Ísland og Grænland

Dagur

Dönsk stjórnmál og samfélag eru á öðrum endanum eftir fréttir danska ríkisútvarpsins af ferðum þriggja Bandaríkjamanna til Grænlands til að grafa undan sambandi Grænlands og Danmerkur.

Utanríkisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, hefur kallað fulltrúa bandarískra stjórnvalda á sinn fund vegna málsins sem hann segir óviðunandi.

Atburðirnir eru nýjasti kaflinn í flóknu sambandi Danmerkur, Grænlands og Bandaríkjanna eftir að Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði, oftar en einu sinni, áhuga sinn á því að Bandaríkin myndu eignast Grænland, með góðu eða illu.

Málið er mjög sérstakt, ekki síst vegna þess að Danir og Grænlendingar hafa gegnum áratugina verið einir nánustu bandamenn Bandaríkjanna. Danmörk, eins og Ísland, er eitt tólf stofnríkja NATO. Þessi atburðarás hefði verið óhugsandi fyrir örfáum árum. Í samtímanum er málið ekki einsdæmi heldur kristallar vanda sem steðjar að minni ríkjum þegar alþjóðastofnanir, hefðbundnar reglur og alþjóðalög eru í uppnámi þar sem stór og öflug ríki umgangast þau eins og þau séu ekki til.

Fyrstu viðbrögð Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur í upphafi árs voru að halda til funda við helstu leiðtoga Evrópu og Evrópusambandsins til að leita stuðnings og samstöðu. Evrópa stendur með Dönum og Grænlendingum í málinu.

Íslendingar ættu auðveldlega að geta sett sig í spor Grænlendinga og Dana. Ekki taka allir undir það heldur vísa til þess að Ísland hefur sérstakan varnarsamning við Bandaríkin frá 5. maí 1951.

Ekki ætla ég að gera lítið úr mikilvægi aðildar Íslands að NATO eða varnarsamningsins. Öðru nær. En hvernig er með Grænland? Jú, Grænland gerði algerlega sambærilegan varnarsamning við Bandaríkin, raunar aðeins átta dögum áður, eða 27. apríl 1951. Þeir hafa sama formálann og eru að mörgu leyti samhljóða. Vandlegur lestur og samanburður sýnir þó að samningurinn um Grænland gekk að sumu leyti lengra í framsali landsvæða, aðstöðu og lögsögu til Bandaríkjanna en sá íslenski. Íslenskir samningamenn og forystufólk var á þessum tíma meira vakandi yfir fullveldi landsins og sjálfstæði við samningagerðina.

Það er hins vegar erfitt að halda því fram að varnarsamningurinn og aðildin að NATO veiti nægjanlegt skjól til að tryggja þjóðarhagsmuni, sjálfstæði og fullveldi í samtímanum. Það eru Danir og Grænlendingar að reyna.

Til viðbótar. Nýlega var upplýst, í skrifum Vals Ingimundarsonar sagnfræðings, og fréttaþáttarins Kveiks, að árið 2017 var gerður óbirtur viðauki við varnarsamning Íslands með frekara framsali lands, valds og afsali á lögsögu íslenskra dómstóla. Staða Íslands er því nú mun líkari stöðu Grænlands en áður. Alþingi var ekki spurt. Þetta vekur sannarlega spurningar um fullveldi og afsal þess. En það er efni í aðra grein.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]