Málefni hinsegin fólks
Jafnréttisbaráttu hinsegin fólks hefur miðað vel áfram á Íslandi, en það er samt sem áður langt í land. Hér eru 13 áhersluatriði sem við ætlum að vinna að.
13 aðgerðir sem bæta stöðu hinsegin fólks
- Hinsegin fræðsla Fræðsla er besta forvörnin gegn fordómum, útskúfun og ofbeldi. Samfylkingin telur það brýnt að halda áfram vinnu um aukna hinseginfræðslu í skólum og meðal fagfólks til þess að vinna gegn fordómum og staðalímyndum í samfélaginu. Það má til dæmis gera með þjónustusamningum við þar til bær hagsmunasamtök.
- Fjölbreytt samfélag Samfylkingin telur að efla þurfi og styrkja hinsegin fræðslu meðal fagfólks, til að mynda innan heilbrigðis- og menntakerfis, til að tileinka sér verk- og orðalag sem gerir ekki ráð fyrir að öll börn eigi móður og föður, að allir makar séu gagnkynja og svo framvegis. Jafnframt þarf að tryggja að eyðublöð endurspegli fjölbreytt fjölskylduform og fjölbreytta kynvitund. Setja þarf í lög að rannsóknir, fjármagnaðar af stjórnvöldum, taki tillit til hinsegin veruleika.
- Trans og heilbrigðiskerfið Stytta þarf biðlista fyrir trans fólk, bæði fyrir börn og fullorðin, svo þau þurfi ekki að bíða óhóflega lengi eftir viðeigandi heilbrigðisaðstoð.
- Intersex Samfylkingin fagnar því að frumvarp um kynrænt sjálfræði er orðið að lögum og greiddu allir þingmenn flokksins atkvæði með frumvarpinu. Samfylkingin telur að banna þurfi skurðaðgerðir á börnum með ódæmigerð kyneinkenni sem eru of ung til að taka sjálf upplýsta ákvörðun um slíka aðgerð, nema vegna brýnna heilbrigðisástæðna. Samfélagsþrýstingur og/eða aðrar meintar félagslegar ástæður eiga og mega aldrei teljast til brýnna heilbrigðisástæðna.
- Blóðgjafir Heimila þarf sam-, tví- og pankynhneigðum körlum að gefa blóð. Kynhneigð á ekki að stýra því hvort einstaklingur megi gefa blóð, þó að vera kunni gildar læknisfræðilegar ástæður fyrir því að kynhegðun stýri því að einhverju leyti.
- Ættleiðingar og frjósemisaðstoð Greiða þarf fyrir samningum við lönd sem heimila ættleiðingar til samkynja para. Rutt verði úr vegi hindrunum fyrir frjósemisaðstoð hjá samkynja pörum og staða þeirra færð til samræmis við það sem gildir um gagnkynja pör, til að mynda að samkynja pör þurfi ekki að ganga í gegnum aukið skrifræði á við gagnkynja pör.
- Mannanafnalög Rýmka þarf mannanafnalög svo að fólk geti ráðið því sjálft hvað það heitir, með sem minnstu takmörkunum. Umboð til að skera úr um hvort nafn geti orðið ósjálfráðu barni til ama á að færa frá mannanafnanefnd og til barnaverndaryfirvalda.
- Fjármögnun félagsstarfs Styðja þarf við starfsemi Samtakanna ‘78 þannig að þau geti haldið út fjölbreyttu starfi fyrir þann fjölbreytta hóp fólks sem heyrir undir regnbogaregnhlífina auk aðstandenda þeirra. Samfylkingin telur æskilegt að Samtökunum 78 verði tryggir fjármunir í fjárlögum og þjónustusamningar verði gerðir til lengri tíma til að stuðla að markvissri uppbyggingu á sértækri þjónustu. Þá þarf að styðja sérstaklega við að hinsegin börn hafi aðgengi að félagslegum vettvangi, s.s. Hinsegin félagsmiðstöð, og slíkt félagsstarf þarf að vera aðgengilegt á fleiri stöðum en í Reykjavík.
- Hatursorðræða Samfylkingin tekur afdráttarlausa afstöðu gegn hatursorðræðu, sérstaklega þegar hún sett er fram í þeim tilgangi að auka og efla skautun í þjóðfélaginu og ýta undir hatur og fordóma gegn ýmsum þjóðfélagshópum. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð.
- Aðgerðir gegn ofbeldi Samfylkingin vill tryggja rétt alls fólks til þess að lifa með reisn án ótta við ofbeldi. Ein af áherslum okkar er stofnun Ofbeldisvarnarráðs Íslands sem vinni markvisst að forvörnum og fræðslu gegn ofbeldi, þar sem sérstaklega verði tekið utan um jaðarhópa á borð við hinsegin fólk. Tryggja þarf með lögum að samtalsmeðferðir sem ætlað er að breyta hinsegin fólki (e. Conversion therapy) verði ólöglegar hér á landi svo slíkt megi aldrei þrífast.
- Margþætt mismunun Styðja þarf við hinsegin fólk sem mætir margþættri mismunun vegna þess að það hefur margþætta jaðarsetningu, m.a. hinsegin flóttafólk og fatlað hinsegin fólk. Taka þarf sérstaklega vel á móti hinsegin flóttafólki, enda mjög jaðarsettur hópur víða um heim, sem verður fyrir auknu ofbeldi og háska.
- Skýr rödd á alþjóðavettvangi Ísland taki sér skýra stöðu fyrir mannréttindum hinsegin fólks, tali fyrir réttindum þess í alþjóðastarfi og innan alþjóðastofnana. Fulltrúar Íslands rísi upp gegn hvers kyns ofbeldi og mismunun gegn hinsegin fólki og fylki öðrum með sér þegar kerfisbundið er sótt er að réttindum hinsegin fólks. Mannréttindabarátta hinsegin fólks verði haldið hátt á lofti í íslenskri utanríkisstefnu.
- Regnbogakort ILGA Ísland á að vera leiðandi á heimsvísu í málefnum hinsegin fólks. Vinna þarf markvisst að því að komast í efsta sæti á Regnbogakorti ILGA-EUROPE.