Kristrún á Viðskiptaþingi: „Stækkum kökuna og styrkjum velferðina“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra á þingi Viðskiptaráðs 13. febrúar 2025 í Borgarleikhúsinu.

I.
Viðskiptaþing – góðir gestir.

Það er gleðilegt að fá tækifæri til að ávarpa svo glæsilegan hóp athafnafólks og fulltrúa úr íslensku atvinnulífi. Bæði fyrir mig sem fyrrverandi starfsmann Viðskiptaráðs – mér finnst nú ekki sérlega langt síðan ég flutti heim eftir nám og nokkurra ára starf erlendis, og þá tók ég einmitt við af Birni Brynjúlfi framkvæmdastjóra sem hagfræðingur. En nú er ég snúin aftur sem forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn, sem nýtur meirihlutastuðnings á Alþingi eftir nýliðnar kosningar.

Takk fyrir að taka mér svona vel, þá og nú. Við höfum verk að vinna. Og ég veit að við getum átt góða samleið á næstu árum.

* * *

Já. Ég er með góðar fréttir fyrir ykkur. Ég ætla ekki að nota tækifærið til að fara yfir einhverjar hagtölur eða glærur um stöðu mála. Engar áhyggjur samt – ég er ekki að fara að spreyta mig á uppistandi. Heldur ætla ég að ræða í stuttu máli stefnu nýrrar ríkisstjórnar og skilaboð okkar til atvinnulífsins.

Hverju munum við breyta? Hvernig ætlum við að vinna? Og hvað getum við gert saman?

Þið fenguð ríkisstjórn sem er viðskiptavæn – sem gengur í verkin, heggur á hnúta og klárar mál. Það munar um minna fyrir fyrirtækin og atvinnulífið

II.
Góðu fréttirnar eru þessar: Þið fenguð ríkisstjórn sem er viðskiptavæn – sem gengur í verkin, heggur á hnúta og klárar mál. Það munar um minna fyrir fyrirtækin og atvinnulífið. Verkstjórn. Eins og þið sjáið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í störfum okkar fyrstu vikurnar. Við ætlum áfram. Við látum verkin tala. Og við hikum ekki við að hrista upp í hlutunum og taka stórar ákvarðanir – til að fylgja eftir þeirri stefnu og þeim breytingum sem við vorum kosin til að leiða.

Þannig munum við vinna. Þið getið lagt okkur lið. Við skulum gera þetta saman. En við ætlum áfram. Enda erum við ekki föst í viðjum vanans. Þessi ríkisstjórn er ekki fangi sterkra hagsmunaafla eða stífrar hugmyndafræði. Þótt maður sé með ákveðna lífsskoðun. Ég veit að þið eruð öll með auga fyrir góðum tækifærum. Og þið sjáið þá væntanlega að það eru mikil tækifæri í þessari stöðu – fyrir fyrirtækin, fólkið og Ísland allt.

* * *

En að því sögðu þá er það ekki þannig að við þykjumst hafa öll svörin. Þess vegna tökum við samtalið og virkjum þjóðina með okkur – eins og til dæmis í þessu skemmtilega hagræðingarverkefni sem ég veit að mun skila miklum árangri og er þegar farið að hafa áhrif á hugsunarháttinn í stjórnkerfinu og víðar.

Ég veit alveg að við verðum ekkert alltaf sammála um allt – það verður aldrei hægt og það eru alltaf ólíkir hagsmunir að togast á, þar sem þarf að finna eitthvað jafnvægi. Þá tölum við samt bara hreina íslensku. Og berum virðingu fyrir ólíkum hagsmunum og sjónarmiðum og tökum þau til greina. Eins og þið vitið! Þið þekkið okkur – þið vitið hvernig við vinnum:

Eins og þegar við breyttum Samfylkingu – til að færa okkur nær fólkinu í landinu. Þá heimsóttum við til dæmis 250 fyrirtæki, bara í fyrra, og það var ekki spurt um flokksskírteini. Við komum bara til að hlusta og læra af ykkur um landsins gagn og nauðsynjar og vera með puttann á púlsinum í íslensku atvinnulífi.

Og ég má bara til með að þakka aftur fyrir móttökurnar. Ég lærði svo mikið af þessu persónulega og það er hreint út sagt ótrúleg upplifun – að fá svona nærmynd af því hvað er verið að gera merkilega hluti í fyrirtækjunum okkar, vítt og breitt um landið. Takk, segi ég, og áfram!

III.
Ísland er frábært land. En eitt er að fyllast stolti yfir því sem við höfum þegar gert og áorkað – annað að líta til framtíðar og spyrja hvað við gætum gert með ríkisstjórn sem mætir væntingum og metnaði fólks eins og ykkar?

Ég er sjálf af þeim skóla að ég lít svo á að verðmætasköpun sé ekki einkaframtak fjármagnseigenda og forstjóra – þó ég beri mikla virðingu fyrir hlutverki beggja hópa og hafi fullan skilning á mikilvægi öflugra stjórnenda, frumkvöðla og forystufólks í atvinnulífi. En ég held reyndar að flestir átti sig á að verðmætasköpun er einmitt samvinnuverkefni – launafólks, atvinnurekenda og, já, hins opinbera. 

* * *

Skilaboðin til atvinnulífsins eru skýr: Við ætlum að stækka kökuna og styrkja velferðina. Ekki annað hvort – heldur bæði. Vinnum saman. Vinnið með okkur. Fjárfestum í innviðunum. Trúið mér, við getum skapað svo mikil verðmæti á Íslandi. Og spýtt þeim áfram inn samfélagið – með stolti af því sem við eigum hérna saman og því sem gerir okkur yfir höfuð mögulegt að reka þetta markaðshagkerfi sem við höfum.

Svo ég spyr ykkur: Hvað getum við gert saman á næstu árum til að stækka kökuna? Á meðan þið hugsið málið skal ég byrja á að nefna fimm atriði – sem við getum síðan tekið stöðuna á aftur, ef mér verður boðið á Viðskiptaþingi að ári:

(1) Náum aftur stöðugleika og lækkun vaxta:
Þegar við heimsóttum fyrirtækin hringinn í kringum landið kom svo skýrt fram að það snýst ekki allt um skatta. Vextir, laun og annar kostnaður getur sveiflast margfalt meira og sú summa hefur í raun miklu veigameiri áhrif á rekstur flestra fyrirtækja – þó að skattprósentan sé vissulega há á Íslandi, eins og í öðrum velferðarríkjum.

Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur gerði sitt með ábyrgum kjarasamningum á síðasta ári – en stýrivextir Seðlabankans hafa ennþá ekki lækkað nema úr 9,25% í 8%. Og við vitum að ríkisfjármálin hafa verið í ákveðnum ólestri. Þarna eru mikil tækfæri.

Þannig að ný ríkisstjórn mun innleiða stöðugleikareglu. Við erum að taka til í rekstrinum og hagræða og ætlum líka að bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum í skattkerfinu. Allt þetta, ásamt aðgerðum í húsnæðismálum, mun stuðla að stöðugleika í efnahagslífi. Og í þessu er allur stuðningur vel þeginn. Það þarf gera þetta djarflega en varlega.

(2) Náum sátt um auðlindagjöld og orkuöflun:
Aðeins með breiðri pólitískri sátt um almenn auðlindagjöld getum við skapað meiri fyrirsjáanleika í atvinnugreinum sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda. Þannig eru hagsmunir þessara greina best tryggðir til lengri tíma. Skýr og réttlátur rammi er lykill að aukinni fjárfestingu og verðmætasköpun í auðlindagreinum – eins og sjávarútvegi, sjókvíaeldi, ferðaþjónustu og orkuframleiðslu. Þarna er til mikils vinna og ég vonast til að ríkisstjórnin fái aðstoð héðan til að gera þetta vel. Ég bendi á að við erum að ganga beint til verka í orkumálum – en þó af þeirri fagmennsku og virðingu sem nauðsynleg er til að nokkur sátt geti náðst í svona viðkvæmum málaflokki. Þetta skiptir máli og þarna getum við unnið saman og það væri best fyrir alla.

(3) Lyftum aftur fjárfestingu hins opinbera:
Með því að endurheimta stöðugleika, hagræða í ríkisrekstri og styrkja skattkerfið skapast svigrúm til að auka fjárfestingu hins opinbera í innviðum. Ég hef stundum bent á að fjárfesting í samgöngum á Íslandi er um 0,5% af vergri landsframleiðslu en í öðrum ríkjum OECD er meðaltalið um 1% – tvöfalt meira, þó að við búum svo sannarlega í strjálbýlu landi.

Þarna verðum við að gera miklu betur. Og það á ekki bara við efnislega innviði á borð við samgöngur. Lyftum opinberri fjárfestingu og hvetjum um leið til aukinnar fjárfestingar einkaaðila á Íslandi. Þetta þetta vinnur saman og þetta verður forgangsmál hjá mér sem forsætisráðherra.

(4) Fækkum stofnunum og styrkjum stjórnsýslu:
Til að bæta þjónustu við borgarana og auka skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera. Nú eru stofnanir ríkisins um 160 talsins – og sveitarfélögin eru enn 62 að tölu þó að þeim hafi fækkað á undanförnum árum og áratugum.

Það eru augljós tækifæri sem felast í því að gera stofnanir ríkisins færri, skilvirkari og áreiðanlegri í þjónustu. En það þarf að gera þetta á réttan hátt – og af virðingu fyrir fólki sem sinnir mikilvægum störfum. Það er hins vegar eilífðarverkefni að styrkja stjórnsýslu og leita hagræðis í rekstri, eins og þið vitið nú öll mætavel. Og þarna ætlar ríkisstjórnin að taka til hendinni.

(5) Mótum atvinnustefnu fyrir Ísland:
Til að auka framleiðni í íslensku hagkerfi. Með því að sjá til þess að hið opinbera ýti undir það að framleiðsluþættir okkar nýtist þar sem framleiðni er mikil og þar með verðmætasköpun sem styrkir samfélagið allt. Tryggjum fyrirtækjum eðlilegan fyrirsjáanleika. Ryðjum hindrunum úr vegi sem þjóna litlum eða óljósum tilgangi. Hættum að innleiða regluverk sem er óþarflega íþyngjandi og gætum betur að hagsmunum okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Og síðast en ekki síst skulum við sameinast um að taka fast á félagslegum undirboðum – sem grafa undan íslenskum vinnumarkaði og skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja og vinna þar með gegn aukinni framleiðni í hagkerfinu.

Ríkisstjórnin mun móta atvinnustefnu með áherslu á þetta – sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni og vel launuð störf. Og ég hyggst skipa atvinnustefnuráð með ráðgefandi hlutverk sem vinnur þvert á ráðuneyti og leggur mat á stöðu atvinnugreina, framleiðni, sjálfbærni hagvaxtar og áhrif á vinnumarkað og innviði. Ég mun vafalaust kalla til fólk úr ykkar röðum til að taka þátt í þessari vinnu, og hlakka til að hefjast handa.

* * *

Stöðugleiki og lægri vextir, sátt um nýtingu auðlinda, aukin fjárfesting í innviðum, sterkari stofnanir og atvinnustefna fyrir Ísland. Þetta getum við gert með því að taka höndum saman. Og lagt grunninn að forskoti Íslands til framtíðar.

IV.
Því ef við tölum bara í alvöru: Erum við að fara að snarlækka skatta og skera allt niður á næstu árum hjá hinu opinbera? Gleymið hugmyndinni. Það er ekki að fara að gerast. Það er ekki stuðningur við neitt slíkt – hvorki hjá nýrri ríkisstjórn né fólkinu í landinu.

Og þess vegna er orku okkar allra best varið í það að stækka kökuna og styrkja velferðina. Með stolti og þakklæti fyrir samfélagið sem við eigum hérna og minnug þess hvaðan við komum. Ég veit að við eigum klárlega samleið í þessu verkefni því að ég veit alveg að þið eruð ekki bara drifin áfram af því að geta sýnt heilbrigðan hagnað í lok árs, þó að það sé mikilvægt. Við erum öll í einhverri tengingu við okkar nærsamfélag og þjóð og brennum fyrir því að gera eitthvað stórt og taka þátt í einhverju sem bætir líf fólks, þegar upp er staðið.

Enda vitum við öll að farsælustu samfélög heims eru velferðarríki með sterkar opinberar stofnanir sem passa upp á að markaðurinn virki. Þar sem ríkir traust er best að stunda viðskipti. Og einfaldur samanburður – hvort sem það er milli ríkja eða yfir tíma síðustu áratugi – sýnir bara svo ekki verður um villst að þetta fer best hönd í hönd: Öflug verðmætasköpun og sterk velferð. Þó það sé til einhver hugmyndafræði um það að þetta gangi ekki upp saman þá tala öll gögnin sínu máli.

Erum við ekki núna að fara tala um næsta Novo Nordisk? Sem varð til í velferðarríkinu Danmörku þar sem jafnaðarfólk hefur gjarnan mótað áherslur í viðskipta- og velferðarmálum. Eða þó það væri ekki nema næsta Kerecis. Við getum þetta. Við vitum alveg að samfélagsgerðin okkar getur gefið svigrúm fyrir einkaframtakið til að byggja upp stórfengleg fyrirtæki og við skulum vinna áfram á þeim grunni.

V.
Viðskiptaþing. Þetta eru spennandi tímar – ærin verkefni og mikil tækifæri. Ég mun beita mér fyrir því að við förum í þetta saman frekar en að tínast út á jaðrana. Þetta gerðum við í Samfylkingunni. Og þetta viljum við gera í nýrri ríkisstjórn.

Sem forsætisráðherra mun ég leggja mig eftir því að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær – á tímum þegar vísað er til vaxandi sundrungar. Og ég vil höfða bæði til forystufólks í viðskiptalífi og verkalýðshreyfingu og öðrum sviðum þjóðlífsins að byggja enn frekar undir samheldni í íslensku samfélagi. Í þágu lands og þjóðar. Þannig mun okkur farnast best.

Takk fyrir mig. Til hamingju með vel heppnað þing og njótið dagsins.

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti ræðu á Viðskiptaþingi.