Loftslag, náttúra og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúra og umhverfi

Loftslagsváin og rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni er mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Loftslagsvá

Samfylkingin vill að Ísland skipi sér í fremstu röð þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og haldi áfram samvinnu við Evrópusambandsríkin og Noreg innan loftslagssamstarfs SÞ. Lögfesta þarf loftslagsmarkmið og setja þak á magn losunar. Markmið Íslands í loftslagsmálum verða að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. 

Til að ná árangri í loftslagsmálum þarf að ná fram samdrætti í losun á öllum sviðum samfélagsins og leggja fram tímasettar aðgerðaráætlanir með mælanlegum markmiðum. Ekki má einblína á losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda heldur þarf einnig að taka með í reikninginn losun frá landnotkun, stóriðju og alþjóðaflugi. Öll sveitarfélög eiga að vera með áætlanir um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem styðja við metnaðarfull landsmarkmið í loftslagsmálum.

Samfylkingin telur brýnt að styrkja stjórnsýslu loftslagsmála og tryggja fjármagn og mannafla til að sinna nauðsynlegri greiningarvinnu, samhæfingu verkefna og eftirfylgni. Styrkja þarf stöðu Loftslagsráðs og tryggja að það hafi svigrúm og fjárhagslegt bolmagn til að gegna aðhalds- og eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum.

Aðlögun að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur þáttur til að lágmarka tjón samfélagsins af loftslagsbreytingum. Forvirkar aðgerðir hafa jákvæð áhrif á samfélagið en geta líka sparað umtalsverðar fjárhæðir. Samfylkingin leggur áherslu á að ráðast hratt og örugglega í aðgerðir til að auka seiglu samfélagsins ‒ innviða, fyrirtækja og heimila ‒ vegna loftslagsbreytinga. Þá leggur Samfylkingin áherslu á að styðja fjárhagslega við aðlögun fátækari landa að loftslagsbreytingum og til uppbyggingar orkuinnviða. Þannig vinnum við að því að axla ábyrgð okkar sem eitt af þeim ríku löndum sem losar hvað mest miðað við höfðatölu. 

Samfylkingin leggur áherslu á samhæfingu opinberra fjármála við stefnu í loftslagsmálum og á samhæfingu stefnumörkunar og aðgerða allra ráðuneyta með tilliti til áhrifa á losun gróðurhúsalofttegunda. Samfylkingin vill að lagafrumvörp verði metin með tilliti til loftslagsáhrifa rétt eins og þau eru metin með tilliti til fjárhagslegra áhrifa. Samfylkingin telur að beita þurfi fjölbreyttum stjórntækjum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, til að hámarka skilvirkni loftslagsaðgerða, með jafnræði, sanngirni, jöfnuð og réttlæti að leiðarljósi. Hagræn stjórntæki eins og kolefnisgjöld og fjárhagslegir hvatar eru mikilvæg tól til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt samningum, upplýsingagjöf, fræðslu og laga- og reglusetningu. 

Samfylkingin vill að réttlát umskipti verði leiðarljós í glímunni við loftslagsvána, eins og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir hér heima og á alþjóðavettvangi. Dæmin sýna að engin samfélagssátt getur náðst um nauðsynlegar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema félagsleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi, lífsviðurværi almennings og réttindi borgaranna verði tryggð, óháð búsetu og efnahag. Byrði þarf að deila með sanngjörnum hætti og allir landsmenn verða að njóta afraksturs nauðsynlegra breytinga.

Fest skal í lög að ekki verði borað eftir jarðefnaeldsneyti á íslensku yfirráðasvæði.