Ræða Jóhanns Páls

Ræða Jóhanns Páls Jóhannssonar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi, 10. febrúar 2025.

Hæstvirtur forseti.

Góðir landsmenn, þið senduð okkur skýr skilaboð í Alþingiskosningum 30. nóvember.

Þjóðin kaus breytingar og breytingarnar byrja strax.

Með tiltekt í ríkisrekstri og breyttu verklagi við stjórn opinberra fjármála.

Með laga- og reglugerðarbreytingum til að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum.

Með markvissum húsnæðisaðgerðum, úrbótum á fæðingarorlofskerfinu og kjarabótum fyrir eldra fólk og öryrkja.

Svona byrjum við. Og markmiðið er skýrt: að stækka kökuna og styrkja velferðina.

Forseti, ég veit að fjöldi fólks hefur áhyggjur af flugvellinum í Vatnsmýrinni, réttmætar áhyggjur. Þess vegna vil ég segja þetta: Það er forgangsmál okkar að tryggja flugöryggi vallarins. Ríkisstjórnin stendur með Reykjavíkurflugvelli á meðan annar jafngóður eða betri kostur er ekki tilbúinn. Og innviðaráðherra ríkisstjórnarinnar hefur gert borgarstjóra Reykjavíkur fullljóst að fella verði tré í Öskjuhlíð sem valdið hafa lokun á austur vestur brautinni í Vatnsmýrinni. Þetta þarf að gerast eins fljótt og kostur er.

Gripið verður til sérstakra aðgerða ef frekari tafir verða á þessu. Í millitíðinni liggur á að tryggja að flugbrautin geti nýst fyrir sjúkraflug þegar þörf er á. Þess vegna er nú unnið að sérstöku áhættumati fyrir sjúkraflug sem gæti skapað grundvöll til undanþágu í neyðartilfellum. Það er mikilvægt að þingheimur allur sé meðvitaður um þetta.

Forseti.

Á undanförnum vikum höfum við fengið til liðs við okkur 4 þúsund manns, heilt prósent þjóðarinnar, í hugmyndavinnu um hagræðingu í ríkisrekstri, einföldun stjórnsýslu og bætta forgangsröðun fjármuna.

Umræðan hefur seytlað um allt samfélagið, verkalýðshreyfingin hefur tekið þátt í henni, einstök fyrirtæki hafa tekið þátt og atvinnurekendasamtök – en sumar af bestu tillögunum berast innan úr kerfinu sjálfu, frá fólki sem er einfaldlega steinhissa á því hvernig farið hefur verið með opinbert fé á undanförnu árum, hvernig fyrrverandi stjórnarflokkar fóru með vald sitt og fóru með stjórnkerfið á Íslandi.

Það er þessi óreiða sem við ætlum að vinda ofan af. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mun berja niður verðbólguvæntingar og vaxtastig.

Við gerum það með því að sýna aga í ríkisfjármálum og koma húsnæðismarkaðnum í fastari skorður.

Þetta er planið og nú er það komið til framkvæmda.

Vextir lækkuðu í síðustu viku og þeir munu halda áfram að lækka, við munum sjáum til þess, jafnvel þótt það kalli á óþægilegar ákvarðanir, því við erum ekki í pólitík til að kaupa okkur vinsældir um stundarsakir – heldur til að ná árangri fyrir land og þjóð.

Og auðvitað mætum við andstöðu. Það fyrsta sem heyrðist frá Sjálfstæðisflokkunum var gagnrýni á að ný ríkisstjórn ætlaði að binda lífeyri við laun, tryggja eldra fólki og öryrkjum sams konar hækkanir og verða á vinnumarkaði. Og formaður Framsóknarflokksins, háttvirtur þingmaður sem kom ekki einum einustu jarðgöngum af stað á sjö árum og sat í ríkisstjórn sem kom ekki einum einustu virkjunarframkvæmdum yfir 10 megavött af stað á sjö árum, hann sakar núna nýja ríkisstjórn um andlandsbyggðarstefnu. Er það nú?

Og reyndar beit hann höfuðið af skömminni með því að ljúga því blákalt hérna að þingheimi að hæstvirtur forsætisráðherra hefði ekki ávarpað kennara í ræðu sinni, hefði ekki vikið að menntamálum eða ávarpað kennara þarna úti sem hún gerði svo sannarlega. Það er látt risið á stjórnarandstöðunni hérna í kvöld.

En það sem kannski stuðar gömlu valdaflokkana mest, það er að ný ríkisstjórn vilji innheimta sanngjörn auðlindagjöld og binda þjóðareign auðlinda í stjórnarskrá.

Það skapar óvissu, segja þau.

En ég segi við Sjálfstæðismenn: kveinið bara, farið í öll þau setuverkföll sem ykkur sýnist. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mun stöðva kjaragliðnun milli lífeyris og launa –

því það er réttlætismál. Og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mun tryggja þjóðinni aukna hlutdeild í arðinum af auðlindum, vegna þess að við eigum þessar auðlindir saman.

Þetta er réttlætismál en líka liður í því að koma jafnvægi á rekstur ríkisins eftir óstjórn síðustu ára, þetta er líka liður í að koma jafnvægi á rekstur ríkisins sem er forsenda þess að við getum stutt og styrkt opinbera þjónustu til framtíðar og rekið sterkt velferðarþjóðfélag á Íslandi.

Það er planið. Þetta er nákvæmlega það sem þessir þrír flokkar voru kosnir til að gera. Og aðgerðir okkar í loftslagsmálum munu bera þess merki, að við erum ríkisstjórn sem þjónar vinnandi fólki. Þess vegna kemur ekki til greina virðulega forseti að fara í orkuskipti sem bitna á tekjulægri hópum eða íbúum í dreifbýli umfram aðra. Það kemur ekki til greina. Áherslur ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum munu styðja við byggðaþróun og styðja við atvinnuuppbyggingu um allt land.

Ábyrg hagstjórn og aukin framleiðni í atvinnulífi eru forsenda þess að við getum sótt fram í velferðarmálum og passað betur hvert upp á annað. Þetta er það leiðarstef sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur vinnur eftir.

Þess vegna tökum við til í ríkisrekstrinum. Þess vegna vinnum við gegn fákeppni og greiðum fyrir samkeppni. Þess vegna leysum við strax Hvammsvirkjunarmálið með lagasetningu, einföldum leyfisferla og liðkum fyrir orkuöflun. Þess vegna munum við rjúfa kyrrstöðuna í samgöngumálum og koma þjóðhagslega arðbærum framkvæmdum af stað.

Allt í þágu vaxtar og verðmætasköpunar, til að stækka kökuna og styrkja velferðina.

Um þetta er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur mynduð og breytingarnar byrja strax.