Sjálfstæðisflokkurinn og Sundabraut

Dagur

Umhverfismatsskýrsla um Sundabraut og samanburður á brúarleið og gangaleið lítur dagsins ljós á næstu vikum. Verkefnið hefur verið áratugum saman í umræðunni.

Það lenti upp á skeri þegar Vegagerðin ætlaði einhliða að fara brúarleið á svokallaðri innri leið árið 2004. Brúin hefði beint mikilli umferð inn í íbúðahverfin í Laugardal og einnig skert lífsgæði íbúa í Grafarvogi. Í kjölfarið var efnt til íbúasamráðs, þar sem innri leiðin var útilokuð en gangaleið skilgreind sem fyrsti kostur.

Ástæða þess að Sundabraut var mikið í deiglunni á þessum tíma var að þáverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafði selt Símann úr ríkiseigu. Hluti söluverðsins var ætlaður í Sundabraut. Peningarnir voru geymdir í Seðlabankanum. Þeir töpuðust allir ásamt fé fyrir nýjum Landspítala og fleiru. Frægt er samtal þáverandi seðlabankastjóra, Davíðs Oddssonar, og þáverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, um risalán til Kaupþings á síðasta degi þess banka. Þeir gerðu sér augljósa grein fyrir áhættunni af lánveitingunni.

Davíð sem hljóðritaði samtalið og birti orðrétt á síðum Morgunblaðsins sagði: „Við megum ekki setja íslenska ríkið á galeiðuna.“ Og Geir svarar: „Nei, nei, þetta eru 100 milljarðar, spítalinn og Sundabrautin.“

Sjálfstæðisflokkurinn vissi auðvitað þessa ástæðu fyrir frestun Sundabrautar. Í umræðunni lét flokkurinn þó alltaf að því liggja að Reykjavíkurborg væri að tefja. Það heyrist enn. Staðreyndin er sú að undirbúningur Sundabrautar komst ekki á skrið fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn vék úr samgönguráðuneytinu og Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins tók við. Við gerðum fyrsta og eina samkomulagið um málið árið 2021. Eftir því er nú unnið.

Útfærsla ganganna og brúar til samanburðar verður sem sagt kynnt á næstunni. Þar eru metin áhrif þessara miklu mannvirkja á nærliggjandi hverfi, umferðina almennt, umhverfi og almannahag. Við getum því búist við mikilli og vonandi góðri umræðu.

Sjálfstæðisflokkurinn er nú að skrifa nýjan kafla í sögu sinni um Sundabraut. Eftir að hafa gagnrýnt borgina og aðra fyrir að vilja Sundabraut í göngum og kallað það tafa-taktík þá hefur þingmaður þeirra, Guðlaugur Þór Þórðarson, nú gagnrýnt áform um Sundabraut harðlega á tveimur opnum íbúafundum og ekki færri en þremur viðtölum í Morgunblaðinu.

Guðlaugur heldur því ítrekað fram að Samgöngusáttmálinn geri ekki ráð fyrir Sundabraut og að Sæbraut geti ekki tekið við umferð frá henni. Þetta er rangt. Sæbrautarstokkur sem er lykilframkvæmd sáttmálans er beinlínis hannaður með Sundabraut í huga. Guðlaugur segist nú vilja göng alla leið upp á Kjalarnes, vitandi það að slík útfærsla myndi tefja málið um fjölmörg ár og líklega koma í veg fyrir hana vegna kostnaðar. Ætli honum verði að ósk sinni?

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]