Reglur um félagaskrá

1. grein

Félagaskrá

Skrifstofa Samfylkingarinnar heldur rafræna félagaskrá fyrir flokkinn og öll aðildarfélög hans skv. grein 2.12 í lögum flokksins.

Reglur þessar gilda um félagaskrá flokksins og öll aðildarfélög hans. Þær gilda einnig um hvers konar áritanir úr skránni og aðrar upplýsingar sem kunna að felast í félagaskrá flokksins og aðildarfélaga hans. Með áritun úr félagaskrá er átt við útgáfu staðfestinga, vottorða eða upplýsinga úr félagaskrá flokksins. Undir það falla viðveruskrár frá fundum þar sem einungis skráðir eða kjörnir flokksfélagar eiga sæti.

Aðildarfélag Samfylkingarinnar getur óskað eftir rafrænum og/eða skriflegum aðgangi að félagaskrá viðkomandi félags. Aðgangurinn skal takmarkast við formann aðildarfélags eða þann aðila sem stjórn þess tilnefnir.

Skrifstofu Samfylkingarinnar er óheimilt að láta öðrum en aðildarfélaginu sjálfu í té félagaskrá þess eða annast áritanir úr því skv. grein 2.12 í lögum flokksins.
Söfnun upplýsinga, vinnsla og miðlun félagaskráa eða úrtaka úr þeim skal ávallt vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

2. grein

Aðildarfélög

Stjórnmálafélög sem hlíta vilja grundvallarstefnuskrá Samfylkingarinnar, undirgangast lög hennar og hafa a.m.k. 10 fullgilda félaga eiga rétt á aðild að Samfylkingunni skv. grein 3.01 í lögum flokksins.

Enginn getur verið aðalfélagi nema í einu aðildarfélagi. Um réttindi og skyldur aukafélaga fer skv. lögum viðkomandi aðildarfélags skv. grein 3.10 í lögum flokksins.

3. grein

Uppfærsla félagaskrár

Félagaskrá Samfylkingarinnar miðast við póstnúmeraskrá og eftir atvikum sveitarfélagsnúmer. Hún er tengd þjóðskrá og skal uppfærð a.m.k. mánaðarlega og oftar ef þurfa þykir s.s. vegna útsendingu bréfa og tölvupósta, límmiðaprentunar, kynninga vegna flokksvals, kosninga o.s.frv.

4. grein

Skráning í Samfylkinguna

Skráning í Samfylkinguna skal vera skrifleg og undirrituð af viðkomandi eða send á rafrænu formi í gegnum heimasíðu flokksins eða með tölvupósti. Henni má beina til aðalskrifstofu flokksins skv. grein 3.09 í lögum flokksins eða til aðildarfélags.
Allar nýskráningar skal geyma í a.m.k. 4 ár rafrænt eða á pappír eftir atvikum og skulu þær vera rekjanlegar.

Berist skráning í Samfylkinguna á rafrænu formi í gegnum heimasíðuna eða í tölvupósti skal leita staðfestingar umsækjanda á því að hann hafi sjálfur óskað skráningar í flokkinn.

Berist skráning til aðalskrifstofunnar skal hún skipa umsækjanda í aðildarfélag eftir búsetu hans komi ekki fram ósk um annað skv. grein 3.09 í lögum flokksins. Viðkomandi aðildarfélagi skal tilkynnt um skráninguna svo fljótt sem auðið er.
Berist skráning til aðildarfélags skal litið svo á að hinn skráði óski eftir félagsaðild í því aðildarfélagi. Aðildarfélagið skal tilkynna aðalskrifstofunni um skráninguna svo fljótt sem auðið er.

Einstaklingar sem eru undir 35 ára aldri og sækja um inngöngu í Samfylkinguna skulu vera skráðir í staðbundið aðildarfélag Ungra jafnaðarmanna eftir búsetu þeirra komi ekki fram ósk um annað skv. grein 3.09 í lögum flokksins. Ef ekki kemur fram ósk um annað ber þeim sem tekur á móti skráningunni að upplýsa um hvaða félög þeim standi til boða.
Aðalskrifstofan sendir nýjum félaga tölvupóst/bréf frá formanni Samfylkingarinnar þar sem hann er boðinn velkominn í Samfylkinguna.

5. grein

Flutningur flokksfélaga á milli aðildarfélaga

Skrifstofa Samfylkingarinnar sér um að færa fólk á milli aðildarfélaga í samræmi við búferlaflutninga skv. þjóðskrá og tilkynna stjórnum aðildarfélaga um það skv. grein 2.12 í lögum flokksins. Tilkynning þess efnis skal vera skrifleg eða á rafrænu formi.
Félagsmaður sem ekki tilkynnir sérstaklega um búsetuskipti flyst sjálfkrafa á milli aðildarfélaga við búsetuskipti í þjóðskrá. Félagsmaður skráður í landsfélag, flyst ekki á milli aðildarfélaga við búsetuskipti. Aðildarfélögunum skal tilkynnt um búsetuskiptin.

6. grein

Úrsögn úr Samfylkingunni

Úrsögn úr Samfylkingunni skal vera skrifleg og undirrituð af viðkomandi eða á rafrænu formi. Afskráning fólks úr félagaskránni er einungis heimil af aðalskrifstofu Samfylkingarinnar.

Berist úrsögn úr Samfylkingunni á rafrænu formi skal leita staðfestingar viðkomandi á því að hann hafi sjálfur óskað úrsagnar úr flokknum. Berist úrsögn til aðildarfélags skal félagið senda tilkynningu um úrsögnina til aðalskrifstofunnar á því formi sem hún barst.

Allar úrsagnir skal geyma í a.m.k. fjögur ár, rafrænt eða á pappír eftir atvikum, og skulu þær vera rekjanlegar.

7. grein

Meðferð félagaskrár í flokksvali og kosningabaráttu

Þrátt fyrir ákvæði 1. greinar í reglum þessum er skrifstofu Samfylkingarinnar heimilt að miðla upplýsingum úr félagaskrá í þeim tilvikum sem nefnd eru í þessari grein.
Í flokksvali til bæjar- og sveitarstjórna og til Alþingis fá formenn kjörstjórna, fyrir hönd kjörstjórnar, afhenta félagaskrá á rafrænu formi.

Í kosningum kjördæmisráða eða sveitarstjórna fær kosningastjóri, fyrir hönd kosningastjórnar afhenta félagaskrá á rafrænu formi.

Að flokksvali eða kosningum loknum er formanni kjörstjórnar í forvali og kosningastjóra í kosningum skylt að afhenda aðalskrifstofu Samfylkingarinnar félagaskrána, með þeim breytingum sem kunna að hafa verið gerðar.

Eingöngu er heimilt er að afhenda frambjóðanda, sem skráður er í Samfylkinguna, í flokksvali Samfylkingarinnar til bæjar- og sveitarstjórna og til Alþingis afrit af félagaskrá á rafrænu formi. Félagaskráin skal innihalda nafn, aldur, heimili og síma. Frambjóðendum er skylt að fara með rafrænar skrár skv. lögum flokksins og lögum um persónuvernd. Heimilt er að afhenda félagaskrána gegn gjaldi.

Í þeim tilfellum sem Samfylkingin býður fram með öðrum stjórnmálaflokkum er óheimilt að afhenda samframboðsflokknum félagaskrá Samfylkingarinnar.

8. grein

Netfangaskrá og útsendingar skv. félagaskrá

Aðalskrifstofa Samfylkingarinnar heldur netfangaskrá fyrir flokkinn í heild.
Engum má senda tölvupóst samkvæmt netfangaskrá nema samþykki viðkomandi liggi fyrir. Félagsmaður telst hafa gefið samþykki sitt hafi hann gefið Samfylkingunni upp netfangið sitt eða skráð sig sérstaklega á netfangaskrá flokksins.

Aðalskrifstofa Samfylkingarinnar sendir út tölvupóst á netfangaskrána. Aðrir hafa ekki heimild til að senda tölvupóst. Ekki má senda út annað efni á netfangaskrá en sem við kemur flokksstarfinu.

Frambjóðendum í flokksvali Samfylkingarinnar er óheimilt að nota netfangaskrá flokksins.

Aðildarfélög geta nýtt sér þau netföng til útsendingar til flokksfélaga sem þau hafa safnað saman í félagsstarfi sínu og ber þeim að senda aðalskrifstofu jafnóðum allar breytingar á netföngum sem þeim berast.

Þegar aðildarfélag sendir út almennan póst eða tölvupóst á félagsmenn sína s.s. vegna innheimtu á félagsgjöldum o.s.frv. þá skal það ávallt notast við nýjustu útgáfu af félagaskránni annað hvort í gengum rafrænan aðgang eða óska eftir nýjustu uppfærslu félagaskrárinnar frá flokksskrifstofunni. Flokkurinn skal setja sér persónuverndarstefnu sem tryggir persónuvernd á netinu.

9. grein

Ágreiningur

Rísi upp ágreiningur varðandi reglur þessar skal leggja hann fyrir framkvæmdastjórn sem sker úr deilunni eins fljótt og tök eru á.

10. grein

Gildistaka

Reglur þessar voru upphaflega samþykktar af framkvæmdastjórn þann 25. september 2006 og með áorðnum breytingum þann 2. mars 2009 og 3. október 2012 og öðlast þær strax gildi.