Hákon Gunnarsson - 3. sæti

Kæru vinir og félagar.
Með stolti og mikilli tilhlökkun hef ég ákveðið að bjóða mig fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi þann 7. febrúar 2026. Með skýra framtíðarsýn að leiðarljósi vil ég halda áfram að vinna að sanngjörnu samfélagi með áherslu á velferð, jafnrétti og sjálfbæra þróun.
Kópavogur hefur alla tíð verið mitt samfélag og þar eru mínar rætur. Foreldrar mínir voru meðal frumbyggja bæjarins, þess harðduglega hópi fólks sem lagði grunninn að því sterka samfélagi sem við erum öll svo stolt af. Ég gekk í Kópavogsskóla, síðan Víghólaskóla og spilaði á trompet í Skóla-hljómsveit Kópavogs. Breiðablik hefur ávallt átt hug minn en ég gekk til liðs við félagið 6 ára gamall og hef tengst félaginu alla tíð síðan. Ég lék bæði með yngri flokkum félagsins með ágætum árangri og spilaði 178 leiki í meistaraflokki auk þess að leika með unglingalandsliðum Íslands. Eftir að ferlinum lauk hef ég gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Breiðablik og var útnefndur heiðursbliki á síðasta ári. Fáar, ef nokkrar, viðurkenningar eru mér kærari en sú.
Ég er menntaður á sviði hagfræði og stefnumótunar og hef víðtæka reynslu af rekstri, greiningu og stefnumótun í bæði atvinnulífinu og opinbera geiranum. Frá því ég hóf bein afskipti af bæjarmálum í Kópavogi fyrir síðustu kosningar hefur sá bakgrunnur nýst mjög vel sem varabæjarfulltrúi og aðalmaður í skipulags- og umhverfisráði bæjarins. Skipulagsmál eru mér ofarlega í huga. Reyndar er það svo að ég brenn fyrir bættu skipulagi til að bæta lífsgæði Kópavogsbúa. Reynslan af störfum mínum á núverandi kjörtímabili hefur sýnt mér að þar liggur bæði brýn nauðsyn og gríðarlegt tækifæri í að innleiða ný og markviss vinnubrögð sem styðja munu betur við samfélagið okkar til framtíðar.
Í leik- og grunnskólum bæjarins eru okkar stærstu framtíðar-verðmæti og við þurfum að styrkja skólana og bæta í samvinnu við kennarana og foreldra. Samsetning þjóðfélagsins er gerbreytt frá því sem var og því fylgja nýjar áskoranir. Til að mynda eru Kópavogsbúar sem hafa ekki íslensku að móðurmáli orðnir hátt hlutfall í skólum bæjarins.
Velferðarmálin skipta auðvitað sköpum og við verðum að endurreisa ímynd Kópavogs sem félagsmálabær þar sem aldraðir, öryrkjar og fatlaðir finna til öryggis og tilheyra samfélagi sem tekur vel á móti þeim.
Samfylkingin er í dauðafæri í þessum kosningum til að breyta lykiláherslum í stjórnun bæjarins. Samfylkingin í Kópavogi hefur unnið mikið málefnastarf á kjörtímabilinu en ég er stoltur að því að hafa verið fenginn til að leiða þá vinnu.
Ég er gríðarlega ánægður með að ungt fólk er að bjóða sig fram til forystu í Kópavogi í flokksvalinu þann 7. febrúar. Það er stórkostlegt hvað margir hafa gengið til liðs við Samfylkinguna – flokk sem aldrei hefur staðið sterkari en nú, undir öflugri forystu Kristrúnar Frostadóttur. En það þarf líka reynslu og þekkingu á innviðum, fjármálum og sögu bæjarins til að mynda öflugan hóp bæjarfulltrúa fyrir Samfylkinguna í nýjum meirihluta í Kópavogi eftir kosningarnar í vor. Sterk liðsheild þar sem kraftur og hugmyndaauðgi í bland við áralanga reynslu og þekkingu býr til sigurstranglegt lið.
Hákon Gunnarsson
3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Kópavogi þann 7. febrúar