Vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins

Dagur

Það er mikil kosningalykt af umræðu um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, sem eru hluti af því.

Svæðisskipulagið sem er frá 2015 fól í sér gríðarlega framför og framtíðarsýn um metnaðarfulla, hagkvæma og spennandi framtíðarþróun höfuðborgarsvæðisins. Það hefur algerlega staðist tímans tönn. En hvað er undarlegt í umræðunni?

Í fyrsta lagi hefur verið búin til umræða um óeðlilegt neitunarvald sveitarfélaga. Sannleikskornið í því er að svæðisskipulag byggist á sameiginlegri niðurstöðu og samþykki allra sveitarfélaga sem að því standa. Spjótum hefur hins vegar verið beint að Reykjavíkurborg. Staðreyndin er þó sú að aðeins eitt sveitarfélag hefur hafnað tillögu frá öðru um breytingar á vaxtarmörkum í svæðisskipulagi sl. ár. Þetta er Kópavogur sem hafnaði tillögu Garðabæjar um breytingar á skipulagi á mörkum sveitarfélaganna.

Í öðru lagi hefur verið látið að því liggja að staðið hafi verið gegn tillögum að útþenslu byggðar utan vaxtarmarka í Hafnarfirði annars vegar og hins vegar eldri borgara byggð við Gunnarshólma í landi Kópavogs, austan Hólmsheiðar. Í hvorugu tilvikinu hefur komið fram formleg tillaga viðkomandi bæjarfélaga. Ekki er beðið eftir borginni heldur niðurstöðum áhættumats um mögulegt hraunrennsli úr Krísuvíkurkerfinu annars vegar og Bláfjallakerfinu hins vegar, auk upplýsinga um vatnsvernd, snjóþyngsli og áhrif hugmyndanna á umferð á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins. Slíkar grunnupplýsingar þurfa að liggja fyrir áður en afstaða er tekin.

Í þriðja lagi virðist hafa farið fram hjá mörgum að svæðisskipulagið felur í sér ný lönd, lóðir og byggingarheimildir fyrir gríðarlegan áframhaldandi vöxt innan núverandi vaxtarmarka. Eru til tölur um þetta? Já. Margir hafa bent á að fjölgun á svæðinu hefur verið um 70.000 íbúar á sl. 10 árum, sem var umfram spár. Miklu færri virðast hafa áttað sig á að sveitarfélögin taka reglulega saman hvað er hægt að byggja innan skipulagsins. Í Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins sem síðast var tekin saman fyrir rúmu ári kemur fram að hægt er að bæta við 58.000 íbúðum innan vaxtarmarka. Það jafngildir byggingu heils Kópavogs, auk Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og tíu Seltjarnarnesja, og það innan 15 ára. Reykjavík á mesta uppbyggingarmöguleika en Mosfellsbær og Garðabær geta tvöfaldast, Kópavogur stækkað um þriðjung og Hafnarfjörður um meira en helming. Ef 2,4 einstaklingar búa í hverri íbúð, eins og nú, má byggja íbúðir fyrir 145.000 nýja íbúa á höfuðborgarsvæðinu, innan vaxtarmarka.

Svæðisskipulagið hefur nefnilega reynst gott tæki til að stýra þróun svæðisins út frá heildarhagsmunum. Það er sveigjanlegt og stórhuga þegar uppbygging er annars vegar.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]