Ræða Loga í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra

Ræða Loga Einarssonar menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 10. september 2025.
Forseti. Kæru landsmenn. Það mætti lýsa ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur með tveimur orðum. Hún er kjörkuð og framsýn. Hún þorir að ráðast í breytingar, breyta kerfum. Ríkisstjórnin þorir.
Við sögðumst ætla að laga ríkisfjármálin og við erum að laga ríkisfjármálin.
Við sögðumst ætla að einfalda regluverk og við erum að gera það.
Við sögðumst ætla að taka örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum og það erum við svo sannarlega að gera.
Þær breytingar sem við höfum boðað allt frá upphafi munu leggja grunninn að góðu samfélagi, skapandi samfélagi sem getur tekist á við stórar áskoranir. Framtíðin krefst þess einfaldlega að við beinum sjónum okkar enn meira að hugvitinu. Það er líklega eina auðlindin sem er ekki bara ótæmandi heldur vex með aukinni nýtingu. Þetta ætlar ríkisstjórnin að gera, horfa lengra fram í tímann. Við sáum í dag til að uppskera ríkulega síðar.
Atvinnustefnan er gott dæmi um þetta, stefna sem leggur áherslu á að fjölga háframleiðnistörfum í útflutningsgreinum. Hlutverk míns ráðuneytis er að tryggja að hvergi sé veikur hlekkur í vistkerfi hugverkageirans og nýsköpunar, frá hugmynd til útfærslu og loks til notkunar. Markmið ríkisstjórnarinnar er skýrt; að fjárfesting samfélagsins alls í nýsköpun verði 3,5% af vergri landsframleiðslu árið 2035.
En án öflugra háskóla er engin framsýn atvinnustefna og þess vegna höfum við í ráðuneytinu nú lagt af stað í að móta fyrstu háskólastefnuna á Íslandi í nánu samráði við háskólana og alla hagaðila. Þetta gerum við til þess að við getum byggt skýra sýn á það hvert við stefnum og hvernig við komumst þangað. Háskólarnir eiga að styrkja okkur í samkeppni við önnur lönd. Og háskólar án nemenda eru auðvitað lítils virði og þess vegna mun ég strax á næstu dögum endurflytja frumvarp um breytingar á Menntasjóði námsmanna og strax í framhaldinu ráðast í heildarendurskoðun á Menntasjóðnum þar sem t.d. er augljóst að það þarf að bæta framfærslu nemenda.
Það eru fleiri breytingar í farvatninu. Við höfum þegar boðað sameiningu ýmissa menningarstofnana, ekki bara til að nýta fjármuni betur heldur til að styðja enn betur við menningarlífið í landinu, leiða saman fólk og leysa úr læðingi þann kraft sem býr í íslensku menningarlífi. Það er framsýnt skref í átt að samfélagi sem áttar sig á því að menning og listir eru ekki lúxus heldur límið í samfélaginu.
Samfélag sem skapar ekki mun hvorki viðhalda tungumáli sínu né sjálfsmynd. En skapandi samfélag elur af sér hugmyndaríkar kynslóðir sem munu gegna lykilhlutverki í þeirri nýsköpun, tækni og vísindum sem framtíð og velferð Íslands mun þurfa að hvíla á. Til þess þarf að taka stórar ákvarðanir. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur þorir að ráðast í breytingar. Það er betra að framkvæma, mæta mótstöðu og ná árangri en að reyna að geðjast öllum og enda á að gera ekki neitt.
Kæru alþingismenn. Við megum að lokum aldrei gleyma því að stjórnmál snúast þegar upp er staðið ekki bara um tölur, kerfi og áætlanir. Þau snúast um fólk. Úti í heimi horfum við á hryllinginn á Gaza og við sjáum bakslag í mannréttindabaráttu. Margir upplifa sundrungu og ótta.
Við þurfum meiri mennsku í stjórnmálin. Meiri virðingu.