Hvað er í þessum fjárlögum?

Er hægt að gera blaðagrein um fjárlög skiljanlega, jafnvel fyrir fólk sem er að spá í fjármál ríkisins í fyrsta sinn?
Fjárlög eru eitt stærsta lagafrumvarp sem lagt er fyrir Alþingi á hverju ári. Í því er ákveðið í hvað peningar úr sameiginlegum sjóðum eiga að fara, t.d. heilbrigðismál, menntamál og allt annað. Í tengdum frumvörpum eru heimildir til að innheimta skatta og gjöld til að eiga fyrir þessu öllu saman.
Undanfarin ár hafa útgjöldin verið mun hærri en tekjurnar. Það hefur búið til gat, sem taka þarf lán fyrir, og við köllum þetta gat fjárlagahalla. Halli hefur verið á fjárlögum á hverju ári síðan árið 2019. Mörg hundruð milljarðar hafa verið teknir að láni til að fjármagna það. Þau þarf að endurgreiða.
Hallinn í tillögu fjármálaráðherra að fjárlögum fyrir næsta ár er 15 milljarðar, sem er langtum minna en á undanförnum árum. Í fyrra var áætlað að hallinn yrði 62 milljarðar og gert var ráð fyrir því að hann yrði 39 milljarðar 2026 af fyrri ríkisstjórn. Skuldir ríkissjóðs lækka úr 59,3% af landsframleiðslu í fyrra í 50,9% á því næsta.
Þessi þróun er góð og stefnt er að því að skila fjárlögum án halla næsta haust, fyrir árið 2027. Þetta er mikilvægt því niðurstaða ríkissjóðs hefur áhrif á hvort vextir og verðbólga haldist há.
Flestir vita að vextir hafa verið að lækka en þyrftu að lækka meira. Tökum dæmi. Sú lækkun vaxta sem hefur orðið frá síðasta hausti er um 1,5% og þýðir að meðalheimili með meðalskuldir þarf að borga um 520 þúsund krónum minna í vexti á ári.
Ríkisstjórnin og ráðherrar hennar hafa kynnt margt sem meiri fjármunir fara í samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Framlög eru til fjölgunar lögreglumanna, og til aukinnar meðferðar við fíkn, geðheilbrigði og heilbrigðisþjónusta um landið er hluti af því. Öryrkjar fá kjarabætur. Það er verið að auka fjármagn í viðhald á vegakerfinu og aðrar fjárfestingar og þannig mætti áfram telja. Þetta er mikilvægt vegna þess að fjárfestingar hafa verið of litlar og við tölum um að samfélagið sé í innviðaskuld. Fjárfestingar verða 114 milljarðar á næsta ári en voru 95 milljarðar samkvæmt frumvarpi fyrir 2025.
Þótt þessar viðbætur séu oft taldar upp þá er því ekki að leyna að það er töluvert aðhald í frumvarpinu. Hver ráðherra fyrir sig leggur til hvernig fjármunum er forgangsraðað innan viðkomandi málaflokks og einstaka tillögur um sparnað eða niðurskurð hafa strax vakið athygli. Það er hlutverk Alþingis að fara yfir hvort forgangsröðunin sé í öllum tilfellum skynsamleg og hvort ástæða er til að gera einhverjar breytingar. Alþingi hefur síðasta orðið um endanlega niðurstöðu fjárlaga. Það er kallað að þingið hafi fjárstjórnarvaldið. Hvorki má verja fjármunum né leggja á skatta og gjöld nema með samþykki Alþingis.
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. [email protected]