Miklu betri Strætó – strax!

Þjónustubylting varð hjá Strætó í byrjun vikunnar. Á hárréttum tíma. Rétt áður en skólar fara á fullt og þegar fjölmargir velta fyrir sér hvernig tryggja megi hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl í vetur.
Rannsóknir sýna að þau sem nýta almenningssamgöngur hreyfa sig meira og spara peninga. Meira að segja strætóferðin sjálf, ásamt stuttum göngutúr út á stöð, getur verið gæðastund.
Hvað gerðist í þjónustu Strætó? Tíðni fjölda leiða jókst á mánudaginn og hlutfall íbúa sem búa innan 400 metra frá stoppistöð með 10 mínútna tíðni á háannatíma fer úr um 18% í rúmlega 50%. Það þýðir að helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins getur gengið út á stöð, án þess að hafa áhyggjur af því hvenær næsti vagn mætir. Hann kemur alltaf nokkuð veginn „bráðum“. Skiptingar milli vagna, í þeim tilvikum sem þær þarf, verða líka miklu liprari.
Rétt er að vekja athygli á því að stærri vinnustaðir, eins og Háskóli Íslands og fleiri, hafa gert samninga við Strætó um sérstök afsláttarkjör fyrir starfsfólk. Það mættu fleiri gera. Námsmenn fá einnig 50% aflátt af hagstæðum mánaðar- og árskortum. Árskort í strætó kostar minna en mánaðarlegur rekstur á bíl.
Efling Strætó er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, tímamótasamkomulags ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hann felur í sér framkvæmdir og rekstur Borgarlínu og brýr verða byggðar yfir Fossvog og Elliðaárvog. Miklabraut færist í göng frá Grensásvegi að Landspítala og Sæbraut í stokk á móts við hina nýju Vogabyggð svo nokkuð sé nefnt. Heildstætt hjólastíganet fyrir allt svæðið verður klárað og val um virka ferðamáta verður auðveldara og frjálsara.
Samgöngusáttmálinn felur í sér arðbærustu samgönguframkvæmdir á Íslandi, skv. arðsemismati. Aðeins Sundabraut reiknast sambærileg en þá þarf að hafa í huga að kostnaðaráætlanir hennar hafa ekki verið uppfærðar.
Þeir sem hafa lýst efasemdum um Borgarlínu hafa margir kallað eftir eflingu Strætó. Þeir geta nú glaðst því verkefnin eru samtengd og munu saman mynda heildstætt nýtt leiðakerfi sem mun gera almenningssamgöngur að frábærum valkosti fyrir meginþorra íbúa höfuðborgarsvæðisins. Borgarlína og strætó fá forgang á öllum mikilvægum leiðum og það mun einnig nýtast sjúkraflutningum og viðbragðsaðilum í neyðarakstri.
Meginskilaboðin þessa dagana eru að hvetja fólk til að prófa strætó. Það er hægt að borga með korti eða síma í öllum vögnum snertilaust eða með Klapp-appinu. Góð afsláttarkjör eru á mánaðar- og árskortum. Það er líka ljúft að renna fram hjá bílaröðunum á forgangsreinum. Um leið er mikilvægt að muna að eftir því sem fleiri nota almenningssamgöngur, þá gengur líka þeim sem nota bíl betur að komast leiðar sinnar. Allir njóta góðs af betri Strætó!
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. dagur@althingi.is
Höfundur: Dagur B. Eggertsson