Stanslaust stuð í norðaustri

Í langan tíma hafa íbúar Norðausturkjördæmis staðið frammi fyrir ástandi í orkumálum sem er ekki boðlegt, afhendingaröryggi hefur ekki verið tryggt og íbúar á stóru svæði upplifa reglulega rafmagnsleysi.

Nú eru hins vegar bjartari tímar fram undan. Ný ríkisstjórn er að höggva á hnúta í raforkumálum.

Á föstudaginn kynnti Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra aðgerðir til að styðja við atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi á Bakka við Húsavík og jafnframt bráðaaðgerðir vegna orkuástandsins á Langanesi sem koma hratt til framkvæmda og loks framtíðarlausn á svæðinu, til lengri tíma.

Frábær mæting var á fundinn, en nemendur úr grunnskólanum á Þórshöfn fengu frí frá kennslu til að fylgjast með, sem endurspeglar hve miklu máli þetta skiptir fyrir íbúa svæðisins. Með þessari framkvæmd birtir yfir framtíðarhorfum svæðisins og ættu þessar aðgerðir að styðja vel við atvinnulíf á Norðausturlandi. En hvað er verið að gera?

Landsnet mun hraða uppbyggingu nýs tengivirkis á Bakka við Húsavík til að auðvelda tvítengingu Húsavíkur í gegnum Bakka og samhliða því opna á mögulega starfsemi nýrra stórnotenda á iðnaðarsvæðinu. Mikil eftirspurn er eftir því að tengjast á Bakka en fyrirkomulag tengivirkis er ákveðinn þröskuldur fyrir „minni“ stórnotendur (á borð við gagnaver eða matvælaframleiðslu). Uppsetning á nýju 132 kV tengivirki á Bakka mun liðka fyrir tengingu fyrstu áfanga gagnavers og auðvelda flutning á afhendingu til Rarik frá Húsavík yfir á Bakka og auka þannig afhendingaröryggi á Húsavík. Ríkið mun ráðstafa milljarði til að styðja við fjárfestinguna og áætluð verklok eru 2028.

Gjaldskrárhækkanir í lágmarki

Rarik mun leggja 33 kV jarðstreng milli Vopnafjarðar og Þórshafnar eins fljótt og auðið er. Þannig er brugðist við bráðavanda orkuafhendingar á Þórshöfn og stefnt er að spennusetningu strengsins ekki seinna en 2028. Þetta eykur mögulega notkun og framleiðslu á Langanesi og í nærsveitum um 10-11 MW, eykur afhendingaröryggi og opnar á frekari tengingu smærri virkjunarkosta á svæðinu milli Þórshafnar og Vopnafjarðar. Ríkið mun ráðstafa 1,1 milljarði til að styðja við fjárfestinguna sem þýðir að gjaldskrárhækkunum vegna þeirra er haldið í lágmarki.

Landsnet mun svo taka að sér að byggja 132 kV loftlínu milli Kópaskers og Þórshafnar, setja framkvæmdina inn á kerfisáætlun og hefja undirbúning strax. Stjórnvöld munu leitast við að skapa forsendur til þess að flýta megi framkvæmdinni, svo sem með því að liðka fyrir frekari orkuvinnslu á svæðinu, og Landsnet mun vinna með stjórnvöldum að því markmiði.

Það eru sannarlega stórtíðindi að loksins sé starfandi ríkisstjórn í landinu sem er tilbúin að höggva á hnútinn í raforkumálum á Norðausturlandi. Ég hvet stjórnvöld til að halda áfram á sömu braut.

Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar.