Varnir kvenna gegn ofbeldi

Þessi pistill er ekki einungis ritaður til að vekja athygli á ofbeldisfaraldrinum heldur einnig til að votta baráttustarfi og minningu Ólafar Töru Harðardóttur virðingu.

Það eru ekki mannréttindi að ofsækja fólk, sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra aðspurð um hertar aðgerðir til að framfylgja nálgunarbanni. Þar hún hitti hún naglann á höfuðið eins og svo oft áður. Nýr dómsmálaráðherra hyggst styrkja varnir kvenna og barna gegn ofbeldi karla. Já, svokallað kynbundið ofbeldi snýst í í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella um ofbeldi karla gegn konum. Ég bind miklar vonir við þessar nauðsynlegu aðgerðir. Þær eru löngu tímabærar og senda skýr skilaboð til samfélagsins um að ríkisvaldið standi undir þeirri frumskyldu sinni að tryggja öryggi borgaranna.
Öryggismál eru oftast rædd í samhengi þjóðaröryggis en öryggi og mannhelgi einstaklinganna sem búa innan landamæra ríkisins eru ekki síður brýnt öryggismál. Í aðdraganda alþingiskosninganna sat ég opinn fund í Iðnó ásamt fulltrúum annarra framboða um jafnréttismál. Samtökin sem standa að Kvennaárinu 2025 buðu til fundarins. Þar minnti ég á þá ömurlegu staðreynd að enn á því „herrans“ ári 2024 væru konur á Íslandi og annars staðar í veröldinni í mestri hættu inni á heimilum sínum. Þeim stafar miklu minni hætta af hryðjuverkum, þótt halda mætti annað af umfjöllun fjölmiðla.
Ummæli írsku leikkonunnar Saoirse Ronan í breskum spjallþætti í vetur vöktu mikla athygli og flugu um netið. Þar sat hún í sófa með öðrum leikurum, körlum, sem voru að grínast með það hvernig þeir hefðu þurft að læra sjálfsvörn vegna hlutverks í kvikmynd. Hún brást við með einni setningu: „Konur þurfa alltaf að vera hugsa um þetta.“ Mennirnir þögnuðu. Í einni setningu afhjúpaði hún veruleikann sem stelpur og konur búa við, líka í friðsælum löndum.
Í kröfum Kvennaársins vegna kynbundins ofbeldis, segir meðal annars: „Um 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár og annað kynsegin fólk, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en önnur. 15% stúlkna í 10. bekk og 6% stráka hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi annars unglings. Ofbeldi í netheimum getur verið jafn alvarlegt og ofbeldi í raunheimum, en 58% stúlkna og 35% drengja hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.“ Það þarf augljóslega að efla varnir gegn kynbundnu ofbeldi svo um munar.
Þessi pistill er ekki einungis ritaður til að vekja athygli á ofbeldisfaraldrinum heldur einnig til að votta baráttustarfi og minningu Ólafar Töru Harðardóttur virðingu. Hún steig fram og sagði sögu sína. Hún var ein af stofnendum Öfga og svo Vitundar nú í upphafi árs. Ólöf Tara „berskjaldaði sig inn að beini í þágu breytinga“, eins og hún sjálf komst að orði. Fyrir það ber að þakka um leið og við syrgjum enn eitt fórnarlamb kynbundins ofbeldis á Íslandi.
Grein birt í Morgunblaðinu 8. febrúar 2025