Hvað eigum við eiginlega að gera við Ísland?

Í nýútkomnum endurminningum Jens Stoltenbergs, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO, er lýsing á samtali hans við Trump Bandaríkjaforseta frá fyrra kjörtímabili hans.
Trump var að velta fyrir sér að sparka Noregi úr NATO því landið borgaði of lítið til bandalagsins og taldi það sama eiga við um Ísland. Spurningin í fyrirsögn þessarar greinar mun hafa hrokkið af vörum Trumps í samtali þeirra í Hvíta húsinu.
Ísland átti hauk í horni. Vegna náinna tengsla Norðurlandanna og vináttu Noregs og Íslands þekkti Jens Stoltenberg til sérstöðu okkar og útskýrði hana fyrir Bandaríkjaforseta. Hvorugt var sjálfgefið. Þetta var árið 2018 og NATO stóð á bjargbrún vegna þess hversu óútreiknanlegur Trump forseti var. Fyrri hluta þessa árs var svipuð staða uppi og hrikti í stoðum NATO.
Lengi töldu Íslendingar sig hafa sérstakt samband við Bandaríkin. Og það hefur sannarlega verið mikilvægt og gott. Varnarsamningur ríkjanna og vera bandarísks hers á Íslandi var til marks um það. Þegar á reyndi, fyrir rúmum tuttugu árum, ákváðu Bandaríkin þó einhliða að kalla varnarliðið heim. Íslendingar lásu um það í fjárlögum Bandaríkjaþings. Goðsögnin um sérstakt samband Sjálfstæðisflokksins og Bandaríkjanna gufaði upp. Bandaríkjaforseti boðaði hvorki til fundar eða tók upp símann heldur lét aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna slá á þráðinn til Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra Íslands.
Stöðumat Íslendinga og Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem að eigin mati „vissi og kunni“ í varnarmálum, hrundi með braki. Morgunblaðið hafði eftir Davíð að hann íhugaði að segja upp varnarsamningnum. Það var raunar ekki hans heldur Alþingis og hefði verið bæði óábyrgt og óskynsamlegt. Íslendingar horfðust í augu við breytta tíma, kyngdu stoltinu og byggðu upp varnarsamstarf við Bandaríkin á nýjum grunni. Evrópuþjóðir innan NATO fylltu að hluta í skarðið og hófu að senda flugsveitir til eftirlitsflugs, á móti Bandaríkjamönnum. Evrópustoðin í vörnum Íslands styrktist.
Ný ríkisstjórn hefur staðið í ströngu í utanríkismálum og staðið sig vel. Umhverfið hefur þó sjaldan verið flóknara. Óvissa í alþjóðamálum hefur sjaldan verið meiri og sótt er að stofnunum alþjóðakerfisins og alþjóðalögum. Ofan í stöðu varnarmála hefur verið efnt til alþjóðlegs tollastríðs. Þar virðist litlu skipta hverjir eru gamlir bandamenn eða vinaþjóðir.
Við þessar aðstæður er staða smáþjóða utan tollabandalaga sérlega viðkvæm. Það er martröð smáþjóða að standa einar í deilum við stórþjóðir, á ögurstundu. Það þekkjum við Íslendingar. Við eigum því að efla samstarf við allar vinaþjóðir. Til viðbótar þurfum við aðild að bandalögum sem halda þegar til kastanna kemur. Rökin fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu hrannast upp.
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]