Húsnæðispakki og öruggara lóðaframboð

Ríkisstjórnin kynnti fyrsta húsnæðispakka sinn fyrir helgi. Þar voru góðar áherslur á óhagnaðardrifið húsnæði, höggvið er á hnúta varðandi hlutdeildarlán, undirstrikaðar breytingar vegna Airbnb og fjöldi annarra mikilvægra mála.
Mestu skiptir þó að ná niður vöxtum og tryggja aukið, fjölbreytt húsnæðisframboð. Vegna hárra vaxta og þröngra lántökuskilyrða hefur hægst á fasteignamarkaði og uppbyggingu. Um 5.000 íbúðir eru nú óseldar og hefur hægst á meðalsölutíma íbúða. Sölutími er lengri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og lengri á dýrari og stærri íbúðum en ódýrari og minni. Það er þó enn undirliggjandi eftirspurn fyrir hendi. Óvissan vegna nýfallinna dóma bætist ofan á þetta.
Til skamms tíma þarf því að bregðast við dómum Hæstaréttar. Til milli-langs tíma þarf að stýra efnahagsmálum og ríkisfjármálum af ábyrgð og festu og til lengri tíma þarf að stefna að upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu.
Í næsta húsnæðispakka verður meðal annars lögð áherslu á að bæta ríkislóðum við lóðaframboð sveitarfélaga. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að mikið hafi verið byggt af íbúðarhúsnæði hér á landi á undanförnum árum, einkum í Reykjavík, hefur uppbygging íbúðarhúsnæðis ekki náð að halda í við fólksfjölgun.
En hver er staðan? Árleg uppbyggingarþörf íbúðarhúsnæðis er um 3.000 íbúðir. Til viðbótar er gert ráð fyrir að til langs tíma minnki heimili og íbúum í hverri íbúð fækki að meðaltali. Því þurfi að byggja allt að 4.000 íbúðir á ári.
Hvað er í áætlunum? Í húsnæðisáætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru sett fram útfærð áform til næstu tíu ára. Næstu fimm árin gera áætlanirnar ráð fyrir að 3.900 íbúðir geti farið af stað árlega. Þetta eru metnaðarfullar áætlanir sem stefna að því að mæta eftirspurn eftir íbúðauppbyggingu á landsvísu. Ýmsir þessara reita eru þó háðir skipulagi, innviðaframkvæmdum og flutningi fyrirtækja svo dæmi séu tekin.
Til að styrkja enn frekar framboð íbúðarhúsnæðis, lóða og svæða, og leita nýrra leiða til að fjármagna innviði hefur Reykjavíkurborg unnið með verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðum, og núna ríkisstjórninni, að því að leita nýrra leiða við þróun og fjármögnun nýs hverfishluta í Úlfarsárdal.
Í næsta pakka á svo að vera hægt að kynna stóraukið framboð ríkislands og húsnæðis í eigu ríkisins sem má breyta í íbúðir. Það myndi gera lóða- og íbúðaframboð öruggara. Allt að 11.000 íbúðir geta orðið til skv. þeim áætlunum sem húsnæðishópur þingmanna hefur tekið saman og þær geta orðið ennþá fleiri. Sumir kostirnir kalla á pólitíska forystu og samkomulag við hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög. Slíkt flækjustig er þó ekki nýtt þegar húsnæðismál eru annars vegar. Það er gott að hafa ríkisstjórn með skýra sýn, kjark og plan.
Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]