararbroddi á sviði mannréttinda. Meðal annarra fulltrúa frá Íslandi á fundinum voru Auður Alfa Ólafsdóttir og Magnús M. Norðdahl frá ASÍ og Kjartan V. Valgarðsson frá Samfylkingu sem einnig situr í stjórn SAMAK.

  • Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, í pallborði.
  • Forsætisráðherrar Íslands og Noregs.
  • Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, forseti UJ.