Jónas Már Torfason - 1. sæti

Í Kópavogi ólst ég upp og hingað fluttum við fjölskyldan aftur heim eftir dvöl erlendis. Það er vissulega gott að búa í Kópavogi. En það er rými til bóta. Fyrir nýja forgangsröðun, nýja sýn og nýja forystu. Umræðan verður oft stór á vettvangi stjórnmálanna en lífið á sér stað í hversdagsleikanum. Þar á áherslan að vera, á daglegt líf Kópavogsbúa. Raunverulegar lausnir í þjónustu svo bæjarbúar geti einbeitt sér að því sem skiptir máli – að lifa sínu lífi í samfélagi við fjölskyldu sína, vini og nágranna.
Það væri mér heiður að leiða framboðslista jafnaðarmanna í Kópavogi og stýra Samfylkingunni til sigurs og nýrrar forystu í bænum. Ég óska eftir ykkar stuðningi til þess.
Málefnaáherslur
Ég býð mig fram í þágu allra bæjarbúa en vil leggja sérstaka áherslu á málefni þriggja hópa. Í fyrsta lagi málefni barnafjölskyldna, barna og ungmenna. Fjölskyldur í bænum takast á við hæstu leikskólagjöld landsins og dýrar tómstundir. Það skortir á þjónustu við þennan hóp en það er sameiginlegt verkefni okkar sem samfélag að koma börnum til manns.
Í öðru lagi legg ég sérstaka áherslu á málefni eldri borgara. Koma þarf fram við fólkið sem byggði þetta land af virðingu og trausti, virða sjálfstæði þeirra og persónufrelsi. Mikilvægast er að styðja við eldri borgara til að skipuleggja félagslíf og starf og rækta persónuleg tengsl á eigin forsendum og á jafningjagrundvelli.
Í þriðja lagi vil ég beita mér í þágu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í bænum. Í Kópavogi eru fjöldamörg fyrirtæki, bæði rótgróin og ný. Þau veita mikilvæga þjónustu, skapa fólki atvinnu og skila bænum tekjum. Einföldun á flókinni stjórnsýslu er forgangsatriði, en ekki síður að þjónusta og aðstoð sé veitt. Atvinnurekendur eru umbjóðendur bæjarins en ekki andstæðingar og eiga rétt á þjónustulund og samvinnufýsi frá bænum sínum.
Bakgrunnur
Ég er giftur Andreu Gestsdóttur lækni og eiga þau þrjár dætur, tvíburana Ölmu Jóhönnu og Vigdísi Sölku, fjögurra ára, og Svövu Sóllilju, níu mánaða.
Ég er uppalinn í Kópavogi og flutti nýlega aftur í bæinn eftir dvöl í Danmörku. Eins og stendur starfa ég sem sérhæfður ráðgjafi á lögmannsstofunni Réttur - Aðalsteinsson & Partners. Áður starfaði ég sem fulltrúi í banka- og fjármögnunarteymi dönsku lögmannsstofunnar Plesner í Kaupmannahöfn, sem lögfræðingur á LOGOS, sem blaðamaður á Fréttablaðinu og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Þá hef ég sinnt ýmsum trúnaðarstörfum. Ég er formaður nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, er varamaður í yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður og var formaður aga- og úrskurðarnefndar KKÍ. Ég var formaður laganefndar Samfylkingarinnar og sat í framkvæmdastjórn flokksins fram að síðasta landsfundi og hef einnig sinnt margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna, þar á meðal að vera formaður uppstillingarnefndar í Suðvesturkjördæmi fyrir þingkosningar 2021. Þá hef ég setið í frístunda- og forvarnarnefnd Kópavogs, í stjórn Markaðsstofu Kópavogs, í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir Röskvu og var lögfræðilegur sjálfboðaliði hjá Frú Ragnheiði - skaðaminnkunarúrræði Rauða krossins á Íslandi.