Samfylkingin og óháðir í Árborg munu stilla upp á lista samhliða ráðgefandi könnun

Á félagsfundi Samfylkingarfélagsins á Suðurlandi, þann 15. nóvember á Selfossi, var samþykkt að bjóða fram S lista Samfylkingarinnar og óháðra í Árborg, og þar með opna fyrir óflokksbundna leið til þess að bjóða sig fram með félaginu. Stillt verður upp á lista framboðsins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 16. maí 2026.
Samfylkingin á Suðurlandi hefur þannig hafið undirbúning fyrir kosningarnar og ákveðið uppstillingu á framboðslista. Samhliða verður gerð könnun um frambjóðendur efstu sæta listans meðal félaga og stuðningsfólks til að tryggja opið og gagnsætt ferli þar sem aðkoma grasrótarinnar verður veigamikil.
Auglýst eftir framboðum og tilnefningum
Íbúum, félagsfólki og stuðningsmönnum gefst kostur á að senda inn tilnefningar og framboð. Sérstök kjörnefnd mun taka við ábendingum og umsóknum og hefur jafnframt það hlutverk að halda utan um framkvæmd ferlisins og tryggja að allir áhugasamir fái tækifæri til að taka þátt.
Könnun meðal félagsfólks um efstu sæti listans
Sérstök könnun verður lögð fram í febrúar fyrir skráða félaga og stuðningsfólk framboðsins í Árborg. Frambjóðendur sem sækjast eftir efstu sætum listans verða kynnt þar.
Í könnuninni raðar félags- og stuðningsfólk frambjóðendum í númeruð sæti. Að lokinni talningu verða niðurstöðurnar birtar opinberlega og munu þær hafa leiðbeinandi vægi fyrir störf uppstillingarnefndar.
Uppstillingarnefnd mótar endanlegan lista
Að lokinni könnun tekur kjörnefndin við hlutverki uppstillingarnefndar. Hún leggur síðan fram endanlegan framboðslista Samfylkingarinnar og óháðra í Árborg til samþykktar.
„Með því að framkvæma slíka könnun áður en stillt er upp á lista er vonast til að ná sem breiðastri sátt á meðal félagsmanna um listann,“ segir Haraldur Þór Jónsson, formaður Samfylkingarfélagsins á Suðurlandi.