Zoom

Stefnumót með frambjóðanda - Viðar Eggertsson

Stefnumót með frambjóðendum – spurt og spjallað?

Hver er uppáhaldsmatur Viðars?
Fyrir hverju brennur hann?

Þetta og margt margt fleira færðu að vita ef þú sest við skjáinn á næstu dögum til að kynnast frambjóðendum okkar í þremur efstu sætunum í Reykjavíkurkjördæmunum suður og norður.

"Ég vil jöfnuð í samfélag okkar og vinna fyrir jaðarsett fólk; fólk sem hefur ekki aðgengi að ræðustól og bakherbergjum; fólk sem nýtur ekki fullra mannréttinda; fólk sem er dæmt til fátæktar." - Viðar Eggertsson.

Samfylkingarfélagið í Reykjavík býður til rafrænna stefnumóta með þeim Jóhanni Páli, Helgu Völu, Kristrúnu, Dagbjörtu, Viðari og Rósu Björk núna í byrjun maí sem hér segir:

Viðar Eggertsson

Leikstjóri og verðandi eldri borgari í starfsþjálfun

Fæddur 1954, giftur Sveini Kjartanssyni matreiðslumeistara og á hundinn Ísar

Bý á Laufásvegi 39, 101 Reykjavík

"Ég vil jöfnuð í samfélag okkar og vinna fyrir jaðarsett fólk; fólk sem hefur ekki aðgengi að ræðustól og bakherbergjum; fólk sem nýtur ekki fullra mannréttinda; fólk sem er dæmt til fátæktar."

---

Mannréttindi – Velferð - Menning.

Í  allsnægtaþjóðfélagi okkar er gæðunum harla misskipt. Þeir sem verða undir er gjarnan fólk sem hefur ekki aðgengi að þeim tólum og tækjum sem velferðarsamfélagið ætti að rétta þeim til velferðar. Börn fæðast í aðstæður sem geta orðið þeim um megn að breyta. Fátækt verður oft að gildru sem þau eru föst í og það jafnvel til æviloka. Ég þekki sjálfur á eigin skinni að vera fátækt barn; að vera jaðarsettur. Að fá ekkert forskot í vöggugjöf. Mér tókst að brjótast úr þeim aðstæðum og það hefur meira og minna tekið mig allt lífið. Til að breyta óbærilegum aðstæðum þarf að koma til valdeflandi aðgerða sem veittar eru jaðarsettu fólki til að takast á við eigið líf og breyta því til batnaðar. 

Allan minn starfsaldur hefur manneskjan og hlutskipti hennar í sinni fjölbreyttustu mynd verið viðfangsefni mitt. Þetta hef ég gert sem leikari, leikstjóri, leikhússtjóri og dagskrárgerðarmaður á Rás 1. Í leikhúsinu og með dagskrárgerð í útvarpi fæst maður við að greina, skoða, álykta, skapa og ekki síst að kafa ofan í djúpin. Og ef vel tekst til þá getur maður komið með eitthvað einstakt upp á yfirborðið. En ferðalagið er ekki síður mikilvægt og gefandi en áfangastaðurinn sjálfur. Órjúfandi ferli að góðri áningu. Þetta er veganesti sem ég mun taka með mér. Því menning er mennska. 

Á síðustu árum hefur athygli mín beinst að fólki, aðstæðum þess og hlutskipti, sem er á þriðja æviskeiðinu, æviskeiðinu sem líka er kallað eftirlaunaaldur, eldri borgari. Mér hefur orðið ljóst að alltof stór hluti eldra fólks býr við óásættanleg kjör. Flest allir sem fara á eftirlaunaaldur falla í tekjum þeim til lífsviðurværis. Fólk sem hefur haft lítið úr bítum til daglegrar framfærslu og farsældar á öðru æviskeiðinu, fullorðinsárunum, er enn verr sett á þriðja æviskeiðinu. Það sorglegasta er þó að sjá að einu sinni voru þetta einmitt börnin sem á sínum tíma festust í fátæktargildrunni.

Það sem einkum veldur fátækt meðal eldri borgara er alltof lágur ellilífeyrir frá almannatryggingum og síðan óhóflegar skerðingar á honum vegna t.d. lífeyristekna. Þetta bitnar harðast á þeim verst settu, neðstu þremur tekjutíundunum. Konur eru í miklum meirihluta þessa fólks, því margar af þeim hafa framfleytt sér á lágum tekjum á starfsferli sínum, sem einnig hefur verið stopull vegna ólaunaðrar ábyrgðar á heimili og börnum. Þær eiga því rýran lífeyrissjóð. Í núgildandi lögum um almannatryggingar gleymdist þetta fólki í fína excel skjalinu.

Á allra síðustu árum hef ég starfað sem verkefnastjóri einstakra verkefna fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík, Landssamband eldri borgara og Gráa herinn.  Nú starfa ég sem skrifstofustjóri Landssambands eldri borgara í hlutastarfi og sit í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og öldungaráði Reykjavíkurborgar. Ég lít á þessi störf mín sem starfsþjálfun fyrir það að fara seinna meir á þriðja æviskeiðið og verða fyrirmyndar eldri borgari í fyllingu tímans, en vera þá búinn að búa þannig í haginn fyrir alla hina: „Að þeir eigi ánægjulegt ævikvöld.“

Frekari upplýsingar um Viðar: https://is.wikipedia.org/wiki/Viðar_Eggertsson?fbclid=IwAR11Vq2oCvUt2Pf7J19ib6y4MQTSuxwq8NKVpS41NkRMA6uwh54ihO7fzpQ

Facebook: https://www.facebook.com/vidar.eggertsson