Ræða Kristrúnar: „Samfylking í þjónustu þjóðar“

Ræða Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingar á flokksstjórnarfundi á Hótel Stracta á Hellu 27. september 2025.

I.
Flokksstjórn — félagar, Rangæingar og aðrir gestir:

Við erum á góðum stað. Og við erum sannarlega rétt fólk á réttum tíma – til að safnast saman hér á Hellu, taka stöðu og leggja línur.

Því að nú ræsum við vélarnar fyrir veturinn. Við höfum verk að vinna. Og ábyrgð okkar er mikil.

* * *

Í þessari ræðu ætla ég að flytja nokkur tíðindi af flokksstarfi Samfylkingar: Ég mun kynna upplegg fyrir nýja lotu í málefnavinnu flokksins – fram að næsta landsfundi. Lýsa minni sýn á verkefni okkar í sveitarstjórnarkosningum í vor. Og boða sérstakan húsnæðis- og efnahagspakka í haust til að gera meira hraðar til vinna niður vexti og verðbólgu.

II.
En fyrst vil segja þetta: Við jafnaðarmenn erum í góðri stöðu – ekki til að slaka á – heldur til að gera betur. Vinna meira og sækja fleiri sigra fyrir fólkið í landinu.

Það er alveg ljóst að sigurinn í þingkosningunum á síðasta ári var aldrei endapunktur í neinu. Heldur þvert á móti: Nýtt upphaf. Fyrir flokkinn og þjóðina.

Við höfum brett upp ermar og gengið til verka.

Og það leynir sér ekkert að það er kraftur í okkar röðum núna – sem við skynjum í salnum hér í dag og sem eftir er tekið úti í samfélaginu. Og ég segi:

Samfylkingin hefur aldrei verið eins sterk, samstillt og vel staðsett. Þétt með þjóðinni – við bak hins vinnandi manns. Til þjónustu reiðubúin.

* * *

Já, kæru félagar – við finnum þetta öll, upp úr og niður úr í flokknum okkar: Hugarfarið er rétt, viljinn sterkur, hæfnin til staðar. Og við erum samstilltari en nokkru sinni fyrr. Það er gleðilegt.

Samfylking í þjónustu þjóðar – í forystu í ríkisstjórn og víða í sveitarstjórnum. Og reiðubúin til verka í enn fleiri sveitarfélögum, hringinn í kringum landið, fáum við til þess traust.

Hvernig gerðum við þetta?

Við sögðumst ætla að fara aftur í kjarnann.
Við sögðumst ætla að koma á virkari tengingu við fólkið í landinu.
Við sögðumst ætla að breyta verklagi og menningunni í flokknum okkar – til að endurheimta traust.

Allt þetta höfum við gert.

Og þess vegna erum við á þessum stað í dag: Sterkur flokkur. Samstilltur flokkur. Tilbúin í kosningar, tilbúin að vinna og tilbúin að taka aukna ábyrgð í íslensku samfélagi.

Við getum verið stolt af þessu. Þetta var aldrei auðvelt eða sjálfsagt. En nú er næsta verkefni að fara aftur með þetta hugarfar til fólksins í landinu – halda áfram lifandi málefnavinnu og stefnumótun. Og sigra í sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Það ætlum við að gera.

III.
Flokksstjórn: Samfylking – í þjónustu þjóðar.

Hvað meinum við með því og hvers vegna skiptir það máli?

Þetta er áminning um það hvers vegna við erum að þessu yfir höfuð. Og fyrir hvern við störfum í stjórnmálum. Því að stjórnmál eru þjónusta. Og jafnaðarstefnan – sem við höldum á lofti – er sú stjórnmálastefna sem sér til þess að allir séu með, óháð stétt og stöðu, búsetu eða bakgrunni.

Samfylkingin er sá flokkur sem stendur með venjulegu fólki og passar upp á Ísland. Það er enginn annar flokkur sem gerir þetta betur.

Við tökum slaginn. Hristum upp í kerfinu. Til að skila af okkur raunverulegum árangri og breytingum - sem virkilega munar um – fyrir vinnandi fólk í daglegu lífi .

Ég legg áherslu á þetta og við skulum öll hafa það hugfast:

Við megum aldrei verða varðhundar kerfis sem er ekki að virka – aldrei. Þvert á móti: Það er einmitt skylda okkar að láta kerfið virka. Tryggja að það virki – með því að gera breytingar þegar þörf er á og ala á samstöðu. Því ef við gerum það ekki þá verður það ysta hægrið sem þykist bjóða betur: Með því ala á sundrungu og brjóta kerfið bara niður.

* * *

Ég var í London í gær. Í samtali við leiðtoga systurflokkanna okkar – meðal annars á Norðurlöndum, í Bretlandi, Kanada, Ástralíu, Spáni og fleiri löndum – þar sem við ræddum um það hvernig við vinnum fyrir venjulegt fólk. Hvernig við leiðum breytingar og náum árangri. Og staðreyndin er sú að víða á Vesturlöndum hafa sósíaldemókratar verið að sigra í kosningum og vinna endurkjör. Það er sveifla alþjóðlega – gegn ysta hægrinu sem elur á sundrungu – með klassískri jafnaðarstefnu sem keyrir á samstöðu.

Og ég vil koma á framfæri kveðju til ykkar allra frá félögum okkar þarna úti. Við erum ekki einangruð – við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu jafnaðarmanna. En þó það séu viðsjárverðir tímar. Þá erum við staðráðin í því að halda áfram og sækja frekari sigra.

* * *

Já: Samfylking – í þjónustu þjóðar.

Við gætum hagsmuna Íslands fyrst – alltaf, ofar hagsmunum flokksins. Þannig hugsum við – þannig vinnum við. Við höfum sýnt það í verki og þetta hugarfar mættu fleiri flokkar temja sér í sinni pólitík. Það væri öllum fyrir bestu.

Við pössum upp á Ísland. Landið allt – það sem við eigum saman og það sem fyllir okkur stolti. Enda eftirlátum við ekki öðrum að skilgreina hvað það er sem bindur okkur saman og gerir okkur að þjóð.

Þetta hugtak – þjóð – skiptir máli. Það hefur meiningu fyrir fólki. Og okkar pólitík snýst um samstöðu – að vernda og varðveita það sem við eigum hérna saman – að vekja von og stolt í brjósti þeirra sem búa hérna og byggja þetta samfélag.

Það er ekki fjarhægrið sem gerir þetta – sama hvað það reynir að telja fólki trú um annað. Með því að skilgreina þjóðarhugtakið þröngt og beita því til að sundra. En svarið er ekki að forðast umræðu um þetta – heldur að finna sameinandi þráð í gegnum hug og hjörtu fólks, þvert yfir landið.

Og það erum við jafnaðarmenn sem gerum þetta best. Þorri Íslendinga er með sterka jafnaðartaug. Við erum flest kratar inn við beinið.

En það gerir ábyrgð okkar í Samfylkingu – jafnaðarflokki Íslands enn meiri fyrir vikið. Því að við erum kyndilberar þessarar stefnu hér á landi. Sem hefur skapað einhver farsælustu samfélög í heimi.

IV.
Kæru félagar – já. Við erum í góðri stöðu til að gera enn betur.

Það er sannarlega líf í flokknum. Þótt við veitum forystu í ríkisstjórn – þá höldum við áfram í stöðugri stefnumótun og samtali við fólkið í landinu.

Samkvæmt skipulagsreglum Samfylkingarinnar ber stjórn ábyrgð á málefnastarfi. Og á fyrsta fundi flokksstjórnar eftir landsfund er lögð fram tillaga að uppleggi í því fram að næsta landsfundi. Þetta gerum við í dag.

Og tillagan er sú að áfram verði unnið samkvæmt nýju fyrirkomulagi eins og verið hefur síðustu ár: Með tvískiptu málefnastarfi – þar sem annars vegar er unnið að vel völdum forgangsmálum, einu í einu, sem stjórn velur út frá pólitískum áherslum hverju sinni. Það er gert undir forystu stýrihóps sem stendur fyrir víðtæku samtali í flokknum, á opnum fundum um land allt og við sérfræðinga og aðra sem láta sig viðkomandi málefni varða.

Hins vegar eru skipaðir tengiliðir stjórnar við málefnanefndir sem vinna að endurskoðun á stefnu Samfylkingar í heild, eftir því sem þurfa þykir, fram að næsta landsfundi. Og í þessum nefndum er sömuleiðis tækifæri til að standa fyrir samtali í flokknum um ýmis mál sem kunna að koma upp og kalla á umræðu. Ég hvet alla flokksmenn til að láta til sín taka í þessari vinnu og opna flokkinn enn frekar fyrir öllum þeim sem vilja leggja okkur lið með einum eða öðrum hætti.

Á síðasta kjörtímabili unnum við unnum eftir þessu uppleggi. Samkvæmt plani. Og það virkaði:

Við sögðumst ætla að taka heilbrigðis- og öldrunarmálin fyrst, svo atvinnu og samgöngur og loks húsnæðis- og kjaramál. Þetta gerðum við – með opnu samtali um landið allt. Og gáfum svo út útspil eftir hverja lotu til að sýna á spilin: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Kröfu um árangur í atvinnu- og samgöngumálum. Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum.

Sem lagði svo grunninn að kosningastefnu, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar og sem við framkvæmum nú í ríkisstjórn. Og eftir þessu er tekið.

Verkin tala. Höldum áfram.

* * *

Flokksstjórn – það gleður mig að greina frá því að fram að næsta flokksstjórnarfundi, sem verður að vori, skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar, þá tökum við fyrir fyrsta forgangsmálið í málefnavinnu Samfylkingar: Daglega lífið.

Það þarf ekki að vera flókið: Daglega lífið.

Strax í dag förum við af stað – með nýjan stýrihóp. Og á næstu vikum og mánuðum munum við banka á dyr hjá heimilum, fyrirtækjum og stofnunum og spyrja:

Hvernig getur Samfylkingin aðstoðað? Hvernig léttum við lífið þitt? Hvernig bætum við daglega lífið?

Þarna verður fókusinn: Passa krakkana, skutla í frístundir, kaupa í matinn. Hver er staðan hjá afa og ömmu? Hvernig er reksturinn? Og hvernig getur Samfylkingin aðstoðað?

Við byrjum breitt og daglega lífið er ansi opið umfjöllunarefni. Og þannig á það að vera – því að þegar kemur sveitarstjórnarkosningum þá er nærþjónustan öll undir. En við munum að sjálfsögðu skerpa á áherslunum í útspili vel fyrir kosningar. Þar sem við leggjum til afmarkaðar og raunhæfar aðgerðir til að bæta daglega lífið.

* * *

Næsta forgangsmál þar á eftir – sem við tökum þá fyrir frá vori á næsta ári og fram á haust – verður: Einföldun regluverks. Þá munum við taka stöðuna og spyrja: Hvernig gengur? Hver eru næstu skref? Hvað getur Samfylkingin gert til að tryggja að kerfið virki eins og það á að gera?

Og þriðja forgangsmálið – sem verður í brennidepli frá og með næsta hausti og fram að landsfundi vorið 2027 – verður: Öryggi borgaranna. Íslenska leiðin. Þá getum við rætt öryggis- og varnarmál í víðu samhengi. Allt frá löggæslu til almannavarna og utanríkismála. Hvað virkar? Hvað má varast? Og hverju þarf að breyta?

Þetta eru spennandi viðfangsefni og vonandi virkjum við sem flesta með okkur í þetta verkefni.

* * *

Formaður framkvæmdastjórnar mun á eftir fara betur yfir fyrirkomulag málefnavinnunnar og segja frá því hverjir verða tengiliðir stjórnar við hverja málefnanefnd.

En stýrihópurinn sem leiðir vinnu Samfylkingar við fyrsta forgangsmálið að þessu sinni – um daglega lífið – er skipaður góðu flokksfólki, héðan og þaðan af landinu, sem flest er í einhverjum tengslum við sveitarstjórnarstigið:
Árni Rúnar Þorvaldsson – Hafnfirðingur í sveitarstjórn, kennari, stjórnarmaður í Samfylkingu og formaður sveitarstjórnarráðs
Eydís Ásbjarnardóttir – Eskfirðingur á Alþingi og fyrrum skólameistari í Verkmenntaskóla Austurlands
Eyrún Fríða Árnadóttir – Hornfirðingur í sveitarstjórn og formaður bæjarráðs
Og formaður stýrihópsins verður Jónas Már Torfason – lögfræðingur og Kópavogsbúi sem er á heimleið til Íslands

Þetta er glæsilegur hópur. Gangi ykkur vel. Gefum þeim gott klapp.

V.
Flokksstjórn. Saman höfum við breytt gangi íslenskra stjórnmála.

Saman höfum við rifið okkur upp í landsmálunum eftir rúman áratug utan ríkisstjórnar.

En við höfum á síðustu árum staðið betur í sveitarstjórnum landsins. Þar höfum við um árabil notið trausts til að hafa stjórn á þeim málum sem standa fólki næst – en margt má betur fara víða. Og við megum aldrei festast í stað.

Þess vegna er mikilvægt að við sýnum fólki að við verðum ekki of góð með okkur og heimakomin á valdastólum. Við tökum traustinu og valdinu aldrei sem gefnu.

Heldur stöldrum við, stillum fókusinn upp á nýtt og hristum upp í hlutunum þar sem við á.

* * *

Hvernig sigrum við í sveitarstjórnarkosningum næsta vor?

Mín sýn er þessi: Gerum það sama og við gerðum í landsmálunum. Förum aftur í kjarnann. Verum í virkri tengingu við fólkið í landinu. Og sýnum í verki að við erum agaður og samstilltur flokkur sem hefur stjórn á hlutunum – sem kann að vinna og láta verkin tala.

Við gerum sömu kröfur til okkar fólks í sveitarstjórnum og við gerum okkar fólks í landsmálunum.

Við stöndum þétt saman. Enda styrkir það sveitarstjórnir að vera í góðu sambandi við landstjórnina, og öfugt.

Og síðast en ekki síst: Við bjóðum okkur alltaf fram til að leiða breytingar – laga vandamál – og þess vegna erum við óhrædd við að líta í eigin barm og skoða hvað við sjálf getum gert betur.

* * *

Aðrir flokkar hafa stundum lagt þá flokkspólitísku línu að félagarnir í héraði verði að bjóða fram lista undir merkjum síns flokks – til að halda „vörumerkinu“ á lofti. Þetta gerum við ekki. Við treystum fólki til að meta sjálft í sínu nærsamfélagi hvað er líklegast til að skila raunverulegum sigrum og árangri – að bjóða fram S-lista Samfylkingar, Samfylkingar og óháðra eða sameiginlegan framboðslista með öðrum flokkum. Skilaboðin eru skýr: Við stöndum með ykkur og veitum stuðning Samfylkingar sama hvernig þið gerið þetta. En takið slaginn, gefið kost á ykkur og axlið ábyrgð á nærsamfélaginu – með gildi klassískrar jafnaðarstefnu að leiðarljósi.

Þetta eru spennandi tímar í stjórnmálum. Vinnum þetta saman. Gerið okkur stolt.

VI.

Flokksstjórn. Ég vil ekki að þreyta fólk með því að þylja upp afrekaskrá – eða öll stórpólitísku málin á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ég veit að þið fylgist vel með gangi mála á þinginu. Og ég veit að við munum ræða þessi mál hér á eftir í samtali við salinn og í almennum umræðum.

Í staðinn ætla ég að líta í eigin barm og játa að þótt ríkisstjórnin hafi verið sögð ganga heldur hratt til verka, fremur en hitt – þá liggur núna fyrir að við verðum að gera meira hraðar til að vinna niður vexti og verðbólgu.

Til að lækka kostnað heimila og fyrirtækja – eins og við sögðumst ætla að gera.

Vissulega hafa vextir lækkað um 1,5% síðan boðað var til kosninga fyrir tæpu einu ári – og það hefur lækkað kostnað meðalheimilis um allt að 50 þúsund krónur í hverjum einasti mánuði. Það munar nú um minna. En betur má ef duga skal.

Og þess vegna get ég greint frá því hér að ríkisstjórnin hefur komið saman sérstökum húsnæðis- og efnahagspakka sem verður kynntur núna á næstu vikum – til að gera meira hraðar:

Þetta verður stór pakki með nýjum efnahagsaðgerðum sem virkilega munar um – og ýmiss konar aðgerðum í húsnæðismálum sem fela í sér:
tiltekt sem vinnur gegn þenslu,
markvissari húsnæðisstuðning,
meiri húsnæðisupbyggingu – með aukinni skilvirkni og fyrirsjáanleika,
einföldun regluverks

og margháttaðar aðgerðir sem við í Samfylkingu höfum talað fyrir til að draga úr hvata til að fjárfestingarvæða íbúðir – meðal annars með því að loka glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu.

Þetta kemur til viðbótar við endurflutt frumvörp frá vorþingi um að taka á Airbnb-útleigu og koma á betri yfirsýn og sanngjarnari reglum með skráningarskyldu á leigumarkaði.

Og allt verða þetta aðgerðir sem hægt verður að ganga í og framkvæma hratt. Því að þessi ríkisstjórn er fyllilega meðvituð um að það er löngu komið nóg af fögrum fyrirheitum og alls konar hugmyndum í húsnæðismálum. Við kynnum því ekki neitt nema það sem okkur er full alvara með að framkvæma.

Núna er tími framkvæmda.

VII.
Flokksstjórn – félagar og góðir gestir:

Ég hlakka til að verja deginum með ykkur. Ég er stolt af því að tilheyra hópi jafnaðarfólks á Íslandi. Við skulum nota tímann vel – og skiptast á skoðunum um það hvernig kröftum okkar er best varið. Með Samfylkingu – í þjónustu þjóðar.

Því öll höfum við hlutverki að gegna og öll getum við lagt okkar af mörkum.

Leyfum okkur að vera ósammála um einstök mál – en sameinumst svo, í lok dags, af fullum krafti í Samfylkingu. Skemmtum okkur vel í kvöld. Og förum svo út af þessum fundi og höldum hátt á lofti merki frelsis, jafnréttis og samstöðu á Íslandi.

Það er okkar hugsjón. Það er góður málstaður. Svo höldum áfram – til sigurs!

Samfylkingin er sá flokkur sem stendur með venjulegu fólki og passar upp á Ísland. Það er enginn annar flokkur sem gerir þetta betur.