Stjórnmálaályktun flokksstjórnar

Samþykkt á flokksstjórnarfundi Samfylkingar á Hellu 27. september 2025.

Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur í þjónustu þjóðar. Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem stendur með venjulegu fólki og passar upp á Ísland.

Það gerum við best með því að skila árangri sem munar um fyrir hinn almenna mann í daglegu lífi. Með því að leiða breytingar og tryggja að ríkið virki. Með því að hrista upp í kerfinu þegar við á um leið og við verndum og varðveitum það sem bindur okkur öll saman og viðheldur samheldni okkar sem þjóð.

Það er leiðarljós ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að vekja aftur von og trú fólks á að stjórnmálin geti virkað og verið stolt yfir því sem við getum áorkað saman. Við ölum á samstöðu en ekki sundrungu og erum staðráðin í að færa fólkið í landinu nær hvert öðru en ekki fjær – með virðingu fyrir fólki og ólíkum sjónarmiðum. Þetta sýnum við bæði í orði og á borði.

* * *

Höfuðverkefni ríkisstjórnarinnar í vetur eru tiltekt og verðmætasköpun. Samfylkingin leggur mesta áherslu á að ríkisstjórnin geri allt sem hún getur til að standa við loforð sitt til kjósenda um að lækka kostnað heimila og fyrirtækja – með því að gera meira hraðar í húsnæðis- og efnahagsmálum.

Á sama tíma hefjumst við handa við að styrkja öryggi og innviði Íslands. Það gerum við til að mynda með uppbyggingu á vegum og orkuinnviðum, eflingu á löggæslu og í réttarvörslukerfinu, öruggum skrefum í heilbrigðis- og öldrunarmálum, ásamt margháttuðum aðgerðum til að efla úrræði vegna fíknisjúkdóma og geðþjónustu fyrir börn og aldraða svo dæmi séu nefnd. Þá verða tekin markviss skref til að bæta afkomuöryggi öryrkja og eldra fólks í vetur og á næstu árum í samræmi við nýja fjármálaáætlun.

Samfylkingin fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að ráðast strax í fulla jöfnun á dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis og sömuleiðis um stóraukna áherslu á jarðhitaleit. Þá er skorað á ríkisstjórnina að byrja aftur að bora jarðgöng og gera það sem allra fyrst.

Þá leggur Samfylkingin áherslu á að gera kennurum og öðru starfsfólki í menntakerfinu betur kleift að mæta þörfum allra barna. Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu verknámsskóla og áformum háskólaráðherra um gerð háskólastefnu.

* * *

Það er skylda okkar að bjóða fram krafta Samfylkingar og jafnaðarfólks í sveitarstjórnum sem víðast hringinn í kringum landið. Jafnaðarmenn munu sækja fram í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor og halda til haga grunngildum klassískrar jafnaðarstefnu um frelsi, jafnrétti og samstöðu. Við viljum tryggja tækifæri allra landsmanna til menntunar og atvinnu við hæfi ásamt aðgengi að lífsins gæðum og umönnun í blíðu og stríðu, eftir þörfum, frá vöggu til grafar.

Í sveitarstjórnum er meginverkefni okkar að leiða breytingar, laga vandamál og létta undir með fólki í daglegu lífi. Þess vegna verður fyrsta forgangsmálið í málefnavinnu Samfylkingar „daglega lífið“ og saman munum við banka á dyr hjá heimilum, stofnunum og fyrirtækjum næstu misserin – og spyrja: Hvernig léttum við lífið þitt? Á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í vor kynnum við svo nýtt útspil með afmörkuðum og raunhæfum aðgerðum til að bæta daglega lífið hjá fólkinu í landinu.

Það er mikilvægt fyrir Ísland að þessi vinna Samfylkingar takist vel og að áherslur jafnaðarfólks nái enn sterkari fótfestu í sveitarstjórnum landsins eftir kosningarnar þann 16. maí árið 2026.

Um leið og búið er í haginn fyrir daglegt líf venjulegs fólks munum við haga öllum aðgerðum þannig að þær styðji sjálfbæra þróun til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

* * *

Samfylkingin lýsir yfir eindregnum áframhaldandi stuðningi við Úkraínu í varnarstríði sínu. Ógnir steðja að nágrannaríkjum okkar. Brýnt er að ríkisstjórnin rækti áfram stöðu Íslands sem öflugs bandamanns, sem er málsvari lýðræðis og alþjóðalaga. Einnig skal efla viðnámsþrótt Íslands, ekki síst gagnvart fjölþáttaógnum, falsfréttum og upplýsingaóreiðu.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands hvetur ríkisstjórnina jafnframt til að beita sér áfram á alþjóðlegum vettvangi, og af aukinni festu, til að stöðva framgöngu Ísraelsríkis í Palestínu. Viðbrögð alþjóðasamfélagsins hafa valdið sárum vonbrigðum. Það er siðferðisleg skylda ríkja að grípa inn í og stöðva þjóðernishreinsanir. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna í málefnum hernumdu svæðanna í Palestínu og Ísrael er verið að fremja þjóðarmorð á Gaza. Samfylkingin mun halda áfram að auka alþjóðlegan þrýsting  á Ísraelsríki til að hætta árásum á Gaza og eiga frumkvæði og aðild að tillögum um sameiginlegar aðgerðir sem stuðla að afnámi hernámsins og virðingu fyrir fullveldi Palestínu.

Flokksstjórn Samfylkingar á Hellu 27. september 2025