Hildur María Friðriksdóttir - 3. - 4. sæti
Kópavogur er mitt heimili. Ég hef búið víða í bænum, í Lindahverfi, á Kársnesi og Digranesi, en hef nú sest að í Hjallahverfi. Mér þykir líka ósköp vænt um efri byggðir Kópavogs og við börnin förum þangað reglulega til að stunda íþróttir og hreyfingu. Þessi reynsla, að þekkja mörg hverfi og ólíkt daglegt líf í bænum, hefur mótað það sem ég tel mikilvægast í bæjarmálum: að þjónusta virki, sama hvar þú býrð í bænum.
Samfylkingin stendur mér nærri hjarta, enda jafnaðarkona inn að beini, og hef ég um árabil verið virk í starfi flokksins hér í besta bænum, Kópavogi. Ég var í 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningununum 2022 og sat í jafnréttis- og mannréttindaráði árin 2022-2024, en þar áður var ég varamaður í leikskólanefnd. Í dag er ég varamaður í stjórn Samfylkingarinnar í Kópavogi og sit einnig í kjördæmisráði Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Ég þekki vel hvaða mál brenna á foreldrum. Ég var lengi einstæð móðir og veit hvað það skiptir miklu máli að grunnþjónusta sveitarfélagsins sé traust, aðgengileg og sanngjörn. Dætur mínar tvær eru fæddar og uppaldar í Kópavogi, önnur er komin í grunnskóla en hin er enn í leikskóla. Maðurinn minn sem flutti hingað frá Bretlandi árið 2008 rekur lítið fyrirtæki og 81 árs faðir minn býr hjá okkur, sem er yndislegt og gerir málefni aldraðra mér sérstaklega kær. Þegar heimili spannar svona ólíkar þarfir, frá leikskólaaldri til efri ára, er skýrt hvar kerfið virkar og hvað þarf að bæta.
Auk þess hef ég starfað á Veðurstofu Íslands í rúman áratug, en sú reynsla hefur kennt mér að taka upplýstar ákvarðanir þegar mikið liggur við og fylgja þeim eftir með skýra ábyrgð gagnvart íbúum.
Kópavogur er frábær bær og hefur gríðarlega möguleika, enda næststærsta sveitarfélag landsins og í raun miðja höfuðborgarsvæðisins, en þrátt fyrir margt gott getum við gert töluvert betur. Ég vil sjá Kópavog sem bæ þar sem fólk getur lifað sínu besta lífi, þar sem þjónusta er traust og ákvarðanir stjórnsýslunnar byggja á skynsamlegri forgangsröðun og ábyrgri fjármálastjórn.
Mín helstu áherslumál eru:
• Skóla- og leikskólamál. Að þörfum foreldra, starfsmanna, barna og ungmenna sé mætt.
• Lýðheilsu- og skipulagsmál. Að skipulag, nærumhverfi og samgöngur styðji við betri líðan, og að uppbygging, græn svæði og innviðir haldist í hendur.
• Öldrunarmál. Að þjónusta og úrræði virki og að virðing og tillitssemi ráði þar ferð.
• Ábyrg fjármál og virðing fyrir skattfé. Að fjármunum sé varið skynsamlega, ákvarðanir teknar með langtímasýn og verkefni unnin rétt í fyrsta sinn, þannig að við greiðum ekki margfalt fyrir þau síðar.
• Og líka „minna sýnilegu” en mikilvægu atriðin sem koma daglegu lífi okkar allra við: sorphirða, frárennsli og grunninnviðir, sem eiga einfaldlega að vera í lagi.