Kjördæmavikan - samtal við fólkið í landinu

Í síðustu viku var kjördæmavika en þá eru gerð hlé á hefðbundnum þingstörfum og þingmenn hvattir til að sinna kjördæmunum.
Í þetta sinn var þingflokknum skipt upp í hópa sem heimsóttu mismunandi kjördæmi, þar sem viðtökurnar voru afar góðar og samtölin gagnleg. Við fórum
Áhersla var lögð á að funda með sveitarfélögum, fyrirtækjum, félagasamtökum og fólki til að hlusta á þeirra sjónarmið og ræða leiðir til að styrkja innviði og bæta lífskjör um allt land.
Suðurland
Á mánudaginn byrjuðum við á heimsókn til Sigurhæða, þar sem unnið er mikilvægt og viðkvæmt starf í þágu þolenda kynbundins ofbeldis. Það var fróðlegt að fá innsýn í þá þjónustu sem veitt er, en markmið samtakanna er að veita stuðning og úrræði fyrir þá sem hafa orðið fyrir ofbeldi.
Næst var það Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þar sem þingmenn og heilbrigðisráðherra ræddu við starfsfólk um stöðu heilbrigðismála á svæðinu. Einnig var haldinn góður opinn stjórnmálafundur á Selfossi þar sem fjórir þingmenn okkar, þeirra á meðal Alma heilbrigðisráðherra, svöruðu spurningum fundargesta.
Á þriðjudag heimsótti hópur þingmanna okkar svo starfsstöð Lands og skógar í Gunnarsholti og komið var við á formlegri opnun nýrrar lögreglustöðvar á Vík í Mýrdal. Aðstaðan sem komin er þar byltir starfsumhverfi lögreglu á svæðinu.
Á Hvolsvelli tók umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra þátt í opnun nýrra höfuðstöðva Náttúruverndarstofnunar á miðvikudag. Við erum spennt að sjá stofnunina vaxa og styrkja störf sín á sviði verndar lífríkis og náttúruauðlinda Íslands.
Það var líka á dagskrá að sigla til Vestmannaeyja og funda með bæjarstjórninni og fulltrúum atvinnulífs en það gekk því miður ekki upp. Þingmenn okkar bíða spenntir eftir að komast til Eyja við tækifæri.
Suðurnes
Á miðvikudaginn heimsóttum við líftæknifyrirtækisins Algalíf, sem framleiðir astaxanthíni úr örþörungum. Þetta fyrirtæki er dæmi um vel heppnað nýsköpunarframtak, sem býr til verðmæti úr náttúrulegum auðlindum.
Næst var haldið á Ásbrú, þar sem Landhelgisgæslan var heimsótt. Þar var fjallað um öryggismál, mikilvægi Gæslunnar í íslenskri samfélagsgerð og þær áskoranir sem hún stendur frammi fyrir. Starf Landhelgisgæslunnar er gríðarlega mikilvægt fyrir landið, ekki bara þegar kemur að björgun og öryggismálum heldur einnig varðandi eftirlit með auðlindum og verndun hafsvæða okkar.
Eftir heimsóknina á Ásbrú var farið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þar var rætt um stöðu heilbrigðisþjónustunnar í kjördæminu.
Deginum lauk með opnum fundi í Reykjanesbæ, þar sem þingmenn og heilbrigðisráðherra funduðu ásamt Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ. Fundurinn var líflegur og gaf okkar fólki góða innsýn í hvað brennur á íbúum svæðisins.
Norðvesturkjördæmi
Í raun má segja að við höfum þjófstartað kjördæmavikunni í Norðvesturkjördæmi, en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hélt opinn fund í Borgarnesi fimmtudagskvöldið 20. febrúar. Fundurinn var vel sóttur og mjög góður.
Hópur þingmanna okkar gerði svo víðreist um kjördæmið í síðustu viku. Við hófum þriggja daga ferð með notalegu kaffispjalli á Akranesi. Í framhaldinu var fundað með sveitarstjórnum á Vesturlandi þar sem helstu málefni svæðisins voru til umræðu, eins og innviðauppbygging, samgöngur og atvinnumál.
Þaðan var ekið á Ísafjörð og staða vegamála í kjördæminu tekin út um leið. Á Ísafirði tók við þéttur dagur. Þar var farið í heimsókn til Kerecis og fengu þingmenn okkar kynningu á þeirri mögnuðu starfsemi. Við heimsóttum líka rækjuvinnsluna Kampa, sem er stór atvinnuveitandi á svæðinu og leggur mikla áherslu á sjálfbærni í sjávarútvegi. Menntaskólinn á Ísafirði var næstur á dagskrá, þar sem við fengum að heyra frá bæði kennurum og nemendum um stöðu skólamála á svæðinu.
Við enduðum Ísafjarðardaginn á heimsókn í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, þar sem við ræddum við starfsfólk um helstu áskoranir í heilbrigðiskerfinu og þörfina fyrir aukinn stuðning við heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
Að heimsókninni á Ísafirði lokinni var ferðinni haldið yfir á Hvammstanga og Blönduós. Þar voru haldnir fundir með sveitarstjórnum, auk þess sem heimsóknir voru farnar í fyrirtæki á svæðinu, til dæmis prjónaverksmiðjuna KIDKA.
Norðausturkjördæmi
Í raun má segja að við höfum einnig tekið forskot á kjördæmavikuna í Norðausturkjördæmi, en okkar fólk stóð fyrir góðum opnum fundi á Akureyri 20. febrúar, auk þess sem heilbrigðisráðherra heimsótti Sjúkrahúsið á Akureyri í sömu ferð norður.
Okkar fólk fór svo um Austurland á fimmtudag. Dagskráin var fjölbreytt og við fengum tækifæri til að hitta fólk, fyrirtæki og stofnanir sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins.
Ferðin hófst á Reyðarfirði þar sem þingmenn ásamt ráðherra voru viðstaddir opnun Píeta samtakanna á svæðinu. Píeta samtökin sinna afar mikilvægri þjónustu við fólk í sjálfsvígshættu og aðstandendur þeirra. Aðgengi að slíkri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins skiptir sköpum og við fengum innsýn í mikilvægi starfseminnar og þá áskorun sem snýr að geðheilbrigðismálum á svæðinu.
Við heimsóttum fyrirtæki og stofnanir á Eskifirði, Neskaupsstað, Reyðarfirði og Egilsstöðum, þar sem við ræddum við stjórnendur og starfsfólk um tækifæri til vaxtar, nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar á Austurlandi.
Fimmtudagurinn endaði svo með opnum fundi sem haldinn var á Eskifirði og var vel sóttur. Þar áttu þingmenn og menningar, nýsköpunar- og háskólaráðherra gott samtal við íbúa um áskoranir og framtíðarsýn svæðisins.
Reykjavík er líka kjördæmi
Reykjavík á það til að gleymast í kjördæmaviku en ekki í þetta sinn. Farið var á ráðstefnur, fundað með félagasamtökum og ýmis fyrirtæki og stofnanir heimsóttar. Allir þingmenn funduðu eitthvað í Reykjavík í kjördæmaviku.
Stór opinn sameiginlegur fundur með öllum aðildarfélögum Samfylkingarinnar í Reykjavík var haldinn í Kastalakaffi og gekk mjög vel en slíkur fundur hefur ekki verið haldinn áður.
Kjördæmavikan var dýrmætur tími fyrir þingmenn Samfylkingarinnar til að hlusta, læra og taka þátt í samtali um framtíð Íslands. Flokkurinn leggur áherslu á að vinna náið með fólkinu í landinu og byggja upp stefnu sem endurspeglar raunverulegar þarfir og vonir landsmanna.
Takk fyrir hlýjar móttökur og málefnaleg samtöl.
Látum verkin tala!
- Ása Berglind ásamt Kumi Naidoo og Alexandre Naulot
- Arna Lára, Sigmundur, Eydís og Dagur kíktu til RÚV
- Víðir í heimsókn í fyrirtækinu Algalíf
- Kristján í Virk
- Samtök atvinnulífsins heimsótt
- Múlinn samvinnuhús er skrifstofuklasi og miðstöð nýsköpunar í Neskaupstað
- Heimsókn í Verkmenntaskólann á Egilsstöðum