Evrópuumræðan og staðan í heiminum

Dagur

Óvissan í alþjóðamálum kallar á endurmat á mörgum sviðum. Ný stefna Bandaríkjastjórnar í varnarmálum og alþjóðaviðskiptum vegur þar þungt. Innrásarstríð Rússa í Úkraínu jafnvel þyngra. Vegna ógnar af hernaði Rússa gengu vinaþjóðir okkar, Svíar og Finnar, í NATO.

Danir féllu einnig frá fyrirvörum um þátttöku í öryggis- og varnarstefnu ESB í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu 2022. Hættumatið í Norður-Evrópu hefur breyst hratt. Skoðanakannanir sýna að almenningur í Evrópu er jákvæðari í garð ESB en áður. Fjórir af hverjum fimm hafa áhyggjur af öryggi og vörnum álfunnar og 81% styður sameiginlega öryggis- og varnarstefnu ESB, skv. Eurobarometer 2025.

Mörg orð má hafa um þróun mála innan NATO. Ýmsir spáðu jafnvel endalokum bandalagsins fyrir örfáum mánuðum. Ástæðan var meðal annars ýmsar yfirlýsingar og beinar og óbeinar hótanir Bandaríkjaforseta gagnvart Kanada og Grænlandi. Ljóst er að ekki hefur öllum spurningum verið svarað þótt bandalagið hafi þétt raðirnar á nýafstöðnum leiðtogafundi. Á honum varð endanlega ljóst að þjóðir Evrópu hafa tekið höndum saman um að efla varnir sínar, auka fjármagn til varnarmála og axla nú meiri ábyrgð á stuðningi við Úkraínu. Hitt er óbreytt. NATO verður áfram sameiginlegur meginvettvangur varnarsamstarfs þótt Evrópa og ESB muni hafa ríkara hlutverki að gegna.

Breytt umhverfi í öryggis- og varnarmálum birtist víða. Margir okkar helstu bandamanna innan NATO, sem standa utan ESB, hafa að undanförnu gert samninga við sambandið á sviði öryggis- og varnarmála. Þeirra á meðal eru Noregur og Kanada. Það hefur verið heldur sorglegt að fylgjast með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar á þingi við því að íslenskra hagsmuna sé gætt á sama hátt. Það virðist mjög viðkvæmt í pólitíkinni að stíga skref til nánara Evrópusamstarfs, utan ESB, sem er þó bæði eðlilegt og rétt í ljósi stöðunnar. Evrópa og ESB deilir í flestu gildum og lífssýn með okkur Íslendingum. ESB er nú sterkasti málsvari alþjóðalaga, viðskiptafrelsis, fullveldisréttar ríkja og hefðbundinna reglna í samskiptum þjóða sem við Íslendingar eigum allt undir. Þá má ekki gleyma því að til Evrópu seljum við yfir 70% af útflutningsvörum okkar. Evrópa er því okkar náttúrulegi bandamaður.

Það ætti að vera flestum fagnaðarefni að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sæki Ísland heim. Það undirstrikar náið samstarf og sameiginlega vináttu og hagsmuni. Þjóðin mun hafa síðasta orðið varðandi aðild að sambandinu og framhald aðildarviðræðna. Um það er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins skýr. Um þá nálgun ætti að geta skapast víðtæk sátt. Og við blasir að margt talar fyrir því að spyrja þjóðina fyrr en seinna.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]