Sólveig Skaftadóttir - 2. - 4. sæti

Ég býð fram krafta mína fyrir hönd Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og sækist eftir 2. - 3. sæti í flokksvali sem fer fram þann 7. febrúar.
Ég býð mig fram vegna þess að ég vil hafa áhrif til góðs í mínu bæjarfélagi. Ég er með sýn um Kópavog sem betra samfélag með jöfnum tækifærum, bættum samgöngum og skipulagi. Það veiti skýra og aðgengilega þjónustu í takt við þarfir íbúa.
Sveitarstjórnarmál snúast um daglegt líf, skólamál og leikskólamál, þjónustu við íbúa og þá ekki síst eldri borgara og hvernig við komumst til og frá vinnu og skóla. Þetta snýst hreinlega um hvernig okkur líður í okkar daglega lífi. Ég býð mig fram til þess að vinna fyrir almannahag.
Ég hef víðtæka reynslu úr heimi stjórnmála og stjórnsýslu. Í dag starfa ég í stjórnsýslumálum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar, áður var ég samskiptastjóri stafrænnar miðlunar hjá Orkustofnun, en fyrir það var ég aðstoðarmaður þingflokks Samfylkingarinnar til fjölda ára. Samhliða því var ég ráðgjafi hjá flokkahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.
Ég er með meistaragráðu í Alþjóðafræðum frá Háskólanum í Hróarskeldu og BA próf í Evrópufræðum frá Háskólanum í Malmö. Ég mun útskrifast úr diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands í vor.
Ég er Kópavogsbúi í húð og hár. Ég bý á Kársnesinu steinsnar frá þeim stað sem ég ólst upp. Ég fékk frábært tónlistarlegt uppeldi í Kópavoginum og upplifði gleðina við það að eignast tónlistarhús í bænum og nýt þess að búa í nálægð við menningarmiðstöð bæjarins. Ég bjó um árabil í Kaupmannahöfn þar sem ég stundaði nám og starfaði. Sú reynsla hefur vissulega mótað sýn mína á samgöngur, skipulag og bæjarlíf. Þar upplifði ég hvernig vel skipulagt borgarumhverfi, öflugar almenningssamgöngur og aðgengi fyrir gangandi og hjólandi geta raunverulega bætt daglegt líf fólks. Þessi reynsla er mér dýrmæt þegar ég horfi til framtíðar Kópavogs.
Ég hlakka til vorsins og vona að Kópavogsbúar taki vel í símtöl og skilaboð frá mér og veitið mér lið í því að ná þessu markmiði mínu.