Fyrsta borgarstefna Íslands

Í gær samþykkti Alþingi samhljóða fyrstu borgarstefnu fyrir Ísland. Þetta eru mikilvæg og margháttuð tímamót. Í áratugi var umræðan um byggðamál oft mótuð af tortryggni í garð höfuðborgarinnar og fyrirbærisins borgar
Nú snýst sú hugsun við. Með borgarstefnunni er viðurkennt að sterk og blómleg Reykjavík er ekki andstæða við farsæla þróun byggðar í landinu, heldur lykill að samkeppnishæfni þess og mikilvæg fyrir landið allt. Umskiptin sjást einnig í því að nú er Akureyri skilgreind sem svæðisborg og þar með undirstrikaður sá styrkur sem af því getur leitt að þróa höfuðstað Norðurlands sem borg.
Borgarsvæði Reykjavíkur markast ekki af sveitarfélagamörkum Reykjavíkur heldur af svæðinu frá Hvítá til Hvítár, þ.e. svæðinu frá Reykjanesi, austur á Selfoss og norður í Borgarnes. Það er með öðrum orðum verið að tala um samfellt búsetu- og atvinnusvæði sem er þegar í örri þróun og kallað eftir því að stefnumörkun, innviðir og stuðningur hins opinbera miðist við að hugsa um svæðið sem heild til að tryggja samkeppnishæfni, sjálfbærni og hagkvæma og græna þróun. Borgarsvæði Akureyrar er Eyjafjörður frá Siglufirði í vestri og austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar.
Hvað þýðir þetta fyrir Akureyri? Í samþykkt Alþingis segir að svæðisborgin Akureyri verði efld sem drifkraftur í þjónustu og menningarlífi íbúa og nærliggjandi byggða. Sérstaða svæðisins verður nýtt í því skyni. Afraksturinn verði stærra og öflugra atvinnusvæði, sem verði jafnframt eitt búsetu- og þjónustusvæði.
Um höfuðborgina Reykjavík segir borgarstefnan að ríki og borg skuli standa saman að því að efla höfuðborgina og lyfta henni í alþjóðlegri samkeppni borga. Reykjavík verði áfram miðstöð viðskipta, stjórnsýslu, menntunar og menningar í landinu og megingátt inn í landið fyrir sameiginleg verkefni, alþjóðatengsl, vöruflutninga og fjárfestingar. Stefnan kveður á um að borgarsvæði Reykjavíkur verði eflt í alþjóðlegri samkeppni borga sem laðar að sér öfluga fjárfestingu og eftirsóttan mannauð. Við ákvarðanir um skipulag og uppbyggingu innviða verði horft á höfuðborgarsvæðið og borgarsvæðið allt sem eina heild þegar kemur að atvinnusókn, búsetu og samgöngum innan þess.
Samþykkt borgarstefnu er vitanlega aðeins fyrsta skrefið. Næst þarf að efna til samráðs um mótun þróunaráætlana og aðgerðaáætlana, kortleggja mismunandi þróunarkosti, sammælast um þá bestu og tryggja fjármagn. En borgarstefna er líka merki um þroskað samfélag. Hún er áskorun til okkar allra um að láta af gamaldags togstreitu milli borgar og landsbyggðar en að hefja þess í stað raunverulegt samtal og samstarf ríkis og sveitarfélaga um sóknarfæri, húsnæðismál, samgöngur, menningu og sjálfbærni, í hag og þágu landsins alls.
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]