Samfylkingarfélagið í Reykjavík

Metoo - Hvað nú?

#Metoo byltingin hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgist með fjölmiðlum. Kynferðisofbeldi er samfélagsvandamál sem virðist rótgróið í menningu okkar og birtist í ólíkum myndum í öllum kimum samfélagsins óháð stétt og stöðu.

Stjórnmálakonur riðu á vaðið í haust og deildu reynslu sinni af ofbeldi á vettvangi stjórnmála og stjórnmálaflokka og kröfðust þess að gripið yrðu til aðgerða þannig að konur mættu starfa lausar við kynbundið ofbeldi og áreitni. Í kjölfar yfirlýsingarinnar var skipaður hópur innan Samfylkingarinnar sem fæst nú við það verkefni að útbúa verklagsreglur og aðgerðaáætlun til þess að takast á við þetta víðtæka og alvarlega vandamál.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík og Kvennahreyfing Samfylkingarinnar bjóða til fundar um #metoo laugardaginn nk. 20. janúar þar sem farið verður yfir hreyfinguna sjálfa, viðbrögð flokksins og þær aðgerðir sem er verið að undirbúa.

Á fundinum verða Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar sem átti frumkvæðið að áskorun stjórnmálakvenna, Sólveig Ásgrímsdóttir sálfræðingur sem situr í hópnum sem útbýr verklagsreglur fyrir flokkinn og Gestur K. Pálmason sem ásamt fleirum heldur utan um hópinn #égertil sem stofnaður var í haust í kjölfar #metoo bylgjunnar en meðal markmiða hópsins er að koma á umræðu meðal karlmanna um kynbundið ofbeldi, stöðva það og miðla nýjum gildum til drengja.

Öll velkomin – Aðgengi er gott – sjáumst!