Loftslag, náttúra og umhverfi

Kraftmiklar alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

Loftslag, náttúra og umhverfi

Loftslagsváin og rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni er mesta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Hraðari orkuskipti

Til að ná árangri í loftslagsmálum þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr losun frá samgöngum sem er ein stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Samfylkingin vill hraða orkuskiptum og stórbæta almenningssamgöngur. Móta þarf metnaðarfulla áætlun um orkuskipti í samgöngum sem nær til fólksbifreiða og til flutningabíla, hópferðabíla og vinnuvéla. Þá þarf að þétta net rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land. Ríkisstjórn og alþingi skulu setja sér metnaðarfull en raunhæf markmið um að hætta á næstu árum innflutningi farartækja sem ganga fyrir jarðaefnaeldsneyti.

Orkuskipti ein og sér duga skammt til að ná markmiðum í loftslagsmálum. Samfylkingin vill efla almenningssamgöngur og gera þær að raunhæfum og fýsilegum valkosti til að draga úr umferðarálagi, auk þess að þétta byggð þar sem það á við. Á höfuðborgarsvæðinu þarf að flýta framkvæmdum vegna Borgarlínu og hraða uppbyggingu stofnleiða fyrir hjólreiðar eins og kostur er, sem og öðrum framkvæmdum í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Stjórnvöld þurfa einnig að styðja fjárhagslega við rekstur Strætó og almenningssamgangna um land allt til að bæta það kerfi sem nú er við lýði. 

Samhliða uppbyggingu Borgarlínu vill Samfylkingin byggja upp stærra samgöngunet sem þjónar landinu öllu þannig að ekki sé nánast nauðsyn að eiga bíl eða leigja til að ferðast um Ísland. Til að slíkt samgöngukerfi sé notendavænt þurfa stöðvar að vera þægilegar óháð veðri, tengdar göngu- og hjólastígum og örflæðilausnum. Brýnt er að tryggja öflugar almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur og kanna til hlítar lestarsamgöngur frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. 

Víða um land er innanlandsflug mikilvægur samgöngumáti. Samfylkingin vill að gerð verði úttekt á innanlandsflugi og mótuð verði um það stefna, með tilliti til byggðasjónarmiða, kostnaðar, ferðatíma, hagkvæmni og loftslagsáhrifa og að leitað verði leiða til rafvæðingar í innanlandsflugi.