Sara Björg Sigurðardóttir - 3. sæti

Menntun og fyrri reynsla

Ég heiti Sara Björg Sigurðardóttir og er fædd í Reykjavík en sleit barnsskónum í Kópavogi, Hrísey og uppsveitum Borgarfjarðar. Í tæpan áratug æfði ég sund með sundfélaginu Ægi, keppti með landsliðinu og þjálfaði yngri börn. Eftir fjögur ár í Menntaskólanum við Sund, með árs viðkomu í Suður-Kaliforníu þar sem fjölskyldan mín bjó, fluttist ég til Spánar til að læra spænsku.

Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á fólki, tungumálum, menningu og ólíkum samfélögum. Þessi áhugi minn leiddi mig í stjórnmálafræðina í HÍ. Eftir BA- próf fluttist ég til Danmerkur, og lærði þar bæði danska stjórnsýslu ‒ og dönsku! Eftir dvölina í Danmörku kom ég heim og lauk meistaraprófi í stjórnsýslufræðum frá HÍ. Lokaverkefnið mitt fjallaði um stjórnsýslu sveitarfélaga og flutning verkefna þangað frá ríkinu.

Ég hef hef búið í borginni í tuttugu ár og síðustu fjórtán árin í Breiðholti með eiginmanni og þremur börnum á aldrinum 10 til 17 ára. Starfsreynslan er fjölbreytt. Ég hef unnið í fiski, við sundþjálfun, og í sölu- og þjónustustörfum en lengst af sem sérfræðingur hjá ríkinu. Hjá stjórnsýslu héraðsdómstóla þjónustuðum við starfsfólk víðs vegar um landið, og ég fór fyrir fjölbreyttum verkefnum, svo sem tölfræðiúrvinnslu og samskipti við hagaðila. Í störfum mínum fyrir Sýslumann var ég i sambandi við viðskiptavini skammtímagistingar (Airbnb), kom að mótun heimagistingar og forgangsröðun verkefna við stafræna þróun.

Í síðasta meirihluta var ég formaður íbúaráðsins í Breiðholti og líka öldungaráðs Reykjavíkur, var framkvæmdastjóri borgarstjórnar flokksins, varafulltrúi í skóla- og frístundaráði, í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og í innkaupa- og framkvæmdaráði. Við nýjan samstarfssáttmála eftir að Dagur hætti varð ég fyrsti varaborgarfulltrúi, sit í menningar- og íþróttaráði, velferðarráði og innkaupa- og framkvæmdaráði. Líka formaður í samstarfsnefnd skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu, sem er mjög skemmtilegt. Árið 2018 tók ég sæti í stjórn SffR og var síðan formaður félagsins fram að stjórnarskiptum 2020.

Rauði þráðurinn minn

Hvert barn skiptir máli – Ungmennahús fyrir 16+

Það voru hagsmunir barna í Breiðholti sem drógu mig inn í stjórnmálin, líðan þeirra og tækifæri til þátttöku í skipulegu íþrótta- og tómstundastarfi. Félagsleg virkni í nærsamfélaginu skiptir máli ‒ við viljum öll tilheyra hópi, sérstaklega meðan við erum ung. Í ljós hefur komið að fimmta hvert barn nýtir ekki frístundastyrkinn! Þetta eru ekki börn velefnaðra, heldur þvert á móti börn efnalítilla og jaðarsettra. Það er mikilvæg jöfnunar- og velferðaraðgerð að finna þessi börn og fjölskyldur og styðja þau í skipulegu tómstundastarfi eða íþróttum. Ég ætla að beita mér fyrir Ungmennahúsi fyrir aldurinn 16+ ‒ það getur orðið öruggur og skapandi staður þegar farið er inn í viðkvæm fullorðinsár, undir handleiðslu frístundafagfólks. Um leið værum við að leggja okkar af mörkum að skapa samfélag þar sem öll börn hafa tækifæri til að njóta sín óháð uppruna, tekjustöðu foreldra, búsetu og félagslegri stöðu.

Endurhugsum þjónustu við eldra fólk

Það er komin tími til að endurhugsa þjónustu við eldra fólk. Við eigum að horfa á nýjar þjónustuleiðir sem skapa fyrirsjáanleika, og tryggja sjálfstæða búsetu og meira valfrelsi. Ég vil beita mér fyrir stofnun „málstjóra“ eldra fólks þegar þörf er þverfaglegri þjónustu, til að einfalda líf aðstandenda og draga úr umönnunarbyrði kvenna. Ég ætla að tala áfram fyrir fjölbreyttum búsetuformum eins og kynslóðahúsi og sam-búð (e. co-living) til að sporna við einsemd og ýta undir félagslegt samneyti kynslóðanna.

Meiri og betri Mjódd

Það er mikilvægt að Mjóddin fá þá umbreytingu sem hún á skilið með skýrri og vandaðri framtíðarsýn. Ég vil halda áfram að tala fyrir Meiri Mjódd ‒ Betri Mjódd, þannig að Mjódd framtíðarinnar verði fjölskylduvæn, aðlaðandi, örugg ‒ borgarsamfélag sem laðar að fólk, þjónustu og blómlegt atvinnulíf. Þannig getur Mjóddin orðið fyrirmynd svipaðra miðstöðva annars staðar í borginni. Samhliða vil ég vinna að möguleika á flugrútu og strætó milli Keflavíkur og Mjóddar. Ávinningurinn er margþættur, en fyrst og fremst betri þjónusta og lífsgæði íbúa í eystri byggðum höfuðborgarsvæðis; það gæti dregið úr umferð og loftgæði batnað.

Hvers vegna borgarstjórn?

Framundan eru mikilvægar borgarstjórnarkosningar, kannski þær mikilvægustu sem við stöndum frammi um langt skeið. Nú getum við tryggt áframhaldandi þróun Reykjavíkur undir forystu jafnaðarfólks. Eftir að hafa verið hryggjarstykki í meirihlutanum síðustu þrjú kjörtímabil er mikilvægt fyrir Samfylkinguna að velja sér fjölbreyttan hóp fulltrúa ‒ þar sem sterk rödd „úthverfanna“fær að heyrast. Jafnaðarfólki gefst með mér tækifæri til að kjósa öflugan fulltrúa úr Breiðholti, og ég heiti því að vinna sem borgarfulltrúi af heilindum og dugnaði fyrir alla borgarbúa eins og ég hef gert fyrir hverfið mitt sem varaborgarfulltrúi síðustu árin.

Ég býð fram ferskan andvara úr austri ‒ býð fram Breiðhylting í borgarstjórn!