Miklu betri Strætó – strax!

Dagur

Þjón­ustu­bylt­ing varð hjá Strætó í byrj­un vik­unn­ar. Á hár­rétt­um tíma. Rétt áður en skól­ar fara á fullt og þegar fjöl­marg­ir velta fyr­ir sér hvernig tryggja megi hreyf­ingu og heil­brigðan lífs­stíl í vet­ur.

Rann­sókn­ir sýna að þau sem nýta al­menn­ings­sam­göng­ur hreyfa sig meira og spara pen­inga. Meira að segja strætó­ferðin sjálf, ásamt stutt­um göngu­túr út á stöð, get­ur verið gæðastund.

Hvað gerðist í þjón­ustu Strætó? Tíðni fjölda leiða jókst á mánu­dag­inn og hlut­fall íbúa sem búa inn­an 400 metra frá stoppistöð með 10 mín­útna tíðni á há­anna­tíma fer úr um 18% í rúm­lega 50%. Það þýðir að helm­ing­ur íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins get­ur gengið út á stöð, án þess að hafa áhyggj­ur af því hvenær næsti vagn mæt­ir. Hann kem­ur alltaf nokkuð veg­inn „bráðum“. Skipt­ing­ar milli vagna, í þeim til­vik­um sem þær þarf, verða líka miklu lipr­ari.

Rétt er að vekja at­hygli á því að stærri vinnustaðir, eins og Há­skóli Íslands og fleiri, hafa gert samn­inga við Strætó um sér­stök af­slátt­ar­kjör fyr­ir starfs­fólk. Það mættu fleiri gera. Náms­menn fá einnig 50% af­látt af hag­stæðum mánaðar- og árskort­um. Árskort í strætó kost­ar minna en mánaðarleg­ur rekst­ur á bíl.

Efl­ing Strætó er hluti af sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins, tíma­móta­sam­komu­lags rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu. Hann fel­ur í sér fram­kvæmd­ir og rekst­ur Borg­ar­línu og brýr verða byggðar yfir Foss­vog og Elliðaár­vog. Mikla­braut fær­ist í göng frá Grens­ás­vegi að Land­spít­ala og Sæ­braut í stokk á móts við hina nýju Voga­byggð svo nokkuð sé nefnt. Heild­stætt hjóla­stíga­net fyr­ir allt svæðið verður klárað og val um virka ferðamáta verður auðveld­ara og frjáls­ara.

Sam­göngusátt­mál­inn fel­ur í sér arðbær­ustu sam­göngu­fram­kvæmd­ir á Íslandi, skv. arðsem­is­mati. Aðeins Sunda­braut reikn­ast sam­bæri­leg en þá þarf að hafa í huga að kostnaðaráætlan­ir henn­ar hafa ekki verið upp­færðar.

Þeir sem hafa lýst efa­semd­um um Borg­ar­línu hafa marg­ir kallað eft­ir efl­ingu Strætó. Þeir geta nú glaðst því verk­efn­in eru sam­tengd og munu sam­an mynda heild­stætt nýtt leiðakerfi sem mun gera al­menn­ings­sam­göng­ur að frá­bær­um val­kosti fyr­ir meg­inþorra íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins. Borg­ar­lína og strætó fá for­gang á öll­um mik­il­væg­um leiðum og það mun einnig nýt­ast sjúkra­flutn­ing­um og viðbragðsaðilum í neyðarakstri.

Meg­in­skila­boðin þessa dag­ana eru að hvetja fólk til að prófa strætó. Það er hægt að borga með korti eða síma í öll­um vögn­um snerti­laust eða með Klapp-app­inu. Góð af­slátt­ar­kjör eru á mánaðar- og árskort­um. Það er líka ljúft að renna fram hjá bílaröðunum á for­gangs­rein­um. Um leið er mik­il­vægt að muna að eft­ir því sem fleiri nota al­menn­ings­sam­göng­ur, þá geng­ur líka þeim sem nota bíl bet­ur að kom­ast leiðar sinn­ar. All­ir njóta góðs af betri Strætó!

Höf­und­ur er alþing­ismaður Reyk­vík­inga. dag­ur@alt­hingi.is

Höf­und­ur: Dag­ur B. Eggerts­son