Gunnar Tryggvason 1. sæti

"Ég tel mig geta orðið mjög öflugan talsmann jafnaðarstefnunnar í íslenskum stjórnmálum með áherslu á atvinnumál, jöfnuð og umhverfi. "

Nafn: Gunnar Tryggvason

Fæðingardagur:  15.08.1969

Starf:  Sviðsstjóri Viðskiptasviðs Faxaflóahafna

Heimili : Ægisíðu 62, 107 Reykjavík

"Ég tel mig geta orðið mjög öflugan talsmann jafnaðarstefnunnar í íslenskum stjórnmálum með áherslu á atvinnumál, jöfnuð og umhverfi. "

Ég er sex barna fjölskyldufaðir, Vestfirðingur og verkfræðingur sem brennur fyrir hugsjónir jafnaðarstefnunnar. 

Ég er fæddur á Ísafirði árið 1969 og ólst þar upp við sjávarútveg og fiskvinnslu.  Móðir mín er frá Bolungarvík en faðir minn eitt af síðustu börnum sem fæddust á Hornströndum, nánar tiltekið einum afskekktasta bæ landsins, Þarlátursfirði.  

Ég útskrifaðist frá Menntaskóla Ísafjarðar árið 1989, frá Verkfræðideild Háskóla Íslands árið 1993 og af Raforkuverkfræðisviði Háskólans í Karlsruhe í Þýskalandi árið 1995.  Stundaði sjómennsku með námi á ýmsum bátum og skipum sem gerð voru út frá Ísafirði. Fyrstu starfsárin eftir nám starfaði ég sem verkfræðingur í stóriðjugeiranum, þar af töluverðu leiti erlendis, uns ég vatt mínu kvæði í kross og tók að mér störf á sviði fjármála og stjórnunnar.  Ég hafði starfað á ráðgjafasviði KPMG í nokkur ár þegar Oddný Harðardóttir, þá nýskipuð fjármála- og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur óskaði eftir því að ég gerðist hennar aðstoðarmaður.  Sá lærdómsríki tími sannfærði mig um að við getum breytt til batnaðar og að ég gæti lagt mitt lóð á vogaskálarnar. Núna er ég sviðstjóri viðskipta hjá Faxaflóahöfnum, stjórnarmaður í Landsvirkjun, formaður áhættunefndar Félagsbústaða auk þess að sinna ýmsum félagsmálum. 

Eignkona mín heitir Úlfhildur Leifsdóttir og er tannlæknir.  Hún er frá Ólafsvík og fjölskylda hennar hefur stundað þar bæði útgerð og fiskvinnslu, en bræður hennar reka þar fiskþurrkunina Klumbu.  Við eigum fjögur börn á bilinu 10-16 ára og ég á tvö uppkomin börn frá fyrra hjónabandi.  Þau eru bæði verkfræðingar og búa og starfa í Berlín og Kaupmannahöfn.

Ég er útivistamaður, skíðamaður, kæjakræðari, stundum golfari og tefli af og til.

Afskipti mín af stjórnmálum hófust þegar ég var 17 ára í Æskulýðsfylkingu Alþýðubandalagsins á Ísafirði og sat í stjórn félagsins á þar.  Á háskólaárunum sat ég fyrir Röskvu í Stúdentaráði og í framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins.  Eftir námið í Þýskalandi gekk ég í Alþýðuflokkinn og tók loks þátt í að stofna Samfylkinguna.  Fyrir Samfylkinguna hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum og m.a. setið í stjórn hennar.

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, aukin jöfnuður og verndun umhverfisins eru mín hjartans mál og ég trúi því í einlægni að þetta geti farið vel saman!  Jafnframt tel ég að ef rétt er að málum staðið geti samfélag okkar dafnað sem aldrei fyrr ef við hugum að þessum grunnþáttum sjálfbærrar þróunar.  Ísland með sínar dreifðu byggðir getur þannig boðið uppá betri lífskjör fyrir næstu kynslóðir.