Ógnin er raunveruleg og aðkallandi

Dagur

Stefnumótun í varnar- og öryggismálum er unnin á tímum óvissu í alþjóðamálum þar sem breytingar eru hraðar og oft ófyrirséðar.

Það blasir við að Ísland verður líkt og önnur ríki að grípa til aðgerða til að standa vörð um öryggi þjóðarinnar og sameiginlegar varnir aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins.“ Þannig hefst niðurlag fyrstu varnar- og öryggisstefnu Íslands sem þverpólitískur þingmannahópur stendur að og var birt í lok síðustu viku.

Ógnin sem Ísland og bandamenn okkar standa frammi fyrir er raunveruleg og aðkallandi. Hún stafar fyrst og fremst frá útþenslustefnu Rússa. Ógnir í samtímanum birtast þó ekki aðeins í hefðbundnum landhernaði heldur eru þær fjölþátta og geta tekið á sig mynd netárása, skemmdarverka gagnvart innviðum eða viljandi upplýsingaóreiðu, t.d. í aðdraganda kosninga.

Aukin óvissa í alþjóðamálum, sem ekki hefur farið fram hjá neinum, eykur mikilvægi samvinnu okkar við ríki sem deila gildum um frelsi, lýðræði, mannréttindi og virðingu fyrir alþjóðalögum. Til að bregðast við breyttum viðhorfum í Bandaríkjunum er mikilvægt að Evrópu-stoðin innan NATO styrkist til muna og að Evrópa auki viðbúnað sinn og sjálfstæði í varnarmálum.

Tillögur þingmannahópsins fela í sér að hornsteinar varnar- og öryggisstefnunnar verði, líkt og áður, þátttakan í NATO og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Hvort tveggja þarf að efla. Um leið er mikilvægt að stórauka svæðisbundið samstarf, svo sem við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin, ásamt tvíhliða samstarfi við öflugustu ríki Evrópu og Kanada. Evrópusambandið hefur einnig vaxandi hlutverki að gegna á sviði varnar- og öryggismála. Það er mikilvægt að Ísland tengist ESB eins nánum böndum og kostur er í þágu öryggis og varna Íslands og sameiginlegra varnarhagsmuna.

Stór hluti tillagna hópsins lýtur að því að efla innlendan varnarviðbúnað, þekkingu okkar og getu. Með áherslu á varnarmál erum við að efla þá þætti sem einnig gera samfélagið betur í stakk búið til að takast á við náttúruvá og skipulagða glæpastarfsemi. Með áherslu á öryggi þurfum við að bæta innviði og auka um leið samkeppnishæfni samfélagsins. Vinna þarf markvisst að því að setja fram fjármagnaðar áætlanir í þessu efni því þetta geta ekki verið orðin tóm. Í því mun felast að efla löggæslu, landhelgisgæslu, heilbrigðisinnviði og samgönguinnviði, svo sem flugvelli og hafnir. Netöryggi, greiningar og vöktun sem leiða af ógnarmati munu einnig skipta grundvallarmáli.

Þá er ónefnd stofnanauppbygging og lagalegt umhverfi sem hingað til hafa tekið mið af friðartímum frekar en þeim möguleika að til ófriðar geti komið. Ástæða er til að hvetja alla til að kynna sér stefnumörkunina og leggja henni lið með þátttöku í opinni og uppbyggilegri umræðu.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]