Afstöðuleysi er ekki í boði

Það var ánægjulegt að heyra Guðrúnu Karls Helgudóttur biskup hvetja almenning til þess að taka afstöðu til þess sem gengur á í heiminum í predikun sinni á páskadag. Hún sagði meðal annars að það væri ekki pólitísk afstaða að fordæma morð á börnum, hungurdauða þeirra eða sprengjuárásir á saklausa borgara.

Það væri rétt afstaða að standa með friði og gegn ófriði. Guðrún biskup hvatti fólk til þess að taka afstöðu. Andvara- eða afstöðuleysi gagnvart misrétti, kúgun og ófriði veit ekki á gott og gengur í raun gegn eðli lýðræðissamfélagsins.

Rauði þráðurinn í frelsisbaráttu af öllu tagi er viðurkenning á réttindum og mannhelgi annars fólks. Hún er pósitíf viðurkenning þess að öll eigum við sama rétt til að vera gerendur í eigin lífi. Frjáls til að lifa lífinu með reisn. Forréttindi okkar sem búum í lýðræðisríki, við velferð og hagsæld, ættu að vera augljós og dagleg áminning um þær skyldur sem við berum gagnvart öðru fólki, hér á landi og annars staðar. Því það eru engin réttindi án skyldna. Og í því hvernig við rækjum skyldur okkar felst lykillinn að farsælu samfélagi.

Þetta vorið er fátt í þessum heimi er eins og það hefur alltaf verið. Alþjóðakerfið sem sigurvegarar seinni heimsstyrjaldarinnar komu á fót riðar til falls. Valdasjúkir karlar ráða ferð og hafa að engu alþjóðalög – Genfarsáttmálana – reglur sem meðal annars voru settar til að koma í veg fyrir að helför gyðinga gæti endurtekið sig. Að fylgjast með fréttum af stríðsrekstrinum í Palestínu og Súdan og í Úkraínu tekur á allt venjulegt hugsandi fólk. Við verðum magnvana gagnvart þessu sturlaða ofbeldi. Það getur óneitanlega verið þægilegra að slökkva bara á fréttunum og vonast til að þetta leysist allt saman einhvern veginn. En við sem förum með lýðræðislegt vald í umboði kjósenda getum ekki leyft okkur slíkt. Í því liggur ögrunin sem við sem við stöndum daglega frammi fyrir.

Stríðsglæpir, þjóðernishreinsanir, þjóðarmorð … orð sem erfitt er að segja vegna þess að þau innibera hryllinginn sem hinn almenni borgari, ekki síst konur og börn, líða þegar stríðsherrarnir hafa misst alla sjálfsstjórn og finna daglega nýja ástæðu til að réttlæta illvirkin. Hatrið er normalíserað og þá er allt leyfilegt að því er virðist. Það má stöðva sendingu hjálpargagna inn á Gasa-ströndina og stökkva þeim sem eftir lifa á flótta enn einu sinni. Það má nauðga börnum í Súdan. Það má sprengja óbreytta borgara í tætlur.

Við megum aldrei verða meðvirk þessu ástandi eða réttlæta það. Hvorki hér heima né annars staðar. Friður getur ekki verið reistur á grundvelli vígbúnaðar og vopnasölugróða. Hann verður að reisa á grundvelli gildanna sem felast í virðingu við mannréttindi og lýðræðislegt skipulag.

Höfundur er forseti Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2025