Hver er staðan í húsnæðisuppbyggingu?

Ísland er það land innan OECD sem hefur byggt hvað mest af húsnæði, hlutfallslega, á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta hefur uppbyggingin ekki náð að halda í við fólksfjölgun. Fyrir vikið hefur myndast íbúðaskuld sem vinna þarf á.
Áhrif hás vaxtastigs og þröngra lántökuskilyrða blasa við og ráða mestu um stöðuna á fasteignamarkaði. Fyrir vikið hefur hægst á fasteignamarkaði og uppbyggingu. Um 5.000 íbúðir eru nú óseldar og hefur hægst á meðalsölutíma íbúða. Sölutími er lengri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og lengri á dýrari og stærri íbúðum en ódýrari og minni. Það er þó enn undirliggjandi eftirspurn til staðar.
Árleg uppbyggingarþörf íbúðarhúsnæðis er um 3.000 íbúðir. Til viðbótar er gert ráð fyrir að til langs tíma minnki heimili og íbúum í hverri íbúð fækki að meðaltali. Því þurfi að byggja allt að 4.000 íbúðir á ári, næstu ár. Síðastnefnda þróunin væri til samræmis við þróun í nágrannalöndum en hraði hennar er háður ýmsum þáttum.
Í nýbirtum húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru sett fram útfærð áform um byggingu íbúðarhúsnæðis til næstu tíu ára. Næstu fimm árin gera áætlanirnar ráð fyrir að 3.900 íbúðir að meðaltali geti farið af stað. Það er því ljóst að húsnæðisáætlanirnar eru metnaðarfullar og stefna að því að mæta eftirspurn eftir íbúðauppbyggingu, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur á landsvísu. Ýmsir þessara reita eru þó háðir skipulagi, innviðaframkvæmdum og fleiru.
Til að styrkja framboð íbúðarhúsæðis, lóða og svæða, og fjármagna innviði, hefur nýr meirihluti í Reykjavík unnið með verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðum að því að leita nýrra leiða við þróun og fjármögnun nýs hverfishluta í Úlfarsárdal. Þetta er fagnaðarefni. Það er einnig fagnaðarefni að uppbygging íbúða í borginni jókst um 26% skv. talningu í síðasta mánuði á meðan hún dróst víða saman annars staðar. Borgin skarar einnig fram úr í byggingu óhagnaðardrifins húsnæðis.
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur kveður á um að herða reglur um Airbnb, auðvelda breytingar á atvinnuhúsnæði í íbúðir og einfalda regluverk um byggingariðnaðinn. Fyrir mánaðamót verður kynntur húsnæðis- og efnahagsmálapakki sem felur meðal annars í sér markvissari húsnæðisstuðning og aðgerðir sem draga úr hvata til að fjárfestingavæða íbúðir. Allt er þetta fallið til að auka framboð húsnæðis. Til viðbótar gefur stjórnarsáttmálinn fyrirheit um stóraukið framboð ríkislóða og húsnæðis í eigu ríkisins til umbreytingar, til viðbótar við ofangreind áform sveitarfélaga. Þetta er mikilvægt til að gera lóða- og íbúðaframboð öruggara til skemmri og lengri tíma. Ný ríkisstjórn vekur því vonir um öfluga, fjölbreytta, stöðuga og jafnari uppbyggingu í húsnæðismálum.
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]