Lifandi sameign í harðri samkeppni

Íslensk tunga hefur búið í nánu sambýli við aðrar tungur öldum saman. Eitt sinni töluðu lærðir menn latínu og prestar fóru með bænir á forntungu Rómverja í ræðustóli.
Seinna áttu vestfirskir bændur samskipti við baskneska sjómenn á máli aðkomumanna, eða á blendingi beggja mála, og austfirskir bændur við franska sjómenn á sama hátt. Enn síðar bjuggu landsmenn við danska kaupsýslu og danska embættismenn eins og vel er þekkt. Það er því ekkert nýtt í því að landsmenn þurfi að venja sig við fleira en eitt tungumál. Á heimsvísu er það algengara en ekki. Þrátt fyrir þetta sambýli tungumála tölum við enn íslensku en það er ekki sjálfgefið. Nútíminn með allt sitt framboð af afþreyingu á ensku er áskorun sem þarf að gefa gaum svo íslenskan haldi áfram að dafna fallega.
Íslenskan er stór hluti af sjálfsmynd okkar ásamt ýmsu öðru í umhverfinu sem stendur okkur nærri, hvort sem það eru Þingvellir eða Snæfellsjökull, og líkt og náttúran er íslenskan sprelllifandi og hreyfir sig oft á annan hátt en við sáum fyrir. Íslenskan er sterkt tungumál og okkur þykir vænt um hana en höfum áhyggjur af framtíð hennar ef marka má umræður og könnun sem ráðuneytið lét gera síðasta vor.
Fjöldi fólks leggur þó íslenskunni lið með afgerandi hætti. Háskólarnir sinna hefðbundnu íslenskunámi og kennslu íslensku sem annað tungumál. Árnastofnun hefur það hlutverk að sinna bæði íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum, stunda rannsóknir og miðla þekkingu. Miðstöð íslenskra bókmennta sér um að efla bókmenningu á Íslandi og stuðla að útbreiðslu íslenskra bókmennta, bæði heima og erlendis. Almannarómur heldur svo vel utan um íslenska máltækni að eftir því er tekið víða um heim. Svo eru það allir skólarnir að ótöldum fjölmörgum stofnunum, félagasamtökum, fyrirtækjum, einstaklingum og listafólki. Þegar allt er talið eru það ansi margir sem leggjast á árarnar enda eru verkefnin mörg með baldið barn. Ég er þakklátur þeim sem þreytast ekki á að benda á það sem betur má fara, á því tek ég mark, en um leið þarf barnið að þroskast og stækka og ekki alltaf á þá leið sem foreldrarnir sáu fyrir sér.
Aðgerðaáætlun á fullu skriði
Íslensk tunga er opinbert mál á Íslandi, ásamt íslensku táknmáli, og um þau gilda sérstök lög. Í þeim segir að íslenskan sé sameiginlegt mál allra landsmanna og að stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Allir sem hér eru búsettir skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku. Að þessu vinna stjórnvöld nú í samræmi við aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu. Þar eru margar aðgerðir sem tengjast sérstaklega íslenskukennslu fyrir innflytjendur; til dæmis starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu, unnið er að því að bæta gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur, fjarnám í íslensku sem öðru máli, háskólabrú fyrir innflytjendur, efling íslenskuhæfni starfsfólks í skóla- og frístundastarfi sem og í heilbrigðis- og ummönnunargreinum. Aðgerðaáætlunin gildir út árið 2026 og undirbúningur að gerð nýrrar áætlunar er þegar hafinn.
Bók í hönd
Íslendingar eru bókaþjóð eins og sést best á þessum árstíma en mér finnst áhyggjuefni að bóklestur sé að verða jaðaríþrótt á Íslandi, eins og nýleg lestrarkönnun Miðstöðvar íslenskra bókmennta sýnir. Á því munum við taka í nýrri bókmenntastefnu sem er væntanleg næsta vor. Við höfum þegar hafið virkan undirbúning með því að láta gera úttekt á íslenskum bókamarkaði sem er nú í vinnslu.
Mig langar að nefna nokkur dæmi um hvað verið er að gera fyrir íslenskuna, oftar en ekki í samstarfi við hina fjölmörgu vini íslenskunnar. Áherslan er iðulega að stuðla að betra aðgengi, meira framboði og auknum gæðum.
Barnamenning er mikilvægur hluti af því að hlúa að íslenskunni. Sem dæmi má nefna verkefnin Skáld í skólum sem ráðuneytið styrkir og Rithöfundasamband Íslands fer fyrir. Svakalega lestrarkeppnin er glæsilegt verkefni sem lauk í síðustu viku en tæplega 17 þúsund börn í 1.–7. bekk í 90 skólum um land allt tóku þátt. Óhætt er að segja að um „svakalegan“ árangur hafi verið að ræða en samtals lásu börnin í 9,7 milljónir mínútna á einum mánuði. Barnabókahöfundarnir Blær Guðmundsdóttur og Eva Rún Þorgeirsdóttir standa að Svakalegu lestrarkeppninni sem er hluti af verkefninu List fyrir alla sem styrkt er af ráðuneytinu. Málæði er annað verkefni á vegum List fyrir alla þar sem unglingum landsins í 8.–10. bekk er boðið að semja lög og texta í samstarfi við íslenskt tónlistarfólk. Málæði er ætlað að hvetja ungt fólk til að tjá sig á íslensku í tali og tónum. Skilaboðin eru að tungumálið sé okkar allra og að það megi leika sér með það. Dagur íslenskrar tungu er svo á sunnudaginn næsta, 16. nóvember, en þá verður einnig uppskeruhátíð Málæðis sýnd á RÚV. Svo má nefna að í frumvarpi til laga um framlengingu á endurgreiðslu til kvikmynda er lögð sérstök áhersla á framleiðslu barnaefnis á íslensku.
Undanfarin ár hafa stjórnvöld veitt yfir 400 milljónir á ári í stuðning við útgáfu bóka á íslensku sem hefur reynst mikil innspýting inn í bæði sköpun og útgáfu íslenskra bókmennta. Með tilkomu nýrrar bókmenntastefnu verður mörkuð frekari útfærslu á stuðningi hins opinbera við bókmenntir og lestur, sem eru að svo miklu leyti grunnur að íslenskri tungu.
Benda má á að nú er mikið um að vera í bókmenntaheiminum. 70 ár voru fyrr í mánuðinum frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum og um helgina verður 50 ára ártíðar Gunnars Gunnarssonar minnst. Þar verður sérstaklega fjallað um Gunnar og innflytjendabókmenntir og svo verður Aðventa lesin upp á 20 tungumálum samtímis í Veröld og Eddu. Það er vel til fundið núna þegar styttist í jól.
Um helgina hefst einnig bókahátíð í Hörpu, sem er eins konar upphaf jólabókaflóðsins sem margir bíða eftir, og í vikunni stendur einnig yfir bókmenntahátíðin Iceland Noir þar sem von er á fjölmörgum erlendum gestum til að kynna sér íslenskar bókmenntir, ekki síst íslenskar glæpasögur.
Gervigreind og skoplítið
Einn af mikilvægustu þáttunum í þróun tungumáls okkar er máltækni, það er að segja samvinna tungumáls og tölvutækni í hagnýtum tilgangi svo sem hvernig tæknin getur skilið, talað, lesið, þýtt og skrifað tungumál.
Stjórnvöld starfa eftir máltækniáætlun ráðuneytisins sem fjallar ítarlega um uppbyggingu máltæknilausna, gervigreindar og stafrænnar innviða. Meðal verkefna sem hlotið hafa styrk úr hagnýtingarhluta áætlunarinnar eru Hljóðbókasafn Íslands, Landspítali og Almannarómur – miðstöð máltækni og gervigreindar sem leiðir þróun máltæknilausna fyrir opinbera aðila og atvinnulífið. Ísland tekur einnig þátt í uppbyggingu Norrænu gervigreindarmiðstöðvarinnar, sem stuðlar að sameiginlegum norrænum lausnum og þekkingaruppbyggingu á sviði máltækni. Þá má nefna íslenskugáttina m.is, upplýsingavef með aðgangi að orðabókum og öðru hjálparefni á sviði íslensks máls, sem er einkum ætlaður yngri málnotendum og þeim sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
Nýrðasmíð er gömul og góð iðja sem fleiri mættu stunda. Jónas Hallgrímsson var manna duglegastur að smíða ný orð á íslensku og ótal mörg þeirra eru í daglegri notkun í dag. Allir þekkja nýyrðin sjónauki, láréttur og tunglmyrkvi. Færri þekkja orðið skoplítill þótt það komi fyrir á 10.000 króna seðlinum sem einmitt skartar mynd af Jónasi. Nýrðasmíði er ekki bara skemmtilegur samkvæmisleikur heldur leið til að teygja á íslenskunni og halda henni lifandi í heimi þar sem tæknin þróast hraðar en nokkru sinni fyrr. Erlend tökuorð eru gjarnan tengd tækni en gleymum ekki því að þar getum við málað yfir með nýjum íslenskum orðum. Gervigreind er gott dæmi um slíka þýðingu. Á nýyrðavef Árnastofnunar er einnig að finna fjölda skemmtilegra nýyrða sem almenningur hefur meðal annars sent inn. Þar er til dæmis að finna orðið þyrnihrós sem stendur fyrir hrós sem meint er á niðrandi hátt, blátalari yfir hátalara sem tengdur er með blátannarbúnaði, bölvunarakstur sem þýðing á „road rage“ og margt fleira í þeim dúr.
Veitum íslenskunni athygli og hvernig við getum hvert og eitt stutt við hana. Veljum íslenska afþreyingu, stöldrum við áður en ensk heiti er notuð í stað íslenskra, hvort sem er í tali eða merkingum fyrirtækja. Virkjum hugmyndaflugið og sköpum nýyrði frekar en að nota erlend heiti en verum einnig opin fyrir því að tökuorð eru ekki alltaf slæm séu þau skrifuð á íslensku. Þannig er snúsa mikið notað, þó sjálfum finnist mér blunda huggulegra, en kynslóðarbil hefur alltaf endurspeglast í orðfæri og það er ekkert að því.
Dagur íslenskrar tungu og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Að lokum langar mig að nefna að á sunnudaginn kemur, 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu sem haldinn er hátíðlegur á hverju ári á afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Þann dag verða veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar til einstaklings sem hefur með eftirtektarverðum hætti unnið íslenskri tungu gagn eða glætt hana nýju lífi, til dæmis með skáldskap, fræðistörfum, kennslu, þýðingum eða á annan hátt stuðlað að framgangi íslenskunnar, eflingu hennar, miðlun eða nýsköpun. Við sama tækifæri er veitt viðurkenning íslenskrar tungu til hóps, félags, samtaka, fyrirtækis eða stofnunar sem hefur á einn eða annan hátt sýnt íslenskri tungu ræktarsemi, vakið athygli á henni eða sýnt henni stuðning í verki. Verðlaunin verða veitt í Eddu kl. 14 og eru allir velkomnir. Handritasýningin Heimur í orðum er opin milli 13 og 17 og verður aðgangur ókeypis þennan dag. Þá er þar sérstök barnasmiðja í boði fyrir yngri kynslóðina.
Mig langar að biðla til allra þeirra sem bera hag tungumálsins fyrir brjósti að veita því sérstaka athygli á degi íslenskrar tungu. Velta fyrir sér sínum eigin orðaforða og hvort skoðanir okkar á þessum málum og aðgerðir séu í takt. Það er eitt að finnast alls konar en annað að framkvæma samkvæmt því.
Logi Einarsson
Menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra.
