Steinunn nýr formaður Kvennahreyfingarinnar

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar á dögunum.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir er nýr formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, en hreyfingin hélt aðalfund sinn að morgni föstudagsins 11. apríl, fyrir setningu landsfundar Samfylkingarinnar sem fram fór í Grafarvogi.
Á aðalfundinum var ný stjórn Kvennahreyfingarinnar kjörin, en auk Steinunnar voru Birgitta Ásbjörnsdóttir, Eyrún Fríða Árnadóttir, Agla Arnars Katrínardóttir kjörnar í stjórn hreyfingarinnar og Valgerður Halldórsdóttir, Hrund Valsdóttir og Magnea Marinósdóttir í varastjórn.
Að auki var Dagbjört Hákonardóttir tilnefnd frá þingflokki Samfylkingarinnar í stjórn Kvennahreyfingarinnar.
Steinunn tekur við formennsku í Kvennahreyfingunni af Hildi Rós Guðbjargardóttur, sem hafði verið formaður frá árinu 2022.
Þess má til gaman geta að Steinunn er þriðja Steinunnin sem gegnir formennsku í hreyfingunni, en Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Steinunn Ýr Einarsdóttir hafa einnig verið formenn Kvennahreyfingarinnar, sem stofnuð var árið 2005.