Samfylkingin heldur flokksval um sex efstu sætin í Reykjavík

„Mikil tækifæri til endurnýjunar,“ segir formaður fulltrúaráðsins.

Á fundi sínum 17. nóvember tók fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík (FSR) ákvörðun um aðferð við val á frambjóðendum fyrir borgarstjórnarkosningar í vor.

Á fundinum var samþykkt einróma að efna til flokksvals í Reykjavík og fela flokksmönnum þannig vald til að velja sex efstu sæti listans í bindandi flokksvali. Útlit er fyrir að Samfylkingin verði eini stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík sem efnir til prófkjörs um öll efstu sæti á framboðslista.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður fulltrúaráðsins, segir það í samræmi við sterka lýðræðislega hefð Samfylkingarinnar í Reykjavík sem hefur allt frá stofnun stuðst við flokksvalsleiðir við uppstillingu efstu sæta á lista fyrir borgarstjórnarkosningar. „Með þessari aðferð sköpum við mikil tækifæri til endurnýjunar, enda hafa flokksvöl þar sem flokksmenn geta valið sína frambjóðendur gefið góða raun hjá okkur í gegnum tíðina. Við lítum svo á að lýðræðislegt flokksval hafi verið lykilatriði og muni áfram leggja grunn að góðum árangri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Aðrir flokkar boða nú ýmist uppstillingu þar sem uppstillingarnefnd er falið þetta vald eða þá leiðtogaprófkjör þar sem aðeins er kosið um efsta sæti á lista.“

Hjá Samfylkingunni í Reykjavík verður niðurstaða flokksvals bindandi fyrir efstu sex sæti listans en uppstillingarnefnd verður falið að stilla upp í sæti 7 til 46 á listanum.

Í flokksvalinu hafa einungis flokksmenn kosningarétt skv. 3.1. gr. skuldbindandi reglna um val á framboðslista og framboðslistinn verður paralisti samkvæmt 5.5. gr. hinna skuldbindandi reglna sem er útskýrð svona: „Kvenframbjóðandi skal hið minnsta skipa annaðhvort sæti 1 eða 2, hið minnsta annaðhvort næstu tveggja sæta og svo koll af kolli í hver tvö sæti.“

Framboðsfrestur er til hádegis 3. janúar 2026.

Flokksvalið fer fram með rafrænni kosningu þann 24. janúar 2026 og verður opið frá 00:00 til 18:00. Boðið verður upp á atkvæðagreiðslu utan kjörfundar en kjörstjórn er falin útfærsla hennar skv. hinni samþykktu tillögu.

Á fundinum var skipuð uppstillingarnefnd sem og kjörstjórn fyrir flokksvalið.