Hvað þarf til að fá evruvexti?

Dagur

Vendingar í vöxtum húsnæðislána í kjölfar dóms Hæstaréttar á dögunum hefur dregið athygli almennings og fjölmiðla að þeim gríðarlega mun sem er á vöxtum á Íslandi og innan ESB og evrusvæðisins.

Munurinn á húsnæðisvöxtum er þrefaldur. Húsnæðiseigendur borga tugum milljóna meira í vexti en almenningur innan ESB. Sömu sögu er að segja af vöxtum lána sem fyrirtæki búa við á Íslandi. Þar er vaxtamunurinn fjórfaldur.

Ég hef verið spurður hvað það taki langan tíma að taka upp evru. Sumir hafa bætt við að nær væri að sinna verkefnum dagsins frekar en einhverju sem taki 6-8 ár. Sjálfum finnst mér stjórnmálin sannarlega eiga að glíma við brýnustu verkefni dagsins og vinna til skamms tíma. En stjórnmálin verða líka að takast á við kerfisbundna veikleika og umbætur sem taka lengri tíma, einkum varðandi atriði sem skipta mestu máli fyrir hagsmuni almennings, heimila og fyrirtækja. Nýr gjaldmiðill er slíkt atriði.

Þjóðir sem ræddu evruna fyrir fimmtán árum, eins og við Íslendingar, eru komnar með evru. Króatar deildu um evru árum saman en tóku hana loks upp 1. janúar 2023. Reynsla þeirra hefur verið góð. Fjármálalegur stöðugleiki og lægri vextir. Nú segjast 60% sátt við evru. Ánægja með evru mældist nýlega 73% í öðrum evrulöndum sem hafa lengri reynslu.

Í aðdraganda að upptöku evrunnar nutu Króatar góðs af því að hafa sérstaka umgjörð (ERM II) í aðdragandanum sem felur meðal annars í sér bakstuðning Evrópska seðlabankans. Þess vegna voru um 70% lána Króata þegar orðin evrulán á þeim degi sem evran var tekin upp. Þetta myndi gilda fyrir Ísland líka. Aðlögun, stöðugleiki, minni gengissveiflur og lægri vextir á lánum kæmu með öðrum orðum til sögunnar áður en upptaka evrunnar myndi formlega eiga sér stað.

En hvað þarf til? Ísland þarf að vera í ESB. Halli á fjárlögum þarf að vera undir 3% af vergri landsframleiðslu, sem hann er. Skuldir hins opinbera þurfa að vera undir 60% af þjóðarframleiðslu. Það eru þær. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa skuldir lækkað úr um 60% í um 53% af vergri landsframleiðslu. Til að fá evru þyrftum við að síðustu að hafa stöðugt gengi, í tvö ár, og minni verðbólgu. Í því efni myndi bakstuðningur Evrópska seðlabankans og framtíðarsýn um evru og lægri verðbólguvæntingar skipta miklu máli. Á þessum sviðum hefur krónan reynst illa.

Ekkert af þessu er óyfirstíganlegt. Skilyrði evru eru þvert á móti skýr og góð stefna. Forsendan er aðildarviðræður og samþykki aðildarsamnings við ESB. Þar eru margir fleiri þættir sem skipta máli. En siglingakortið að evruvöxtum og bættum kjörum heimila og fyrirtækja liggur skýrt fyrir. Ég vona að sem flestir leggist á þær árar að þangað verði stefnt. Við eigum mikið undir því að stórlækka vexti fólks og fyrirtækja.

Höfundur er alþingismaður Reykvíkinga. [email protected]