Öflug og þróttmikil velferðarþjónusta

Velferðarsamfélag jafnaðarmanna byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla

Sterk almenn velferðarþjónusta

Fjölbreytt framboð á húsnæði fyrir öll

Samfylkingin vill tryggja húsnæðisöryggi allra. Í augum jafnaðarfólks eru það mannréttindi að þurfa ekki að lifa við óvissu og óöryggi um þak yfir höfuðið. Þá er viðráðanlegt verð á húsnæði eitt mikilvægasta kjaramál almennings enda er húsnæðiskostnaður að jafnaði stærsti útgjaldaliður heimila. Hið opinbera þarf að beita sér fyrir fjölbreyttu framboði á húsnæðismarkaði. Reynslan sýnir að markaðurinn gerir það aldrei upp á sitt einsdæmi. Öll sveitarfélög eru hvött til að bjóða upp á félagslegt húsnæði sem taki mið af rammasamningi um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032.

Besta leiðin til að auka framboð og fjölbreytni á húsnæðismarkaði er að styrkja leigu- og búseturéttarkerfi og beina framlögum hins opinbera í auknum mæli til uppbyggingar í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Þannig má tempra verð og á sama tíma mæta þeim hópum sem eiga helst á hættu að lenda í klemmu á húsnæðismarkaði. Samfylkingin hefur verið leiðandi í þessum efnum á sveitarstjórnarstiginu, meðal annars með uppbyggingu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða. Við viljum halda áfram á þeirri braut, auka stofnframlög til uppbyggingar í samstarfi við húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða og hækka tekju- og eignamörk. Það dregur þó ekki úr mikilvægi þess að byggja áfram hefðbundið félagslegt húsnæði, íbúðir fyrir fatlað fólk og sérstök búsetuúrræði fyrir heimilislausa, þar sem Samfylkingin hefur einnig verið í forystu. 

Mikilvægt er að húsnæðisstuðningur þróist til samræmis við þróun tekna og byrði húsnæðiskostnaðar fari ekki yfir 25% af ráðstöfunartekjum að jafnaði. Tryggja þarf nægilegt framboð og fyrirsjáanlega úthlutun lóða til að standa undir fjölbreyttri uppbyggingu um land allt. 

Jafnaðarfólk leggur höfuðáherslu á mikilvægi félagslegrar blöndunar í allri húsnæðisuppbyggingu og að öryggis- og hollustukröfum sé fylgt í hvívetna. Við viljum að á Íslandi sé eitt samfélag fyrir alla en ekki aðskilnaður eftir efnahag eða uppruna. Markmiðum um félagslega blöndun má ná með skilyrðum í samningum við byggingaraðila og hvatningu þess efnis til sveitarfélaga. Að sama skapi leggur Samfylkingin þunga áherslu á að allt skipulag byggðar miði að því að búa til mannvænt og grænt umhverfi sem skapar tækifæri til heilsueflandi og loftslagsvænna lifðnaðarhátta.