Er Sjálfstæðisflokkurinn tví- eða þríklofinn?

Dagur

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í kjölfar verndaraðgerða Evrópusambandsins vegna kísiljárns. Í fyrsta lagi hefur hún dregið fram algera samstöðu stjórnvalda og atvinnulífsins um mikilvægi Evrópusamvinnunnar.

Í öðru lagi eru stjórnvöld og atvinnulífið sammála um mikilvægi EES-samningsins. Atvinnulífið leggst alfarið gegn því að grafa undan samningnum eða leggjast í einhvers konar hefndaraðgerðir. Í þriðja lagi eru stjórnvöld og atvinnulífið sammála um mikilvægi öflugrar hagsmunagæslu í Brussel og gagnvart aðildarríkjum ESB.

Fyrirtækið í eldlínu þessara atburða, Elkem, og samtök í atvinnulífinu hafa talað um varnarsigur og að útfærsla varnaraðgerðanna sé ásættanleg og geti jafnvel nýst íslenskum og norskum fyrirtækjum. Um leið er undirstrikað að það er áríðandi að þetta mál verði ekki fordæmisgefandi.

Tollastríð Trumps er þó því miður staðreynd. Vegið er að alþjóðalögum og leikreglum víða. Hin ábyrga afstaða hlýtur að vera sú að meta stöðu Íslands og hagsmuni í nýju umhverfi. Við byggjum velsæld okkar að stórum hluta á útflutningi. Fá lönd hafa notið meira góðs af virðingu fyrir alþjóðalögum og leikreglum í samskiptum þjóða. Smáríki vill og getur ekki staðið eitt í deilumálum eða tollastríði án stuðnings annarra þjóða. Hvernig er hag okkar og íslensks atvinnulífs best borgið í bráð og lengd? Við þurfum að ræða fulla aðild að ESB.

Viðbrögð stjórnarandstöðunnar á þingi benda eindregið til þess að breytt alþjóðaumhverfi hafi farið fram hjá einhverjum. Fyrstu viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins voru góð: að kalla eftir samstöðu um EES-samninginn. Seinni partinn sama dag var hún farin að kalla ESB samtök glæpamanna. Varaformaðurinn hoppaði strax á að nú ætti að draga lappirnar varðandi innleiðingu laga sem tengdust EES og daðraði við að falla frá hluta samningsins. Það myndi jafngilda uppsögn hans. Frjálslynd viðhorf heyrast, en falla í skuggann.

Það hefur sjaldan sést skýrar að það er djúp gjá á milli atvinnulífsins og Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn sækir ekki lengur hugmyndir og áherslur í veruleika vinnandi fólks eða þeirra sem reka fyrirtæki á Íslandi. Þess í stað er línan fengin frá Mogganum og kampavínshlaðvörpum af hægri kantinum. Rósa Guðbjartsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins kristallaði firringu flokksins í umræðunni um viðbrögð við verndaraðgerðum ESB. Hún kallaði eftir því að Ísland fyndi sér önnur viðskiptalönd en Evrópu, þangað sem um 70% af útflutningi þjóðarinnar fara nú. „Það eru til önnur ríki til að halla sér að en ríkin innan ESB þótt öðru sé haldið fram.“ Þannig að þetta er planið: fyrst á að losa sig við atvinnulífið, síðan fylgið og loks helstu viðskiptalöndin. Þá höfum við það.